)

Fernando Torres

Fernando Torres var besti leikmaður Liverpool á síðustu leiktíð. Þetta er staðreynd sem ekki þarf að rökræða um. Þetta fékkst staðfest með afgerandi hætti í vali lesenda Liverpool.is nú í lok leiktíðar. Fernando fékk 71,37 % atkvæða í kosningu um besta leikmann leiktíðarinnar og segir sú tala sína sögu um framgöngu Spánverjans á sinni fyrstu leiktíð.

Gælunafn Fernando Torres er,,El Nino”. Á íslensku mætti þýða það sem ,,Strákurinn” eða ,,Drengurinn”. "El Nino" er líka veðurfarsfyrirbæri! Ekki er ég sérfræðingur í því en ef ég skil það rétt þá hefur það bæði góð og slæm áhrif í náttúrunni. Að minnsta kosti lætur þetta fyrirbrigði verulega til sín taka þegar það fer af stað og það sama má segja um ,,El Nino” sem kom til Liverpool!

Það er langt um liðið frá því aðkeyptur leikmaður hefur látið jafn mikið til sín taka á sinni fyrstu leiktíð. Hugsanlega þarf að fara allt aftur til komu Kenny Dalglish, sumarið 1977, til að finna viðlíka innkomu leikmanns. Margt er líkt með komu þeirra. Báðir voru keyptir fyrir metfé og báðir léku frábærlega á sinni fyrstu leiktíð. Kenny skoraði 31 mark og Fernando 33. Allt frá fyrsta leik heilluðu þeir stuðningsmenn Liverpool og eftir fyrstu leiktíð sína voru þeir komnir í guða tölu.

Fernando Torres gekk til liðs við Liverpool þann 4. júlí 2007. Kaupverðið var rúmlega 20 milljónir sterlingspunda sem var metfé. Það var vitað mál að þarna færi leikmaður sem væri talinn meðal bestu sóknarmanna í Evrópu. Það var því eðlilegt að væntingar yrðu miklar til hans. Stuðningsmenn Liverpool biðu spenntir. Sumir töldu að hann myndu láta mikið að sér kveða en aðrir bentu á örlög ýmissa útlendinga hjá Liverpool sem þangað höfðu komið með gott orðspor en aldrei ná að standa undir nafni. Fernando Torres stóð undir nafni og gott betur en það. Hann skoraði 33 mörk í 46 leikjum og ,,El Nino” færði í þessu tilfelli jákvæða strauma inn á áhrifasvæði sitt.

,,Strákurinn” stóð svo sannarlega undir væntingum stuðningsmanna Liverpool á leiktíðinni og voru þó væntingarnar miklar! Margir töldu að Fernando myndi eiga á brattann að sækja hjá Liverpool. Þar væri allt sem nýtt fyrir Spánverja sem aldrei hafði leikið nema á Spáni og það með sama liðinu þar. Nú heyrast engar efasemdaraddir lengur. Það er frekar að knattspyrnuáhugamenn telji að Liverpool hafi gert kjarakaup. Rafael Benítez er kröfuharður en hann gat ekki verið ánægðari eftir fyrstu leiktíð "Stráksins": "Við tókum marga þætti með í reikninginn áður en við fengum hann til liðs við okkur. Við getum nefnt aldur, líkamlegt ástand, hæfileika og hugarfar. Við vissum því að hann var góður leikmaður áður en hann kom og þess vegna keyptum við hann. En að skora meira en 30 mörk á sinni fyrstu leiktíð er alveg frábært afrek og það kom öllum á óvart að hann skyldi skora svona mörg mörk. Ekki vegna þess að við hefðum ekki trú á honum heldur vegna þessa að þetta var fyrsta leiktíð hans í Úrvalsdeildinni."

Nú í lok leiktíðar er Fernando Torres einfaldlega kominn í tölu heilagra á Anfield Road! Honum hefur verið líkt við goðsagnir á borð við Kenny Dalglish og Ian Rush. Stuðningsmenn Liverpool hafa ákallað hann á sama hátt og þeir ákölluðu goðsagnirnar Ian St John, Kenny Dalglish og Robbie Fowler. TORRES! TORRES! heyrist kallað á Anfield Raod og á öðrum leikvöngum þar sem Liverpool skorar. Fernando Torres er einfaldlega maður leiktíðarinnar!



