)

Peter Crouch

Fáir leikmenn hafa mátt þola fleiri háðsglósur frá stuðningsmönnum andstæðinga Liverpool og sparkspekingum á þessari leiktíð. Samt hefur Peter Crouch staðið uppréttur í gegnum þykkt og þunnt. Kaup Peter Crouch á liðnu sumri voru umdeild og þá ekki síst hjá stuðningsmönnum Liverpool. Hvernig átti þessi sláni að geta styrkt lið Evrópumeistaranna spurðu stuðningsmenn Liverpool sem enn brostu út að eyrum eftir sigurinn á AC Milan í maí? Rafael Benítez blés á allar efasemdaraddir. Peter var maður sem hann var búinn að hafa í sigtinu í marga mánuði. Ekkert breytti þeirri skoðun Spánverjans að Peter gæti bætt sóknarleik Liverpool og því borgaði hann uppsett verð fyrir strákinn.

Peter Crocuh byrjaði nokkuð vel og stuðningsmenn Liverpool voru fljótir að hrífast af því hversu duglegur hann var að hræra í vörnum andstæðinga Evrópumeistaranna. Hann sýndi líka góða knattmeðferð og lagði boltann oft vel fyrir fætur félaga sinna. En mark hvað þá mörk létu á sér standa. Leið nú og beið. Hverjum leiknum lauk á fætu öðrum án þess að Peter næði að koma boltanum í mark andstæðinga Liverpool. Til að byrja með höfðu menn nú kannski ekki miklar áhyggjur af þessu máli en þegar markalausu leikirnir voru komnir vel á annan tug fóru gagnrýnisraddir að heyrast úr flestum hornum. Undanskildar voru þó herbúðir Liverpool þar sem menn grðu allt til að stappa stálinu í risann. Allt var reynt og gegn sínu gamla félagi Portsmouth fékk Peter meira að segja að taka vítaspyrnu. Allt var á sömu bókina lært og vítaspyrnan var varin. Háðsglósum og bröndurum fjölgaði dag frá degi. Líklega var þó erfiðasta stundin fyrir Peter þegar hann mátti þola baul svokallaðra stuðningsmanna enska landsliðsins á Old Trafford þegar hann kom inn á gegn Austurríki.

En þann þriðja dag desember, í sínum nítjánda leik með Liverpool, náði Peter loks að brjóta ísinn í leik gegn Wigan á Anfield Road. Hann skaut utan vítateigs í varnarmann og eftir það hafði markvörður gestanna hendur á boltanum en í markið fór hann. Við tóku einn mesti fögnuður leiktíðarinnar. Fyrr í leiknum var sólarhringur liðinn frá því Peter hóf að leika með Liverpool ef leiknar mínútur voru lagðar saman. En þegar Peter skoraði sitt annað mark í leiknum var öll neikvæð tölfræði hent út í horn. Að minnsta kosti gerðu stuðningsmenn Liverpool það. Peter var auðvitað í skýjunum eftir leikinn. ,,Ég var mjög heppinn í fyrsta markinu.  Skotið var á markið en það fór hærra en ég ráðlagði.  Ef markið fer fyrir nefnd sem ákveður hver á það þá mun ég segja þeim að markið sé 100% mitt. Ég er glaðlyndur að eðlisfari en þessi markaþurrð hafði stundum áhrif á mig.  Það hefur verið skotið á mig úr öllum áttum undanfarið en það er frábært að skora og vonandi verður þetta til þess að ég fari að skora meira."

Þessi tvö fyrstu mörk komu Peter á sporið og fram til áramóta skoraði hann fimm mörk í viðbót. Hann kvaddi Evrópumeistaraárið með eina markinu í leik Liverpool og West Bromwich Albion á Anfield Road. Stuðningsmenn Liverpool sem flestir höfðu staðið við bakið á Peter gátu nú andað léttar. Sögulegt sigurmark hans gegn Manchester United í F.A. bikarnum minnkaði ekki vinsældir hans. Það var ekki að undra þótt Peter væri ángægður með markið sem tryggði fyrsta sigur Liverpool á Rauðu djöflunum í áttatíu og fimm ár. ,,Leikir Liverpool og Man. Utd. eru sennilega þeir stærstu í ensku knattspyrnunni svo að það er einstakt að skora sigurmarkið í þeirri viðureign." Ekki spillti fyrsta mark hans fyrir enska landsliðið fyrir. Hann skoraði þá jöfnunarmark gegn Úrúgvæ á heimavelli sínum í leik sem enska liðið vann svo 2:1. Peter átti stórleik gegn Newcastle um liðna helgi. Hann skoraði eitt mark og átti þátt í tveimur. Markið hans fyllti fyrsta tuginn í mörkum skoruðum fyrir Liverpool. Að auki þá þýddi þessi sigur að Liverpool hafði nú skorað átta mörk í tveimur leikjum eftir markatregðu frá áramótum. ,,Þetta er mjög ánægjulegt. Við skoruðum fimm mörk í síðustu viku og þrjú í gær þannig að þetta er í góðu lagi. Við höfum alltaf spilað vel og náð úrslitum en það er gott að ganga frá leikjunum almennilega og okkur hefur tekist það síðustu daga. Við hefðum jafnvel getað skorað fleiri mörk."

Það er ljóst að Peter Crouch er ekki mikill markaskorari og trúlega á hann ekki eftir að ná tuttugu mörkum á einni leiktíð. Þó skal ekkert útilokað í þeim efnum. En Peter má eiga það að hann er gríðarlega duglegur. Hann hefur til dæmis haldið Djibril Cissé út úr liðinu vegna þess aðllega hversu duglegur hann er. Peter býr líka yfir kostum sem fáir sóknarmenn hafa. Hann gæti því reynst best við hliðina á meiri markaskorara en hann er sjálfur. Hver sá markaskorari gæti verið er ekki gott að segja til um. En það má þó ljóst vera að Peter Crouch mun koma nokkuð við sögu í sóknarleik Liverpool á komandi árum. Að minnsta kosti ef marka má það álit sem Rafael Benítez hefur á þessum hávaxnansta leikmanni sem hefur leikið fyrir hönd Liverpool.


  

TIL BAKA