)

Martin Skrtel

Þegar upp var staðið í vor og leiktíð lokið var það mál flestra að Slóvakinn Martin Skrtel hefði verið besti leikmaður Liverpool. Vissulega var hann mjög sterkur og líklega sýndu ekki margir meiri stöðugleika. Hann náði mjög vel saman við Daniel Agger í hjarta varnarinnar og saman mynduðu þeir eitt sterkasta miðvarðarpar deildarinnar. Kenny Dalglish setti þá Martin og Daniel saman sem miðverði og Jamie Carragher varð að jafnaði að sætta sig við að vera á bekknum. 

Martin Skrtel kom til Liverpool í janúar 2008 og eftir erfiða byrjun hefur hann jafnan verið sterkur fyrir í vörninni. Hann hefur þó tekið miklum framförum á síðustu tveimur leiktíðum og er nú orðinn fastur í sessi í aðalliðinu. Hann náði þeim einstaka árangri á leiktíðinni 2010/11 að spila hverja einustu mínútu í hverjum einasta deildarleik Liverpool. Það er sérlega fátítt að útileikmaður nái þessu og segir sína sögu um stöðugleika Slóvakans. Það segir líka sitt að þeir Rafael Benítez, sem keypti hann, Roy Hodgson og Kenny Dalglish hafa allir haft álit á honum. 

Martin byrjaði reyndar síðustu leiktíð ekki sérlega vel og var rekinn af velli á móti Tottenham þegar Liverpool tapaði 4:0 í London. Þegar hann kom aftur úr leikbanninu náði hann sér smá saman aftur á strik og lék æ betur. Besti kafli Liverpool á síðasta keppnistímabili var þegar Martin og Daniel voru saman í vörninni. Daniel meiddist í Deildarbikarúrslitaleiknum og var frá um tíma. Í kjölfarið fór gengi Liverpool versnandi í deildinni. Martin stóð þó fyrir sínu áfram og allt til vors. 

Martin Skrtel skoraði svo fjögur mörk sem var vel af sér vikið því hann hafði aðeins skorað þrjú þar fyrir á ferli sínum hjá Liverpool. Hann komst í reynd á spjöld sögu Liverpool með því að verða fyrsti leikmaður félagsins til að skora á nýja Wembley. Martin lék einn sinn besta leik á ferli sínum með Liverpool á Wembley og jafnaði Deildarbikarúrslitaleikinn gegn Cardiff City 1:1. Niðurstaðan varð 2:2 eftir framlengingu en Liverpool vann í æsispennandi vítaspyrnukeppni. Martin fagnaði þar með fyrsta titli sínum hjá Liverpool og var mál til komið. Þar fyrir utan gat hann eftir leiktíðina, 45 leiki og fjögur mörk, glaðst yfir því að vera valinn besti leikmaður Liverpool. Í raun ekki amalegt fyrir þennan sterka Slóvaka!

Sf. Gutt. 

     

TIL BAKA