)

Lucas Leiva

Það er ekki gott að segja til um hvort Lucas Leiva á eftir að festa sig í sessi hjá Liverpool. Hann getur þó líklega verið ánægður með fyrstu leiktíð sína hjá Liverpool. Hann endaði hana að minnsta kosti með því að fagna titli.

Lucas Leiva lék úrslitaleikinn um Englandsmeistaratitil varaliða þegar Liverpool mætti Aston Villa. Liverpool vann leikinn 3:0 og Lucas rak smiðshöggið á sigurinn með því að skora síðasta markið. Hann fagnaði svo í leikslok með félögum sínum. En varaliðstitillinn er ekki það eina sem Lucas hefur getað glaðst yfir á þessari leiktíð. Hann hefur nefnilega leikið meira með aðalliðinu en varaliðinu og líklega hefur hann komið meira við sögu með því en hann gat reiknað með þegar hann kom til Liverpool áður en þessi leiktíð hófst.

Það var vitað að Lucas Leiva væri efnilegur þegar hann kom til Liverpool. Hann var til dæmis valinn besti leikmaður brasilísku 1. deildarinnar á fyrsta tímabili sínu. Hann varð þar með yngsti leikmaðurinn sem hefur hlotið þessa nafnbót. Hafa þó margir kunnir kappar hlotið hana. Þó nokkur önnur lið höfðu áhuga á að fá Lucas en Rafael Benítez sannfærði hann um að það myndi vera best fyrir hann að koma til Liverpool. Hann vakti fyrst athygli stuðningsmanna Liverpool þegar hann átti stóran þátt í að tryggja Liverpool sigur á Everton á Goodison Park í haust. Hann kom þá inn á sem varamaður fyrir Steven Gerrard. Á síðustu mínútu leiksins átti hann skot sem fór í hönd leikmanns Everton og í kjölfarið fékk Liverpool vítaspyrnu. Dirk Kuyt skoraði úr vítaspyrnunni og tryggði Liverpool sigur. Hann varð svo fyrstur Brasilíumanna til að skora fyrir Liverpool þegar skoraði gegn Havant & Waterlooville í FA-bikarnum í janúar. Lucas hefur í heild staðið sig vel í þeim leikjum sem hann hefur spilað með aðalliðinu. Það er þó of snemmt að segja til um hvort hann verður fastamaður í liði Liverpool á næstu árum.

Jan Mölby er einn besti miðjumaður í sögu Liverpool. Hann telur að Lucas sé efni í mjög góðan miðjumann. "Mér hefur litist vel á hann. Það þó er erfitt að segja til um hvers konar miðjumaður hann á eftir að verða því hann virðist verða mjög fjölhæfur. Hann er yfirvegaður þegar hann er með boltann. Hann hefur góðar sendingar og hann getur líka sótt fram og skapað sér færi."

Fyrir utan að hafa leikið rúmlega 30 leiki með aðalliði Liverpool þá náði Lucas að komast í brasilíska landsliðið á leiktíðinni. Hann er nú búinn að spila tvo landsleiki og segja má að þar með hafi hann haldið sínu striki í landsliðinu því hann hefur leikið með yngri landsliðum Brasilíu síðustu árin. Ekki amaleg leiktíð þegar allt er skoðað. Lucas er að minnsta kosti eini leikmaður aðalliðsins sem fagnaði titli á leiktíðinni!

Sf. Gutt.

 

TIL BAKA