Með eigin orðum…

Um leiktíðina… "Ég naut hverrar mínútu hérna og mér gekk allt í haginn. Ég spilaði með liði þar sem allir leikmennirnir stefna að sama marki og hérna getur maður reitt sig á stuðning félaga sinna. Ég vann líka með framkvæmdastjóra sem trúði á mig. Þessir þættir gerðu það að verkum að allt gekk upp.”

Um framtíðina… "Ég er ekkert að hugsa um að fara neitt og ég vil spila með Liverpool í mörg ár í viðbót.”

Um samlíkingar við goðsagnir Liverpool… "Ég er mjög stoltur af því að vera líkt við stórstjörnur félagsins fyrr og nú en það er ekki rétt að gera það núna. Kenny, Robbie og Stevie unnu marga titla og léku hundruðir leikja fyrir hönd félagsins. Þeir hafa verið goðsagnir hjá félaginu í mörg ár en þetta var bara fyrsta leiktíðin mín hérna. Ég stefni að því að spila enn betur fyrir Liverpool á næstu leiktíðum. Ég er bara búinn að eiga eina góða leiktíð hérna en Kenny og Robbie áttu sex, sjö, átta eða tíu góðar leiktíðir hjá Liverpool. Það er því ólíku saman að jafna. Þegar ég legg skóna á hilluna gæti verið tímabært að ræða um svona hluti en það er of snemmt að gera það núna.”

Um nafnið sitt… "Skemmtilegast finnst mér að sjá nafnið mitt aftan á treyjum stuðningsmanna okkar. Það er svolítið skrýtið að sjá svona marga í treyjum með nafninu mínu því þetta er nú bara fyrsta leiktíðin mín hérna. Það mætti nú frekar búast við að sjá nöfn þeirra Stevie og Carra en það er frábært að sjá svona marga í treyju með Torres aftan á.”

Um stuðningsmenn Liverpool… "Það er mér mjög mikilvægt að geta gert stuðningsmennina ánægða. Við eigum að leika knattspyrnu til að veita stuðningsmönnunum ánægju. Ég held að þeim þyki vænt um mig og mér þykir vænt um þá. Það er svo gaman þegar krakkar og afar þeirra gefa sig á tal við mig úti á götu og segja við mig að ég sé sá besti!”

Um The Kop… "Ég veit ekki hvað gerir þetta mark svona sérstakt en það er eitthvað við það að skora fyrir framan Kop stúkuna. Stúkan er svo há og mikilfengleg. Ég held að ég hafi skorað helming marka minna í markið fyrir framan The Kop.”

Um Liverpool… "Liverpool er liðið mitt og Liverpool er borgin mín. Anfield er leikvangurinn minn. Hér líður mér mjög vel.”

 

Þann 29. júní braut Fernando Torres svo blað í sögu Liverpool þegar hann varð fyrsti leikmaður Liverpool til að skora fyrir landslið í úrslitaleik á stórmóti. Hann varð þjóðhetja á Spáni þegar hann skoraði eina markið í úrslitaleik Spánverja og Þjóðverja. Markið gerði Spánverja að Evrópumeisturum. Fernando og Xabi Alonso urðu líka fyrstu leikmennirnir í sögu Liverpool til að vera í sigurliði í Evrópukeppni landsliða. Félagar þeirra, Jose Reina og Alvaro Arbeloa, tóku ekki þátt í úrslitaleiknum en þeir léku einn leik á mótinu og lögðu þar með sitt af mörkum til þess að vinna titilinn. Fernando lék fimm leiki á Evrópumótinu, skoraði tvö mörk og lagði eitt upp. En hans verður alla tíð minnst í spænskri knattsprynusögu fyrir að skora markið sem færði Spánverjum annan landsliðstitil þjóðarinnar en 44 ár eru liðin frá því Spánverjar unnu þessa sömu keppni.  

Sf.Gutt.



 

TIL BAKA