Ian Rush

Tímabilið 1983-84 var ef til vill besta tímabil hans hjá Liverpool. Liverpool varð fyrsta lið á Englandi til að vinna þrjá titla á sömu leiktíðinni. Hann skoraði þrennu gegn Aston Villa með þvílíkum tilþrifum að seint gleymist, fernu gegn Coventry og fimm mörk gegn Luton. Það þótti hreinlega undrum sæta ef Liverpool skoraði mark og hann var ekki sá sem setti boltann í netið. Hann var hreinlega óstöðvandi. Rush gekk frá Dinamo Búkarest í undanúrslitum Evrópukeppni Meistaraliða með tveim mörkum og fagnaði Evrópumeistaratitli eftir sögulegan leik gegn AS Roma þar sem hann var einn fjögurra leikmanna Liverpool sem skoruðu í vítaspyrnukeppninni. Hann gaf hugtakinu "markamaskína" nýja merkingu. Þegar upp var staðið hafði hann skorað 48 mörk og auk þess að slá markamet Roger Hunt á einu tímabili fyrir Liverpool vann hann Gullskóinn sem markahæsti leikmaður Evrópu.  Það kom fáum á óvart að Rush var valinn besti leikmaður ársins bæði af samtökum knattspyrnumanna og íþróttafréttamanna. Hann var án efa hættulegasti framherji Evrópu en það voru engar nýjar fréttir fyrir stuðningsmenn Liverpool. Hann hafði skorað samfleytt reglulega í þrjú ár og linnti ekki látum næstu þrjú ár á eftir.

Tímabilið 1984-85 missti Rush af fyrstu 14 leikjunum vegna meiðsla og spilaði sinn fyrsta leik gegn Everton á tímabilinu án þess að skora en stimplaði sig heldur betur inn nokkrum dögum síðar er hann afgreiddi Benfica með þrennu á Anfield í 2. umferð Evrópukeppni Meistaraliða. Rush hafði sig einnig mikið frammi í fyrri undanúrslitaleiknum gegn Panathinakos á Anfield er hann skoraði tvö mörk en úrslitaleikurinn gegn Juventus var harmleikur einn eins og flestum er kunnugt.

Einn eftirminnilegasti leikur Rush í Liverpoolpeysu átti sér stað í lok tímabilsins 1985-86. Liverpool mætti Everton í úrslitaleik bikarkeppninnar. Það leit ekki vel út í hálfleik er Everton leiddi með marki Gary Lineker. Í síðari hálfleik fór að ganga betur og á skömmum tíma sneri Liverpool leiknum sér í hag. Rush jafnaði eftir frábæra sendingu Jan Mölby og Craig Johnston kom Liverpool yfir og aftur átti Daninn hlut að máli. Everton menn voru búnir að vera og stuttu fyrir leikslok skoraði Ian Rush aftur eftir hraða sókn. Rush fékk frábæra sendingu út við hægra vítateigshornið og hann negldi boltanum neðst í fjærhornið og myndavél sem var látinn þar standa til að mynda atvik leiksins spýttist út í hafsauga. Tvö mörk Rush tryggðu Liverpool tvennuna eftirsóttu, deild og bikar í fyrsta skipti í sögu félagsins.

Áður en tímabilið 1986-87 hófst tilkynnti Liverpool að Rush væri á förum til Juventus á Ítalíu en myndi spila út tímabilið og síðan fara á vit nýrra ævintýra. Liverpool átti að fá greiddar 3.2 milljónir punda fyrir Rush sem var metupphæð fyrir breskan knattspyrnumann á þeim tíma. Rush gaf sig allan í sitt síðasta tímabil enda ekki vanur öðru og byrjaði með stæl er hann skoraði 20 mörk í 20 leikjum. Aðdáendur Liverpool voru vonsviknir og grátbáðu Rush að vera áfram hjá Liverpool en vinsældir hans döluðu ekki og menn höfðu jú heilt tímabil til þess að jafna sig á þeirri staðreynd að goðið væri á förum. Liverpool hafði aldrei tapað í þeim 145 leikjum sem Rush skoraði í þangað til hann lék gegn Arsenal í úrslitum deildarbikarsins. Ian kom Liverpool yfir en Arsenal svaraði með tveimur mörkum frá Charlie Nicholas. Everton vann titilinn en Liverpool vann þá undir lok tímabilsins 3:1 á Anfield. Ian skoraði tvö mörk og jafnaði markamet fyrrum leikmanns Everton Dixie Dean í nágrannaleikjum Liverpool og Everton. Báðir höfðu skorað 19 mörk. Liverpool vann ekki til titla og áhangendur Liverpool voru vonsviknir með þá staðreynd en ekki síður með að Ian væri að yfirgefa félagið. Hann skoraði sigurmarkið 1:0 fyrir framan The Kop gegn Watford í kveðjuleik sínum á Anfield og allt ætlaði um koll að keyra. Síðasti leikur hans var útileikur gegn Chelsea og auðvitað skoraði Ian í 3-3 jafntefli.

Ian byrjaði vel á Ítalíu og skoraði 10 mörk í 6 leikjum á undirbúningstímabilinu. Þegar uppi var staðið hafði hann skorað alls 14 mörk þar af 8 í deildinni. Til samanburðar var Diego Maradona markahæstur í deildinni með 14 mörk og Rush skoraði fleiri mörk en Rudi Voeller og jafnmörg mörk og hollenski snillingurinn Marco Van Basten.  Hápunkturinn var þegar hann skoraði 4 mörk í bikarleik gegn Pescara. Meiðsli og veikindi settu strik í reikninginn og brotthvarf Michel Platini frá Juventus olli því að enginn var til staðar til þess að leggja upp mörkin hans eins og Dalglish hjá Liverpool. Klúbburinn var í lægð og erfitt fyrir Rush að aðlagast. Það varð úr að Rush var aðeins eitt tímabil hjá Juventus. Aðdragandi endurkomu Rush til Liverpool var stuttur og fór afar leynt: "Ég fór í læknisskoðun og eftir hana var tilkynnt að Liverpool myndi halda blaðamannafund." Fjölmiðlar mættu á staðinn og reiknuðu með því að Liverpool væri að kaupa Gary Pallister frá Middlesbrough vegna hnémeiðsla Alan Hansen. "Þið hefðuð átt að sjá svipinn á þeim þegar ég labbaði inn í salinn. Ég fórnaði miklum fjárupphæðum með því að yfirgefa Juventus en það skiptir meira máli hvort maður sé hamingjusamur eður ei. Ég sé ekki eftir því að hafa farið til Juventus. Ég hafði unnið allt sem ég gat mögulega unnið hjá Liverpool og það var alltaf sú hætta fyrir hendi að ég myndi staðna. Þegar ég fór til Juventus þá áttaði ég mig á því hversu sárt ég saknaði Anfield og kann því enn betur að meta félagið þegar ég er nú kominn tilbaka." Kaupverðið var 2.8 milljónir punda þannig að Liverpool græddi meira að segja fjárhagslega á viðskiptunum þegar upp var staðið.

TIL BAKA