Alan Hansen

 "Forráðarmenn Liverpool sáu að ég var í mjög góðu líkamlegu formi en eina vandamálið var að ég var of léttur. Þeir settu mig í stíft prógram til að þyngja mig sem samanstóð af Guiness-bjór og seefood, ekki seafood (sjávarfæði), heldur seefood = öllum þeim mat sem ég gat komið auga á. Ég lærði mikið fyrsta tímabilið mitt. Ég komst í aðalliðið fyrr en ég áætlaði. Liverpool lét nýliða sína yfirleitt puða í nokkurn tíma með varaliðinu áður en þeir komu til greina í aðalliðið. Fyrstu 18 deildarleiki mína þá var ég með þrjá mismunandi félaga í vörninni: Tommy Smith, Emlyn Hughes og Phil Thompson. Liðið var á tímamótum því að Kevin Keegan fór til Hamborgar í júní og Kenny Dalglish kom frá Celtic í júlí og Graeme Souness gekk til liðs við okkur frá Middlesbrough í janúar 1978. Nottingham Forest var sterkasta liðið og vann deildina með sjö stiga mun og okkur í úrslitaleik um deildarbikarinn. Forest var erfitt við að etja enda urðu þeir Evrópumeistarar tvö ár í röð 1979 og 1980. Ég var mjög taugaóstyrkur fyrir fyrsta leikinn minn og fór óteljandi ferðir á klósettið. Eins og venjulega þá jafnaði ég mig er leikurinn hófst. Reynsluleysi mitt kom þó greinilega í ljós í þriðja leik mínum er við mættum Manchester United. Ég var í hálfgerðu dauðadái allan leikinn og var bara eins og áhorfandi. Versta augnablik leiksins var þegar ég missti boltann til Jimmy Greenhoff þegar mér mistókst að blöffa hann í vítateignum. Hann sendi á Steve Coppell sem skoraði en sem betur fer var hann dæmdur rangstæður. United vann leikinn 2-0 og ég vissi að ég hefði verið baggi á liðinu. Ég gleymi aldrei viðbrögðum Bob Paisley. Hann sagði ekkert við mig strax eftir leikinn en í miðri viku er við vorum á leið í lest til London til að spila gegn Arsenal þá tók hann mig til hliðar og sagði: "Ég veit að ég er orðinn nokkuð gamall í hettunni en ég er nógu ungur til að fá hjartaáfall. Gættu þín bara inná vellinum, ok?"

 "Ég lék vel hins vegar í næstu leikjum og skoraði í frumraun minni í Evrópukeppninni í 5-1 sigri á Dynamo Dresden á Anfield. Ég missti svo af nokkrum leikjum í nóvember og yfir jólaleytið vegna meiðsla. Eftir áramótin var öllum ljóst að ég átti í virkilegum erfiðleikum. Ég eyddi tveimur mánuðum í varaliðinu og missti af á meðan þeirri dvöl stóð tveimur bikarúrslitaleikjum í deildarbikarnum gegn Nottingham Forest og báðum undanúrslitaleikjunum gegn Borussia Mönchengladbach í Evrópukeppni Meistaraliða. Ég breyttist í lítinn strák og vildi fara aftur heim til Skotlands. Liðinu gekk vel og þrátt fyrir að ég var loksins kominn aftur í hópinn og vermdi bekkinn þá virtist sæti í liðinu í úrslitaleik Evrópukeppni Meistaraliða vera fjarlægur draumur. Þegar þrír deildarleikir voru eftir af tímabilinu þá meiddist Tommy Smith er hann missti exi ofan á fótinn á sér er hann var að dytta að húsinu sínu. Ég var kominn aftur í byrjunarliðið og stóð mig vel. Ég hugsaði tilbaka og gat varla ímyndað mér að tveimur mánuðum áður var ég fjarri aðalliðinu og vildi fara heim. Nú var ég um það bil að leika í úrslitaleik Evrópukeppni Meistaraliða gegn Bruges á Wembley. Eina reynsla mín hingað til af úrslitaleikjum Evrópukeppni Meistaraliða var í sjónvarpinu með vinum mínum og kippu af bjór. Ég var samt ekki eins stressaður og ég hélt og var ekki sáttur við það. Það var eitthvað að. Svo mundi ég eftir hvað ég var að gera er Liverpool var að leika í úrslitaleiknum fyrir ári síðan í félagsskap vina minna og eftir fylgdu ímyndir í hausnum á mér af leikmönnum Real Madrid vinna stórkostlega sigra í þessari keppni og þá varð ég fljótt samur aftur og spurði hvar klósettið væri."

"Það sprettur enn fram kaldur sviti fram á ennið á mér ef minnst er á þennan leik. Ég hafði ekkert að gera allan leikinn og hægt er að kenna leiðindum um kæruleysislega sendingu mína tilbaka sem gaf leikmanni Bruges fyrirtaks tækifæri til að jafna sex mínútum fyrir leikslok. Þegar boltinn var á leiðinni í netið sá ég gjörvallt líf mitt mér fyrir hugskotssjónum en þá birtist Phil Thompson upp úr engu og bjargaði á línu. Skyndilega var ég búinn að eignast besta vin fyrir lífstíð. Hefði boltinn farið í markið og Liverpool tapað á endanum myndi engu skipta hvað ég afrekaði í lífinu. Þessi mistök myndu kæfa allt annað."

FYRIRLIÐI LIVERPOOL

Tímabilið 1985-86 vann Liverpool deild og bikar í fyrsta skipti í sögu félagsins. Hansen átti afbragðsgott tímabil sem endranær og var í 2. sæti í kjöri blaðamanna á leikmanni ársins. En þetta tímabil var sérstakt fyrir margra hluta sakir: "Það kom engum meira á óvart en mér sjálfum þegar Kenny Dalglish gerði mig að fyrirliða Liverpool 1985-86. Hann rétti mér boltann tíu mínútum fyrir leik gegn Brighton á undirbúningstímabilinu. "Ég tek ekki boltann", sagði ég, "ertu eitthvað að fíflast í mér?". "Nei, ég vil að þú takir boltann sem fyrirliði liðsins", svaraði hann."

Kenny Dalglish sagði frá þessum örlagaríka degi í viðtali á sínum tíma: "Dagurinn sem ég útnefndi Alan Hansen sem nýjan fyrirliða Liverpool var einn besti dagurinn í stjórnartíð minni hjá Liverpool. Þetta var afskaplega mikilvæg ákvörðun enda var ég enn leikmaður hjá félaginu þannig að viðkomandi þurfti að vera reiðubúinn að skipa mér til og frá á vellinum. Ég gæti ekki hugsað mér hæfari leikmann til að taka skipunum frá. Allir leikmennirnir bera mikla virðingu fyrir honum og treysta honum fullkomlega. Hann elskar Liverpool Football Club jafnheitt og innfæddur Scouser. Alan er öðrum til fyrirmyndar."

TIL BAKA