)

Milan Baros

Milan Baros vann Gullskóinn fyrir að vera markahæsti leikmaður í úrslitakeppni Evrópumóts landsliða sem lauk í Portúgal fyrr í mánuðinum. Strákurinn sem strax á unga aldri var kallaður Maradona Ostravíu var að auki valinn í opinbert úrvalslið mótsins og skipaði sér þar á bekk með bestu leikmönnum mótsins. Milan skoraði fimm mörk í jafn mörgum leikjum og endaði eins og áður sagði sem markahæsti maður mótsins. Fyrir utan mörkin fimm þá lék Milan frábærlega í Portúgal. Hann barðist eins og ljón, hljóp þindarlaust um grundir portúgalskra sparkvalla og var vörnum mótherja Tékka lánlaus ógn. Að auki geislaði leikgleði og baráttukraftur af honum. Í einu orði sagt þá lék hann frábærlega.

Af allri þessari upptalningu samanlagðri ætti þá ekki að vera óhætt að telja Milan með bestu sóknarmönnum Evrópu? Í þeim 29 landsleikjum sem hann hefur leikið fyrir Tékkland hefur hann skorað 21 mark. Það ætti því að liggja beint við að Milan ætti öruggt sæti í byrjunarliði félagsliðs síns. En svo hefur aldrei verið. Gerard Houllier fékk Milan til Liverpool frá Banik Ostrava í árslok 2001. En þrátt fyrir að hafa ítrekað lýst aðdáun sinni á Tékkanum þá virtist Gerard aldrei vera fyllilega tilbúinn að gefa Milan fast sæti í byrjunarliðinu. Reyndar virtist svo ætla að vera í byrjun síðustu leiktíðar en ökklabrotið setti allt úr skorðum. Endurkoma Milan snemma árs lofaði góðu. Hann skoraði tvö mörk, sem voru reyndar einu mörk hans fyrir Liverpool á leiktíðinni, og lék vel. En svo datt hann út úr liðinu og Tékkinn kom ekkert við sögu í síðustu fjórum deildarleikjunum. Nú í sumar sagðist hann, á vordögum, hafa verið kominn að því að gefa feril sinn hjá Liverpool upp á bátinn.

En í Portúgal þá blómstraði Milan eins og nýútsprunginn túnfífill á sólbjörtum sumardegi. Hann endurheimti leikgleði sína og raðaði inn mörkum sem voru hvert öðru fallegra. Það eina sem upp á vantaði var að Tékkar hömpuðu Evrópumitlinum eins og flestir stuðningsmenn Liverpool vonuðust líklega til. Að minnsta kosti var Tékkland í uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Liverpool þegar á leið keppnina. Markakóngstitilinn var Milan lítil huggun þegar þeir féllu úr leik í undanúrslitum fyrir tilvonandi meisturum Grikkja.

Milan var hálfundrandi á því hversu vel honum gekk í Portúgal. "Ef einhver hefði sagt við mig fyrir keppnina að ég myndi skora fimm mörk til að hjálpa Tékkum að komast í undanúrslit þá hefði ég hlegið." En markskorun Milan kom hinum sallarólega þjálfara Tékklands, Karel Bruckner, ekkert á óvart. "Hann hefur mjög gott auga fyrir því að skora mörk. Mér finnst það því ofur eðlilegt að hann sé markahæsti maður mótsins."

Um leið og Evrópumótinu lauk voru stórlið á borð við Real Madrid orðuð við Milan. Það mátti að sjálfsögðu búast við því. Vonandi fer Milan hvergi. Eins og allir aðrir leikmenn Liverpool þá á Milan nú jafna möguleika á að sanna sig fyrir Rafael Benítes. Hann eins og aðrir þarf að gera það. Afrek hans í Portúgal breyta engu þar um. Milan hefur allt nema eitt með sér í því verkefni. Markaskorun hans með landsliðinu á fáa jafningja sína í knattspyrnuheiminum í dag og hann er mjög vinsæll meðal stuðningsmanna Liverpool. Það eina sem hefur unnið gegn honum í dvöl hans á Merseybökkum er að hann hefur ekki náð að skora jafn reglulega fyrir Liverpool og tékkneska landsliðið. Vonandi gefur Rafael Benítes honum tækifæri á að leggja inn á markareikninginn hjá Liverpool. Milan á sannarlega skilið að fá tækifæri að sanna sig hjá Liverpool. Annað er ekki sanngjarnt.

TIL BAKA