)

Michael Owen

Enn einu sinni hefur Michael Owen ritað nafn sitt í sögubækur, nú sem fyrsti leikmaður Liverpool til að hampa Gullknettinum.

Michael Owen skoraði 9 mörk í síðustu 6 leikjum Liverpool á þrennutímabilinu sigursæla. Hápunktarnir voru án efa ótrúleg frammistaða hans í Rómarborg og tvö mörk hans gegn Arsenal í bikarúrslitaleiknum á Millennium-leikvangnum þegar hann stimplaði sig loksins í hjörtu Liverpoolaðdáenda þar sem hann mun vonandi varðveitast um ókomin ár.

Owen hóf þessa leiktíð þar sem frá var horfið. Owen skoraði þrennu gegn FC Haka í undankeppni Meistaradeildar. Hann tók vörn Man Utd í nefið í Góðgerðarskildinum. Hann hóf úrvalsdeildina af krafti með tveimur mörkum gegn West Ham. Bayern Munchen féll í valinn í leiknum um Super-bikarinn þar sem hann skoraði eitt mark. En viti menn, hann skoraði ekki gegn Bolton! Á þessum tímapunkti var óhugsandi að hann skyldi sleppa því í einum leik að skora mark. Þegar hér var komið við sögu voru mörkin 7 í fyrstu 5 leikjum tímabilsins.

Owen var þegar þjóðhetja en ekki minnkaði aðdáunin þegar hann skoraði þrennu 1. september gegn Þjóðverjum á Ólympíuleikvangnum í Munchen. Mikilvægur leikur en erfiður gegn Albaníu fylgdi á eftir fjórum dögum síðar. Owen braut ísinn og kom Englandi á sigurbraut enn sem fyrr. 4 mörk í 2 landsleikjum.

Aðeins þremur dögum eftir ævintýri Owen með landsliðinu kom Aston Villa í heimsókn á Anfield og var Owen á bekknum. Hann kom inná eftir klukkutíma leik en allt kom fyrir ekki og leikurinn tapaðist 1-3. Hann lék sinn fyrsta leik í Meistaradeild gegn Boavista á Anfield. Eins og forðum þegar hann skoraði eftir sex mínútur í sínum fyrsta Evrópuleik sem var gegn Celtic þá skoraði hann í þessari frumraun sinni en áhorfendur þurftu að þessu sinni að sýna aðeins meiri biðlund eða í alls um 29 mínútur. Owen skoraði sitt fyrsta mark gegn erkifjendunum í Everton, að vísu úr víti. Markalaus leikur gegn Dortmund fylgdi í kjölfarið og svo dundi ógæfan á. Hann kom inná sem varamaður gegn Tottenham en haltraði útaf, hnésbótarsinin lét hann ekki í friði. Mörkin voru 2 í þessari 5 leikja hrinu.

Hann missti af næstu sjö leikjum en kom aftur af krafti er Liverpool mætti Charlton á útivelli. Hann skoraði dæmigert Owen-mark, sending inn fyrir á strák og fallegur bolti í fjærhornið, virkar sáraeinfalt, ekki satt!? Heimasigur gegn Dortmund tryggði Liverpool áframhaldandi þátttöku í Meistaradeildinni og annar stórleikur var á Anfield fimm dögum síðar. Man Utd kom í heimsókn og fóru sneyptir heim til Manchester en Owen brosti skært enda setti hann tvö mörk gegn Rauðu Djöflunum. Owen fékk eitt færi í næsta leik gegn Blackburn og það nægði honum til að skora. Hann fékk tvö færi gegn Barcelona en seinna skotið rataði ekki í mark þó að boltinn virtist á leiðinni þangað. Owen fann til vöðvakrampa í aftanverðu lærinu og var hvíldur gegn Sunderland en í næsta leik fékk hann eitt færi og það var ekki sökum að spyrja Derby tapaði 0-1 fyrir marki Gulldrengsins (og markvörslu Dudek). Það var óvenjulegt að sjá þrjú færi fara forgörðum á móti Fulham en Van der Saar var illviðráðanlegur. Fyrir síðasta leik gegn Chelsea var hnésbótarsinin enn að stríða honum en þetta er ábyggilega orðin frægasta hnésbótarsinin í heiminum, allavega í gjörvallri Evrópu.

Nú er Gulldrengurinn kominn með bolta við hæfi, Gullknöttinn sem Besti knattspyrnumaður Evrópu 2001 fær einungis að handleika. Tölurnar tala sínu máli: 24 mörk í síðustu 23 leikjum Liverpool og alls 28 mörk í 25 leikjum með Liverpool og enska landsliðinu. Michael Owen á Gullknöttinn svo sannarlega skilið. Til hamingju strákur!

TIL BAKA