)

Steven Gerrard

Steven Gerrard á sannarlega skildar hamingjuóskir! Hann lék, gegn Arsenal á dögunum, sinn fjögur hundraðasta leik fyrir hönd Liverpool.

Það var snemma ljóst að Steven Gerrard væri mjög efnilegur knattspyrnumaður. Það voru þó líklega ekki margir sem höfðu trú á því að strákurinn, sem kom inn sem varamaður fyrir Vegard Heggem undir lok leiks Liverpool og Blackburn Rovers þann 29. nóvember 1998, myndi eiga eftir að leika 400 leiki með Liverpool. Þeim áfanga náði hann samt gegn Arsenal.

Á þeim tæpa áratug sem liðinn er frá því Steven lék sinn fyrsta leik með Liverpool hefur hann skipað sér í röð bestu knattspyrnumanna sinnar kynslóðar. Hann er búinn að vera besti leikmaður Liverpool síðustu árin og hann á alla möguleika á því að verða, eftir því sem árin líða, að verða talinn meðal goðsagna Liverpool Football Club. Ýmsir hafa reyndar þá skoðun að hann sé ef til vill svolítið ofmetinn en því verður ekki á móti mælt að Steven Gerrard er stórkostlegur leikmaður.

Steven sýndi gegn Arsenal að hann er mikill keppnismaður. Helgina áður hafði hann mátt þola það að vera skipt af leikvelli gegn Everton. Ekki nóg með það að vera skipt út af heldur stóðu leikar jafnir og Liverpool manni fleiri! Hvernig gat þá Rafael Benítez dottið í hug að skipta Steven af velli? Allt fór vel og Liverpool vann sigur. Á hinn bóginn var Steven auðvitað ekki kátur með að vera tekinn af leikvelli í einum af stórleikjum leiktíðarinnar. Hann brást hart við og strax í næsta leik sýndi hann að hann ætlaði að bæta í. Hann lék vel gegn Besiktas og skoraði mark Liverpool í þeim leik. Gegn Arsenal könnuðust stuðningsmenn Liverpool svo við leiðtogann! 

Það má kannski segja að fjögur hundraðasti leikur Steven Gerrard með Liverpool hafi verið nokkuð dæmigerður fyrir feril hans hjá Liverpool. Hann var á þönum úti um allan völl frá upphafi leiks þar til dómarinn flautaði til leiksloka. Hann dró þannig sína menn áfram og sýndi gott fordæmi. Að auki skoraði Steven fallegt mark. Það var 78. mark hans í þeim 400 leikjum sem hann er búinn að spila. Það á án nokkurs vafa eftir að bætast við þessar tölur næstu árin. Steven hefur margt oft sagt að hann vilji vera sem allra lengst hjá Liverpool og vonandi verður raunin sú.

Við stuðningsmenn Liverpool erum ekki einir um að meta Steven Gerrard mikils. Hann var kjörinn Knattspyrnumaður ársins 2006 af leikmönnum ensku deildanna. Árið áður var hann valinn besti leikmaður Meistaradeildarinnar. Fyrr á þessu ári fékk hann svo MBE orðuna frá Bretadrottningu. Steven hefur að auki unnið fjölda titla með Liverpool. Þeir munu vera orðnir níu talsins. Enn vantar þó enska meistaratitilinn í það safn. Stuðningsmenn Liverpool geta verið vissir um að Steven mun leggja sig allan fram við að ná þeim titli í safn sitt.  

Sf. Gutt.

 

TIL BAKA