)

Billy Liddell

Liverpool Football Club hefur aldrei heiðrað neinn leikmann á sama hátt og félagið heiðraði Billy Liddell nú á dögunum. Aldrei áður hefur sérstakt minnismerki verið útbúið handa einum leikmanna félagsins. Þessi magnaði Skoti var heldur ekki neinn venjulegur knattspyrnumaður. Félagið lét gera minnismerki um Billy sem Phyllis, ekkja hans, afhjúpaði við hátíðlega athöfn þann 4. nóvember síðastliðinn. Hún var að sjálfsögðu ánægð með daginn. "Eldri kynslóðina hefur alltaf langað til að þetta myndi gerast. Þetta var mjög tilfinningaþrungin stund."

Ian Callaghan var viðstaddur athöfnina. Hann var að hefja feril sinn á þeim tíma sem ferill Billy var um það bil að enda. Hann átti eftir að taka stöðu Billy í liðinu. "Hann var hetjan mín. Það voru mér mikil forréttindi að taka við af Billy og hann var aðalástæðan fyrir því að ég varð stuðningsmaður Liverpool. Hann var risi innan vallar sem utan. Hann var indæll maður."

Albert heitinn Stubbins lýsti félaga sínum svo. "Hann var frábær leikmaður og ég naut þeirrar gæfu að leika með honum þegar hann var upp á sitt besta. Hann dældi sendingunum fyrir af vinstri kantinum og lagði upp fjölda marka fyrir mig. Hann var mjög fljótur, skotfastur, jafnvígur á vinstri og hægri og gaf sig allan í leikinn. Hann braut lítið af sér og ég sá hann aldrei lenda í útistöðum við leikmenn. Hann var sannkallaður heiðursmaður. Ég get ekki séð að hann hafði neinn veikleika sem leikmaður. Billy er meðal bestu leikmanna sem ég hef séð og er á sama stalli í mínum huga og Stanley Mathews og Tom Finney."

Í dag getum við stuðningsmenn Liverpool líklega ekki gert okkur í hugarlund hversu mikið stórmenni Billy Liddell í raun og veru var. Hann var svo góður að Liverpool var um tíma kallað "Liddellpool"! En Billy var ekki bara stórkostlegur knattspyrnumaður. Hann var líka sannkallað valmenni og glæsilegur fulltrúi Liverpool innan vallar og ekki síður utan hans. En afrek hans innan vallar standa þó eftir og ekki síður hollusta hans við félagið. Þrátt fyrir fall Liverpool í aðra deild vorið 1954 þá kom Skotanum ekki til hugar að söðla um. Þess í stað gaf hann allt sitt í að reyna að koma liðinu aftur í hóp þeirra bestu. Honum tókst það ekki en enginn reyndi meira til þess.

Billy kom frá Skotlandi og samdi við félagið áður en styrjöldin hófst. Hann hóf að leika með Liverpool eftir síðari heimsstyrjöldina og varð enskur meistari með félaginu leiktíðina 1946/47. Þetta var eini titillinn sem hann vann hjá Liverpool. En hann ávann sér ef til vill það sem meira var varið í. Ómælda virðingu stuðningsmanna Liverpool. Það er til efs að nokkur leikmaður félagsins hafi, á ferli sínum, notið viðlíkra vinsælda og þá er mikið sagt! Glæsilegum ferli hans lauk árið 1960. Þá hafði hann leikið 534 leiki með Liverpool og skorað 228 mörk. Billy bjó alla tíð í Liverpool eftir að hann kom til félagsins. Hann lést sumarið 2001. Billy var sjálfur sáttur þegar ferlinum lauk. "Ég naut hverrar mínútu af þessu dásamlega starfi. Ég fékk borgað fyrir að starfa við það sem langaði til. Ég ferðaðist um heiminn, kynntist mörgu áhugaverðu fólki og naut nokkurrar viðurkenningar. Hversu meira gæti nokkur óskað sér?" Á síðasta ári kom út bók um Billy Liddell, "The Legend Who Carried The Kop", eftir blaðamanninn John Keith. Roger Hunt, fyrrum leikmaður Liverpool, skrifar formála í bókina. Hann hefst svona. "Ímyndið ykkur leikmann sem leikur fyrir Liverpool leiktíð eftir leiktíð og er markahæsti leikmaður liðsins í átta af níu árum. Hann leikur fyrir hönd Skotlands og Stóra Bretlands. Allt þetta afrekar hann þrátt fyrir að æfa aðeins tvo morgna í viku því hann er að reyna að skapa sér nafn sem bókhaldari. Þetta er handrit sem gæti verið tekið úr myndasögum fyrir stráka. En í tilfelli Billy Liddell þá var þetta ótrúlegur veruleiki. Það var því ekki að undra að hann væri goðsögn!"

Kóngsins Billy Liddell hefur nú verið minnst á þann hátt sem minning hans verðskuldar. Sumir telja Billy besta leikmann í sögu félagsins. Líklega stendur valið á milli hans og landa hans Kenny Dalglish. Báðir hlutu, á ferli sínum, kónungsnafnbót hjá The Kop. Hana hafa ekki aðrir hlotið. Nú geta stuðningsmenn Liverpool barið minnismerki, um manninn sem heilt knattspyrnufélag var nefnt eftir, augum þegar þeir leggja leið sína á Anfield Road. Allir ættu að leita það uppi og skoða!

TIL BAKA