)

Gerard Houllier

Það er að þessu sinni dapurlegt að útnefna mann vikunnar en því miður hefur ákveðni Houllier að gera Liverpool að sigursælu liði á nýjan leik tekið sinn toll.

Ric George tekur viðtöl reglulega við Houllier fyrir opinbera vefinn og hann sagði mér reyndar sjálfum tveim dögum fyrir Leeds-leikinn er ég var staddur á Melwood hversu erfitt væri að taka viðtöl við Houllier því að hann væri alltaf í símanum og upptekinn við hitt og þetta. Hann væri algjör vinnualki. Hann væri ekki eingöngu að eiga við ensku pressuna og þá sem hann þekkti í bransanum á Englandi heldur einnig í Frakklandi og þau viðamiklu sambönd sem hann hefur um gjörvalla Evrópu. Hann væri því á mörgum vígstöðvum í einu að tala við hinn og þennan og fengi ekki frið. En hann nýtur starfsins og hefur vanið sig á frá því á námsárum sínum að komast af með 3-4 tíma svefn og nýta daginn vel. það var eins og Ron Yeats yfirnjósnari Liverpool og fyrrum fyrirliði liðsins orðaði það við mig í viðtali mínu við hann á Melwood þennan sama dag að "Houllier leggur sig bara í bílnum á leiðinni á æfingu."

Þegar ég [Arngrímur] hitti Houllier ásamt Hallgrími 11. október, þá var hann hinn hressasti og tók afskaplega hlýlega á móti okkur. Hann þáði gjöf frá Púllurum á Íslandi sem er stytta af Guðinum Þór sem eins og segir á boxinu, sem var utan um styttuna, og ég las upphátt fyrir Gerard: "Guðinn Þór var vís, sterkur og göfugur. Víkingarnir í norðri litu til Guðsins er vandi steðjaði að og brýna þurfti vopnin." Gerard var mjög þakklátur og sýndi hversu skemmtilegan og sterkan persónuleika hann hefur að bera.

Ric George þekkir manninn vel og og segir frá sínum kynnum við hann á opinbera vefnum.

Gerard Houllier var þegar þekktur fyrir nákvæmni sína í vinnubrögðum og ástríðu sína fyrir starfinu þegar ég hitti hann fyrst á Anfield fyrir 15 árum síðan. Ég hef fylgst náið með honum í gegnum árin og hann tekur áreiðanlega öllum framkvæmdastjórum fram í atorku þeirri sem hann leggur í starfið.

Það væri ekki rétt að segja að Gerard Houllier hugsi ekki um annað á milli svefns og vöku en fótbolta því að hann bókstaflega sefur varla. Hann leggur sig í fimm mínútur í gegnum daginn og það er allt sem hann þarfnast til þess að endurhlaða batteríin og vinna að því takmarki sem hann hefur sett sér. Það er ekki auðvelt fyrir hann að hvíla sig frá Liverpool FC því að þetta er ekki einungis starf hans heldur líf hans. Ef verðlaun væru veitt fyrir mann sem helgaði sig sínu starfi þá myndi Houllier hirða öll verðlaun sem í boði væru. Augljóslega þá heimtar hann sama áhuga frá leikmönnum sínum. Síðasta tímabil sýndi fram á að það borgar sig að leggja hart að sér.

Gerard er oftast fyrstur á Melwood klukkan 8 um morguninn og er þar fram á kvöld. Hann slappar ekki af á golfvellinum síðla dags eða situr í sjónvarpssal og gefur áit sitt á hinu og þessu eins og margir stjórar. Houllier nýtir tímann á uppbyggilegan hátt að eiga við umboðsmenn, skipuleggja æfingaáætlanir, stúdera videó, greina tölfræði og veita fjölmiðlum aðgang að sér. Ef hann er ekki að hugsa um Liverpool þá er hann að hendast heimshorna á milli í erindagjörðum fyrir UEFA.

Nákvæmni Gerard er engin takmörk sett. Öll mörk sem Liverpool fær á sig eða skorar eru greind niður í smáatriði. Hann skrifar meira að segja niður alla fundi sem hann heldur með leikmönnum um hvert lið fyrir leiki og þær upplýsingar eru vandlega varðveittar ásamt fjölda aðra skjala sem eru sjaldnast langt undan. Kemur þess vegna á óvart að svo upptekinn maður sem eyðir svo miklum tíma í að sinna starfi sínu, þarf að eiga við 20 fræga leikmenn og mislynda einstaklinga, þola ákúrur frá fjölmiðlum sem þrífast á kaldhæðni og standa undir miklum væntingum þjáist af hjartatruflunum? Hann drekkur varla, reykir ekki og borðar holla fæðu þannig að ekki er því um að kenna.

Houllier gerir allt sem hann getur í þágu Liverpool en þar sem sumir hafa séð hversu vægðarlaus hann getur orðið þá eru ekki allir sammála mér um að hann mun ekki bregðast þeim sem bregðast honum ekki. Mér líkar vel við Gerard Houllier. Ég hef þekkt hann lengi og ber mikla virðingu fyrir honum. Það þarf hugrakkan mann til að taka við eins frægu félagi eins og Liverpool, hvað þá ef þú kemur frá meginlandinu, og koma nafni sínu í sögubækur.

Gerard er 54 ára gamall en er mun yngri í anda. En nú fékk hann viðvörun vegna þess álags sem hann leggur á sjálfan sig til að Liverpool megi njóta velgengni. Ég vona að Gerard batni sem fyrst og snúi fljótt aftur til starfa. Fótbolti þarfnast Houllier og hann þarfnast fótboltans. Hann mætti alveg dreifa ábyrgðinni á aðrar herðar en það er hægara sagt en gert fyrir hann. Maðurinn sem er óhræddur við að takast á við þær hindranir sem í veginum liggja horfist nú í augu við þá erfiðustu til þessa. En eins og venjulega þá mun hann bera sigur úr býtum.

TIL BAKA