)

Jamie Carragher

Það er sama á hverju gengur það má altaf treysta á Jamie Carragher. Þrír síðustu framkvæmdastjórar Liverpool hafa sett traust sitt á hann í hinum ýmsu stöðum. Þeir Roy Evans og Gerard Houllier höfðu Jamie sem fastamann og það sama er uppi á teningnum hjá Rafael Benítes.

Afstaða þessara þriggja framkvæmdastjóra Liverpool þarf ekki að koma á óvart. Lykillinn að veru Jamie í liðinu er auðvitað sá að hann leggur sig alltaf allan fram og gefst aldrei upp sama á hverju sem gengur. Það kom best í ljós á síðustu leiktíð. Hann fótbrotnaði þá í leik gegn Blackburn í september. Reyndar ætlaði hann að klára þann leik og reyndi að standa í fótinn sem var brotinn! En hann varð að sætta sig við að vera frá leik og keppni fram í janúar. Þá kom hann aftur til leiks, fór beint í byrjunarliðið og hefur verið þar alla tíð síðan. Jamie er nú leikreyndasti maður Liverpool. Í upphafi leiktíðar var hann búinn að spila 306 leiki fyrir Liverpool. Nú í vikunni var hann einn leikmanna Liverpool valinn í enska landsliðshópinn fyrir komandi landsleikjahrotu. Það segir sína sögu.

Í lok síðustu leiktíðar var Jamie færður úr stöðu hægri bakvarðar. Hann hefur þaðan í frá leikið sem miðvörður við hlið Sami Hyypia. Svo vel hefur hann leikið að Stephane Henchoz, sem svo lengi lék við hlið Sami, kemst ekki lengur í liðið. Líklega er þetta besta staða Jamie sem þó hefur leikið á miðjunni og báðar bakvarðarstöðurnar á ferli sínum.

Síðustu tveir leikir Liverpool hafa tapast. Einn leikmaður hefur staðið upp úr í þessum erfiðu leikjum gegn Olympiakos og Chelsea. Jamie var besti maður liðsins í báðum leikjunum. Eldmóður hans gegn Chelsea var aðdáunarveður. Hvað eftir annað var hann sá sem kom til bjargar í vörninni. En Jamie hugsar ekki um eigin frama. Liðið gengur fyrir og hann er ófeiminn við að tjá sig þegar á móti blæs. Þetta sagði hann eftir leikinn við Olympiakos. "Leikurinn er milli liða sem bæði eru skipuð ellefu leikmönnum. Völlurinn er jafn stór fyrir bæði lið og það er leikið með sama boltann. Við verðum að vera karlmenn og sýna meiri viljastyrk. Menn verða að vilja fá boltann og fara í fleiri einvígi. Á útivöllum ganga öflugustu mennirnir fram fyrir skjöldu. Við stóðum okkur ekki nógu vel. Leikmenn Olympiakos börðust miklu betur en við, sýndu meiri viljastyrk og grimmd. Ekki var það gott en svona var leikurinn. Allir verða að taka meiri ábyrgð og ég er ekki undanskilinn í því."

Einhverjir hefðu kannski haldið að Jamie myndi eiga erfitt uppdráttar þegar Rafael Benítes tók við. En Rafael, eins og þeir Roy Evans og Gerard Houllier, hefur komist að raun um að Jamie er lykilmaður sem er betra að hafa inni á vellinum en utan hans. Rafael sagði í síðustu viku. "Það er auðveldara fyrir varnarmenn, en aðra leikmenn, að sýna meiri grimmd. En ég vildi hafa fleiri leikmenn með sama hugfar og Jamie Carragher." Betri gerast umsagnirnar varla.

Það eru margir knattspyrnumenn sem búa yfir meiri knattspyrnuhæfileikum og tækni en Jamie Carragher. Margir þeirra hafa samt ekki náð eins langt og Jamie. Carra hefur nefnilega notað þá hæfileika sem hann býr yfir eins vel og kostur er. Að viðbættum takmarkalausum baráttuanda og stórum skammti af kímnigáfu þá telst Jamie Carragher einn af lykilmönnum Liverpool. Hann er búinn að vera það undanfarnar leiktíðir og allt bendir til þess að hann verði það áfram.

Það eru ekki margir sem leggja sig jafn vel fram fyrir málstað Liverpool. Að hugsa sér að Carra hafi haldið með Everton í æsku! Maður hefði ekki getað ímyndað sér það að óreyndu.!

TIL BAKA