)

Jari Litmanen

Jari Litmanen hefur tekið við hlutverki Michael Owen í fjarveru hans og tryggt Liverpool tvo sigra á fimm dögum.

Tottenham lá í valnum á laugardag eftir að frábært mark Litmanen fyrir framan The Kop gerði út um leikinn. Finninn trylltist að sjálfsögðu og þessi mikli Liverpoolaðdáandi virtist á góðri leið með að æða upp allan stigaganginn á The Kop. Hann tók í spaðann á öllum í hjólastólastæðunum og kyssti treyjuna sína. Menn voru reyndar að velta því fyrir sér á spjallborðum opinbera Liverpoolvefsins af hverju hann kyssti Carlsberg-lógóið en ekki Liverpoolmerkið....

Dynamo Kiev mætti á Anfield í miðri viku og Litmanen setti boltann í netið snemma leiks en Collina dómari sá ástæðu til að dæma markið ógilt. Jari tekur upp þráðinn: "Ég veit ekki útaf hverju hann dæmdi markið af. Ég spurði dómarann og hann sagði mér að Sami hefði brotið af sér en ég var beint fyrir aftan hann og sá ekki neitt brot. Ég hélt að þetta væri löglegt mark en það skipti engu í lokin er þrjú stigin voru okkar samt sem áður. Við áttum okkar góðu kafla og svo slæma kafla. Ég man ekki eftir einusta marktækifæri sem Kiev fékk. Þeir hafa góða leikmenn og við þurftum að hafa fyrir sigrinum. Nú erum við með fimm stig eftir þrjá leiki og erum búnir að koma okkur í þægilega stöðu í riðlinum."

Houllier hrósar Finnanum sem hefur sýnt sannan atvinnumannsanda: "Jari hefur ekki byrjað marga leiki að undanförnu og hann stóð sig mjög vel gegn Kiev. Hann sýndi úr hverju hann er gerður. Hann hefur lært mikið síðan hann kom til Englands. Hann segir að úrvalsdeildin sé sú erfiðasta en það lítur nú út fyrir að hann hafi aðlagast aðstæðum. Hann hefur sýnt hugarfar sem er öðrum til fyrirmyndar síðan hann kom hingað."

TIL BAKA