)

Xabi Alonso

Þeir eru ekki margir leikmennirnir hjá Liverpool sem eiga það á afrekaskrá sinni á seinni árum að hafa skorað sigurmark Liverpool á Stamford Bridge. Xabi Alonso er annar af tveimur leikmönnum Liverpool sem hafa gert þetta frá árinu 1989. Hinn er Bruno Cheyrou. Hann er löngu á bak og burt og það leit út fyrir brottför Xabi í sumar en ekkert varð úr. Þess í stað hefur Xabi leikið eins og herforingi á miðjunni hjá Liverpool.

Það leit allt út fyrir að Xabi Alonso myndi yfirgefa Liverpool í sumar og vissulega var hann til sölu. Hann hafði ekki náð sér á strik á síðustu leiktíð og því var kannski ekkert óeðlilegt við að hann væri falur. Nokkur stórlið á meginlandinu voru orðuð við hann og samningur við Juventus var svo gott sem frágenginn. Mest var rætt um þetta þegar Evrópukeppni landsliða stóð yfir í sumar. Xabi hélt þó ró sinni og lagði sitt af mörkum til sigurs Spánverja. Hann kom inn á í úrslitaleiknum þegar Spánverjar unnu Þjóðverja 1:0.

Eftir Evrópumótið kom þó í ljós að ekkert yrði af því að Xabi færi. Juvenuts vildi ekki borga uppsett verð og eins héldu forráðamenn Aston Villa fast við þá upphæð sem þeir vildu fá fyrir Gareth Barry. Hugmyndin var nefnilega sú, í herbúðum Liverpool, að selja Xabi og kaupa Gareth. Hvorugur fór þó neitt. Stuðningsmenn Liverpool voru sáttir við að svo fór og Xabi fékk mikinn stuðning í síðasta æfingaleiknum fyrir leiktíðina þegar Liverpool vann Lazio 1:0 á Anfield Road. Nafnið hans var kyrjað og Xabi hefur haldið ótrauður áfram síðan.

Rafael Benítez hefur valið hann í flesta leiki á leiktíðinni og er ánægður með framgöngu landa síns. "Það sem gerðist með Xabi Alonso er bara hluti af því sem oft gerist í knattspyrnunni. Það skiptir engu hvort ég skipti um skoðun um að selja leikmann eða hvort leikmaðurinn sjálfur gerir það. Það sem skiptir máli fyrir mig sem framkvæmdastjóra er að ég hef góðan leikmann sem er góður atvinnumaður. Ég nota leikmanninn svo eins og nýtist liðinu best. Xabi Alonso er að spila vel núna og það sama gildir um allt liðið."

Xabi er, sem fyrr segir, búinn að leika vel á miðjunni hjá Liverpool og umrótið í sumar hefur ekki sett hann út af laginu. Hann skoraði svo sigurmarkið gegn Chelsea á Stamford Bridge á dögunum og fyrir það eitt fékk hann mikið hrós. Það er svo sem ekki neitt útilokað að Xabi yfirgefi Liverpool á næstu mánuðum en hann mun örugglega halda sínu striki í liði Liverpool og spænska landsliðinu. Pabbi hans var atvinnumaður í knattspyrnu og bróðir hans er líka atvinnumaður. Xabi veit því alveg að það er aldrei á vísan að róa í knattspyrnuheiminum og hann einbeitir sér bara að því að gera sitt besta. Þetta hugarfar hefur komið Liverpool vel á þessari leiktíð og sigurmarkið á Stamford Bridge var besta dæmið um það!

Sf.Gutt.

 

TIL BAKA