)

Fernando Torres

Fernando Torres er dýrasti leikmaðurinn í sögu Liverpool. Liverpool borgaði hvorki meira né minna en tuttugu milljónir sterlingspunda fyrir að fá hann frá Atletico Madrid. Því einu, að vera dýrasti leikmaðurinn sem hefur leikið með Liverpool, fylgja gífurlegar væntingar. Spánverjinn hefur nú þegar, það sem af er leiktíðarinnar, sýnt hvað í hann er spunnið. Góð byrjun hans með Liverpool spillir auðvitað ekki fyrir en ekki minnka væntingarnar við að byrja vel!

Fernando Torres hefur verið einn af allra eftirsóttustu miðherjum í heimi síðustu árin. Hollusta hans við Atletico Madrid, sem hann hefur leikið með frá unga aldri, var þó óbilandi þar til í sumar. Rafael Benítez tókst það sem fjölmörgum framkvæmdastjórum helstu stórliða álfunnar hafði aldrei tekist. Honum tókst að fá Fernando til að íhuga að yfirgefa Madríd og flytja föggur sínar til Englands. Rafael gerði reyndar gott betur en að fá gulldreng Atletico til íhuga að yfirgefa félagið sitt. Hann náði að fá landa sinn til að yfirgefa sitt ástsæla félag. Liverpool þurfti að borga metfé fyrir þennan eftirsótta sóknarmann sem hefur verið holdgerfingur Atletico Madrid síðustu árin. Hann var Atletico það sem Raul var Real Madrid. Hann var í guðatölu hjá stuðningsmönnum Atletico og þeim fannst mörgum sem heimurinn væri að farast þegar Fernando gerði vistaskipti sín kunngerð.

Fernando Torres hefur flesta þá kosti sem prýða frábæra sóknarmenn. Hann er stór, sterkur, fljótur og fylginn sér. Þar fyrir utan þá er hann öllu vanur. Hann var til dæmis ekki nema nítján ára þegar hann varð gerður að fyrirliða Atletico Madrid. Yngri maður hafði aldri leitt þetta fornfræga félag sem fyrirliði. Álag og væntingar eru því nokkuð sem Fernando Torres er vanur. Á hinn bóginn má segja að kaupverðið eitt og sér og sú staðreynd að hann er dýrasti leikmaður í sögu Liverpool geri það að verkum að Fernando má ekki mistakast með Liverpool!

Stuðningsmenn Liverpool voru spenntir í meira lagi þegar leiktíðin hófst fyrir alvöru á Villa Park. Fernando Torres lék vel í fyrsta leik sínum gegn Aston Villa sem Liverpool vann 2:1 og átti þátt í fyrra marki Liverpool. Fyrsta verulega prófraun hans með Liverpool kom þegar tvöfaldir bikarmeistarar Chelsea komu í heimsókn til Liverpool. Fernando náði forystu fyrir Liverpool með stórglæsilegu marki og aðeins slæm mistök dómarans komu í veg fyrir að markið tryggði Liverpool sigur. Leikmenn Chelsea fögnuðu 1:1 jafntefli í leikslok! Varnarmenn Sunderland áttu í stökustu vandræðum með Fernando í næsta leik sem Liverpool vann 2:0. Fernando skoraði svo tvö mörk þegar Liverpool leiddi Hrútana til slátrunnar á Anfield Road í 6:0 sigri. Það verður því ekki annað sagt en að Fernando hafi byrjað vel með Liverpool. Hann er búinn að skora þrjú mörk og spila mjög vel. Vegferð "Drengsins" með Rauða hernum er rétt nýhafin en byrjunin lofar sannarlega góðu.

Fyrrum leikmenn Liverpool hafa fylgst vel með fyrstu skrefum Fernando Torres með Liverpool. Kenny Dalglish hreifst af Fernando í leiknum við Chelsea. "Ég reis úr sæti mínu á Spáni þegar hann var að láta John Terry finna fyrir sér og John öskraði framan í hann. Það eru ekki margir sem raska ró John Terry en Fernando Torres tókst það á fyrstu tíu mínútunum. Ég var hæstánægður þegar hann skoraði. Það hvernig hann beið eftir því hvað Stevie myndi gera með boltann og klókindi hans þegar hann stoppaði og skaust svo af stað aftur framhjá varnarmanninum segir manni að hann muni verða stjarna. Það er næsta víst að hver einasti varnarmaður í landinu mun hafa horft á þennan leik og þeir verða allir taugaóstyrkir við tilhugsunina að mæta honum.Þeir verða jafnvel mjög hræddir." Ian Rush var líka ánægur með framgöngu Fernando gegn Chelsea. "Fernando Torres gæti ekki hafa gert meira til að heilla stuðningsmenn Liverpool. Markið hans minnti mig á þegar Michael Owen var ungur. Hann var eldfljótur og kláraði færið fullkomlega. Það er hverju liði gríðarlegur styrkur að hafa sóknarmann sem er svona rosalega fljótur. En það er ekki nóg að vera fljótur að hlaupa. Maður verður að vera snöggur af stað til að nýta hæfilega sína sem best. Ef maður bætir árvekninni og hæfileikanum til að afgreiða boltann í markið, sem við sáum á sunnudaginn, þá er hér um frábæra samsetningu að ræða. Hvernig hann kom boltanum, með innanfótarspyrnu, í markhornið þar sem Petr Cech átti ekki möguleika á að verja sýndi og sannaði að Liverpool hefur fjárfest í leikmanni í hæsta gæðaflokki. Mér finnst líka frábært að sjá hversu vel Fernando vinnur fyrir liðið. The Kop hafur strax fundið sér hetju."

Sf. Gutt.

 

TIL BAKA