)

Steven Gerrard

Það leikur lítill vafi á því hver hefur verið besti leikmaður Liverpool árið 2004. Houllier hefur ekki tekist upp sem skyldi en ákvörðun hans að gera Gerrard að fyrirliða var hárrétt.

Drengurinn hefur sprungið út með þvílíkum látum eftir að endurkoma Dietmar Hamann í liðið gerði honum kleift að gerast öllu sókndjarfari. Phil Thompson sagði að frammistaða hans gegn Portsmouth hefði verið ótrúleg og að hann væri um þessar mundir sterkasti miðjumaður í Evrópu. Houllier sagði ennfremur að hann gæti þróast í alvöru heimsklassaleikmann.

Það getur enginn sakast um við Steven Gerrard að hann slái slöku við. Hann virðist á tíðum bera liðið einn uppi með drifkrafti sínum og mættu menn taka hann sér til fyrirmyndar. Eftir að hann blómstraði tímabilið 2000-2001 tóku við tvö ár þar sem form hans rokkaði upp og niður. Hann var skyndilega orðinn stórstjarna og virtist allur hamagangurinn hafa haft truflandi áhrif á hann. Gerrard var greinilega ekki nógu einbeittur.

Gerrard hljóp kapp í kinn þegar hann tók við fyrirliðastöðunni og þurfti nokkra mánuði til að venjast þessari auknu ábyrgð. En eins og fyrr hefur verið greint frá virðist endurkoma Dietmar Hamann hafa losað um dýrið og nú getur hann lagt áherslu á að sækja í stað þess að gegna þreytandi varnarhlutverki sem Hamann leysir svo vel af hendi. Stevie G er að þróast í þann leikmann sem allir vonuðust eftir að hann gæti orðið og verður spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni verða betri og betri.
TIL BAKA