)

Michael Owen

Það er ekki slæm tímasetning hjá Michael Owen að detta í gang nú þegar mikilvægasta vika tímabilsins gengur í garð. Owen skoraði þrennu gegn Newcastle og er nú kominn með 19 mörk á tímabilinu. Liverpool þarf nú einungis að vinna annað hvort gegn Chelsea eða Charlton og þá er 3. sætið í höfn og umspil um Meistaradeildarsæti framundan.

Owen skoraði öll mörk sín eftir stungusendingar og var sáttur við sinn hlut í leikslok: "Þetta var mikilvægur sigur sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að Leeds tapaði gegn Arsenal. Við sögðum í upphafi tímabils að við vildum enda í einu af þremur efstu sætunum og allt annað væri bónus. Ef okkur tekst að halda 3. sætinu og vinna þrjá bikara þá er það frábær árangur. Hvað mig varðar þá vil ég leika sem mest og halda áfram að skora. Ég hef verið að glíma við meiðsli reglulega og það er alltaf erfitt að hrökkva í gang þegar maður snýr tilbaka eftir meiðsli. Ég vonast til að halda mig fjarri öllum meiðslum og komast þá í mitt besta form.

Newcastle-menn eru sjálfsagt búnir að fá sig fullsadda af drengnum enda hefur hann skorað 12 mörk í 6 leikjum gegn félaginu: "Einhverra hluta vegna gengur mér vel að skora gegn þeim. Allir framherjar hafa eftirlætisandstæðinga þar sem allt gengur upp og Newcastle er mitt lið. Ég vildi óska þess að mér myndi ganga eins vel gegn öllum hinum liðunum."

TIL BAKA