)

Luis Garcia

Luis Garcia er búinn að vera frábær síðustu vikurnar. Spánverjinn hefur sýnt það og sannað að Rafael Benítez gerði rétt í að kaupa hann. Það sem er enn betra er að trúlega á hann eftir að vera enn betri!

Luis var ekki mjög þekktur þegar hann kom um leið og landi hans Xabi Alonso á liðnu hausti. Hann hafði til dæmis ekki leikið með spænska landsliðinu. Það var ekki fyrr en í apríl sem hann lék sinn fyrsta landsleik. Luis var keyptur frá Barcelona. Að sögn voru forráðamenn Katalóníurisans ekki ánægðir með að Luis vildi hafa vistaskipti. En Luis vildi söðla um. Hann þekkti til verka Rafael Benítez og sló til þegar fyrrum lærimeistari hans kallaði. Luis byrjaði mjög vel með Liverpool og skoraði nokkur mörk í fyrstu leikjum sínum. Eftir meiðsli gegn Mónakó í furstadæminu missti hann nokkuð úr. Þegar hann kom aftur til leiks náði hann sér ekki á strik í fyrstu. Stuðningsmenn Liverpool, voru margir hverjir, ekki hrifnir af tilburðum hans. Vissulega var hann að reyna svipaða hluti og áður en ekkert gekk upp. Hann var gjarn á að missa boltann og markskotin fóru víðs fjarri markinu.

En smá saman fór Luis að ganga betur. Vendipunkturinn gæti hafa verið gegn Norwich í upphafi ársins. Hann skoraði þá laglegt mark með því að vippa boltanum yfir markvörðinn. Boltinn virtist ætla yfir en datt niður í markið. Liverpool vann leikinn 2:1 og eftir þetta hefur Luis leikið æ betur. Þegar þetta er skrifað hefur Spánverjinn skorað tólf mörk og er næstmarkahæsti leikmaður Liverpool. Fyrir utan mörkin þá hefur hann átt þátt í mörkum sem aðrir hafa skorað. Luis hefur líka oft verið maðurinn á bak við margar fallegar sóknir Liverpool. Mörkin hans hafa líka verið mikilvæg. Hann skoraði sigurmörkin í 2:1 sigrum gegn Everton, Juventus og nú síðast Portsmouth.

Markið hans gegn Juventus sýndi kannski Luis í hnotskurn. Það virtist ekkert sérstakt í gangi þegar boltinn féll fyrir hann utan við vítateiginn. En Luis dettur margt í hug. Hann þrumaði boltanum viðstöðulaust á markið. Boltinn hafnaði í markinu óverjandi fyrir markvörð ítalska liðsins. Frábært mark og eitt ef ekki það fallegasta sem leikmaður Liverpool hefur skorað á leiktíðinni.

Luis er greinilega mjög snjall leikmaður. Hann er duglegur og er sífellt að reyna að skapa eitthvað. Vissulega gengur ekki allt upp sem hann reynir. Tilburðir hans geta þá reynt á þolrif áhorfenda. En líklega er ekki rétt hrista hausinn þegar Luis mistekst. Þetta er einfaldlega leikstíll hans. Hann fer ekki alltaf auðveldar leiðir. En stuðningsmenn Liverpool gleðjast nú yfir því að hafa hann í sínu liði. Því maður eins og Luis Garcia er skemmtilegur leikmaður sem alltaf er eitthvað að gerast í kringum. Að auki virðist Luis alltaf vera jákvæður og hann spilar með bros á vör. Luis Garcia eru án efa ein bestu kaup leiktíðarinnar. Rafael Benítez hitti þar naglann á höfuðið.

TIL BAKA