)

Javier Mascherano

Javier Mascherano hefur staðið í ströngu í sumar á meðan flestir félaga hans í Liverpool hafa hvílt lúin bein. Javier var fastamaður í liði Argentínumanna sem komst í úrslit í Suður Ameríkukeppninni í knattspyrnu. Argentínska liðið lék frábærlega í keppninni allt þar til koma að úrslitaleiknum. Þá sneru Brasilíumenn á Silfurlendinga sem máttu sætta sig við silfrið. Javier lék alla sex leiki Argentínumanna. Hann spilaði aftarlega á miðjunni og átti skínandi leiki. Að auki tók hann upp á því að skora og það meira að segja tvívegis! Javier hafði ekki skorað eitt einasta mark í landsleikjum sínum en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði í tveimur landsleikjum í röð!

Javier er nú kominn í langþráð sumarfrí. Vissulega hefði sumarfríið verið skemmtilegra ef Javier hefði haft gull upp úr krafsinu í Venesúela en það verður ekki við öllu séð.

Tap Argentínumanna gegn Brasilíumönnum var annað tapið sem Javier hefur mátt þola í úrslitaleik á þessu ári. Hann var í byrjunarliði Liverpool gegn AC Milan í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vor. Javier þótti einn besti leikmaður Liverpool í þeim leik og hann undirstrikaði í honum að hann er orðinn einn af lykilmönnum Liverpool. Stuðningsmenn Liverpool voru flestir eitt spurningarmerki í upphafi ársins þegar spurðist að Rafael Benítez væri á höttunum eftir einhverjum Argentínumanni sem ekki hafði komist í liðið hjá West Ham United sem stóð þó í harðri fallbaráttu. Forráðamenn Liverpool fóru sér hægt í því að fá Javier og tryggðu það á allan hugsanlegan hátt að allt færi eftir settum reglum. Alþjóðaknattspyrnusambandið gaf Liverpool loks leyfi til að gera lánssamning við Javier. Liverpool hefur sem sagt ekki enn keypt Javier en félagið mun eiga forkaupsrétt á honum á næsta ári. Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvort Liverpool getur keypt hann þegar þar að kemur. Eignarhald hans er líklega jafn óljóst og félaga hans Carlos Tevez! Það er þó seinna tíma vandamál og reyndar er alls ekki víst að Liverpool ætli sér að kaupa leikmanninn.

Javier hafði þetta að segja þegar það lá fyrir að hann mætti leika með Liverpool. "Mig langar að endurgjalda Liverpool, það sem þeir lögðu á sig til að semja við mig, inni á vellinum. Ég vil öðlast virðingu leikmanna Liverpool á æfingum og vinna mér sæti í liðinu á eigin verðleikum. Nýjar dyr hafa núna opnast og eins og ætíð þá mun ég einbeita mér að því að berjast fyrir sæti mínu í liðinu." Stuðningsmenn Liverpool voru enn á báðum áttum með hvað þeir áttu að halda um Javier þegar hann lék sinn fyrsta leik með Liverpool gegn Sheffield United á Anfield Road undir lok febrúar. Liverpool vann 4:0 sigur og Javier lék vel.

Javier lék ellefu leiki með Liverpool á síðustu leiktíð og það kom fljótt í ljós að þarna fór leikmaður sem kunni sitt fag. Hann spilar aftarlega á miðjunni og það má segja að hann minni um margt á þýska foringjann Dietmar Hamann. Orð Rafael Benítez endurspegla það. "Hann á ekki bara góðar sendingar heldur mætir hann líka á rétta staði til að taka á móti boltanum frá samherjum og gefur öðrum góða möguleika í því að senda boltann á sig."  Ef einhverjir efasemdarmenn voru enn til þá mátti benda þeim á hvað sjálfur Diego Maradona sagði um landa sinn fyrir nokkrum árum. "Javier Mascherano er mesta efni af öllum þeim ungu leikmönnum sem ég hef séð á síðustu árum. Hann er algert skrímsli og á eftir að ná langt." Ætli sé ekki best að þessi orð goðsagnarinnar verði þau síðustu í þessari umfjöllun um Argentínumanninn sem vonandi heldur áfram þaðan sem frá var horfið hjá Liverpool á síðustu leiktíð.

Sf. Gutt.

 

TIL BAKA