Rob Jones

Ferillinn var sem ævintýri til að byrja með. Um vorið varð hann bikarmeistari þegar Liverpool fagnaði aldarafmæli sínu með 2:0 sigri á Sunderland. Hann átti víst sæti í landsliði Graham Taylor og var farinn að hlakka til Evrópukeppni landsliða 1992. "Nokkrum vikum fyrir úrslitaleikinn í bikarnum 1992 byrjaði ég að finna fyrir einhverjum óþægindum í löppunum. Ég hvíldi bara og lék úrslitaleikinn, en var sárþjáður. Phil Boersma (hægri hönd Souness) fleygði alltaf til mín íspokum til að kæla sinarnar niður en verkurinn var eins og að hafa stöðuga tannpínu í fætinum. Ég átti erfitt með að labba og að keyra heim eftir æfingar. Ég hélt síðan til móts við enska landsliðið og var sendur í tékk. Ég fékk ekki góðar fréttir út úr því og gat því ekki tekið þátt í Evrópukeppninni. Þetta voru vissulega mikil vonbrigði, en á þessum aldri þá var þetta ekki eins og himinn og jörð væru að farast. Ég var ungur að árum og viss um að minn tími myndi koma á ný."

"Ég hvíldi um sumarið en mér fannst ekki eins og vandamálið væri að lagast þegar undirbúningstímabilið var komið á fullt. Ég lék 5 leiki í úrvalsdeildinni en þá var ákveðið að ég þyrfti að gangast undir aðgerð. Sinarnar voru slitnar og annað bein farið að vaxa við hliðina á beininu í sinunum. Ég þjáðist í raun og veru af tvenns konar meiðslum. Ég fékk álit hjá mörgum læknum eftir aðgerðina og þá greindi á um framtíð mína. Sumir sögðu að hvíld myndi gera mig jafngóðan en þegar ég reyndi að fara á stað aftur þá fann ég fljótlega aftur til og ég hafði verulegar áhyggjur af framtíð minni."

18 mánuðum síðar náði hann að endurheimta sæti sitt í Liverpool og enska landsliðinu. Hann spilaði 132 leiki á fjórum tímabilum en meiðsli af og til urðu til þess að landsliðsferill hans komst ekki á samt skrið. Rob Jones hafði þegar leikið sinn áttunda og jafnframt lokaleik með landsliðinu.

Árið 1996 lék hann sinn annan bikarúrslitaleik. Tapið gegn Manchester United var nógu slæmt en ekki bætti úr skák að þremur dögum eftir leikinn fékk hann slæmar fréttir. Hann hafði leikið kvalinn í baki vikum saman og læknar ráðlögðu honum að taka sér hálfs árs hvíld ef hann vildi ekki lenda í hjólastól. "Í byrjun gátum við ekki fundið hvað var að. En ég var sendur til sérfræðings sem mat hvað var að. Niðurstaðan var ekkert til að vera neitt ánægður með, en algjör hvíld myndi laga þetta. Vandamálið var að þetta þýddi að ég mátti alls ekkert gera í 6 mánuði. Félagi minn frá Crewe, Neil Lennon sem nú er hjá Leicester, lenti í sömu meiðslum og komst í gengum þau, þannig að ég hafði engar áhyggjur."

Eftir að hafa jafnað sig á þessum erfiðu meiðslum, hlakkaði Jones til þess að spila án þess að lenda í alvarlegum óhöppum. En í lok tímabilsins 1997-98 þá bólgnaði vinstra hnéð upp. Meiðslin voru greind sem mjög erfið meiðsl sem erfitt er að eiga við eða laga. Þessum meiðslum fylgir einnig gífurlegur sársauki. "Það er ekki mikið sem hægt er að gera við þessum meiðslum. Hvíld dugir ekki og ekki heldur að skokka eða hlaupa. Ég fór í þrjár stórar og erfiðar aðgerðir til að reyna að fá bót á þessu." Þegar hér er komið við sögu, þá var Gerard Houllier búinn að taka ákvörðun um að Jones væri ekki inni í þeim framtíðarplönum sem hann var með í gangi fyrir Liverpool. "Þetta var bara ákvörðun tekin frá fótboltalegu sjónarmiði. En þetta hvatti mig virkilega áfram, ég var í æfingasalnum alla daga vikunnar."

 

 Þegar Jones var gefin frjáls sala frá Liverpool, var hann ákveðinn í að sanna ágæti sitt og að hann gæti komið sér í form aftur. Þetta ætlaði hann að gera hjá West Ham. Harry Redknapp var með samninginn tilbúinn í skúffunni sinni. Jones lagði sig allan fram á hverjum degi í sumar til að reyna að fá sig góðan af þriðju aðgerðinni sem gerð var á öðru hné hans. "Ég var mjög vongóður og æfði mjög vel út af fyrir mig í allt sumar, og ætlunin var sú að koma sterkur inn hjá West Ham. Mig langaði að sýna Liverpool að það hafi verið röng ákvörðun hjá þeim að láta mig fara, og ég vildi sýna að ég gæti yfirstigið þetta vandamál. Ég spilaði hálfan leik í Inter-Toto keppninni og leið vel á eftir. Ég fann aðeins fyrir þessu en hélt að það væri bara eðlilegt. En ég þurfti að ná að spila heilan leik, þannig að ég spilaði einn vináttuleik. Eftir þann leik þá bólgnaði hnéð svo mikið að það var orðið á stærð við fótbolta. Innst inni vissi ég að þetta gætu verið endalokin, og það var hræðileg tilfinning. Ég fór í sneiðmyndatöku daginn eftir og sendi niðurstöðurnar úr henni til sérfræðinga um allt England. Svörin sem ég fékk voru ekki góðar fréttir. Skurðlæknirinn minn sagði að hann gæti skorið mig upp aftur, en hann sagði einnig að ég skyldi einbeita mér að því að tryggja það að ég gæti lifað eðlilegu lífi í framtíðinni. Þá vissi ég það og fór heim til konunnar minnar og tveggja ungra dætra okkar. Ég sagði Sue, konunni minni, þetta og við grétum saman alllengi."


En ég vil ekki að neinn sé að vorkenna mér. Ég spilaði knattspyrnu með einu besta félagsliði heims. Ég spilaði í tæp átta ár við hliðina á mörgum frábærum knattspyrnumönnum fyrir eitt af frægustu félagsliðum í heimi. Ég hef átt margar eftirminnilegar stundir í starfi sem flest fólk langar til að starfa við og ég er fjárhagslega öruggari heldur en flest fólk á mínum aldri. Það er bara sárt að þurfa að hætta í leiknum, og í starfinu sem þú elskar."

"Fótbolti er það eina sem ég þekki. Fólk tengt fótbolta er eina fólkið sem ég hef umgengist. Ég hætti 27 ára og ætti að vera á hátindi ferilsins, þess í stað veit ég að ég á aldrei eftir að sparka bolta á ný. Ég veit að ég á aldrei aftur eftir að upplifa þetta einstaka andrúmsloft sem skapast á æfingasvæðinu og í búningsherberginu. Maður reynir að halda andlitinu, en þegar þú ert einn út af fyrir þig eða með fjölskyldunni, þá er erfitt að halda aftur af tárunum."

Sorgmæddur?…….Já
Bitur?…………...Nei

TIL BAKA