Alan Hansen

"Það hlægir mig þegar fólk segir hversu sjálfsöruggur ég virtist á fótboltavellinum."

Einn helsti styrkur minn er að ég er tiltölulega jafnfættur, var mjög fljótur og gat lesið leikinn afbragðsvel. Margir virðast ekki átta sig á hversu fljótur ég var og jafnvel safnvörðurinn í Anfield-safninu var búinn að skrifa í lýsingu á ferli mínum sem liggur þar ásamt verðlaunapeningunum mínum að mig hefði skort hraða. Ég innti hann eftir þessu og hann sagðist hafa lesið þetta í bók rétt eins og ég hef reyndar líka gert en það var virkilega slæmt að sjá þetta standa svart á hvítu á Anfield. Sannleikurinn er sá að ég virðist ekki eins fljótur og ég raunverulega var. Hæð mín og stór skref gerði það að verkum að ég virtist ekki hlaupa hratt. Þegar ég var hjá Liverpool þá gátu nokkrir leikmenn hjá Liverpool stungið mig af á fyrstu tíu metrunum en ég man ekki eftir neinum sem stakk mig af á 20-30 metrum. Þar sem ég var sókndjarfur miðvallarleikmaður áður en ég gekk til liðs við Liverpool þá sá ég enga ástæðu til annars en að leika áfram sem slíkur, nýta þá eiginleika sem ég hafði sem leikmaður þrátt fyrir að staða mín var nú aftar á vellinum. Ég var sérstaklega hrifinn af því að senda boltann "blint", senda boltann í öfuga átt við þá sem ég horfði í. Ég blekkti marga mótherja mína með þessu og var enn að þessu síðasta tímabil mitt hjá Liverpool þrátt fyrir að þessi hreyfing ylli mér sársauka í hnjánum. Enginn þjálfara minna eða framkvæmdastjóra bað mig um að hætta þessu. Þeir hvöttu mig frekar enn til dáða. Ég man eftir að þegar nýir leikmenn komu til Liverpool, sérstaklega varnarmenn þá benti Ronnie Moran á mig og sagði: "Ekki reyna að spila eins og Stóri Al. Það er vonlaust að reyna það því að hann er einstakur." Ég var hins vegar duglegur að fjölga gráu hárunum á forráðarmönnum Liverpool því að ég var líka hrifinn af því að sýna andstæðingnum boltann innan vítateigs og draga hann svo tilbaka á síðustu stundu er mótherjinn lét sig vaða.

Það hlægir mig þegar fólk segir hversu sjálfsöruggur ég virtist á fótboltavellinum. Það gæti ekki verið fjarri sannleikanum. Ég kveið mikið fyrir hverjum einasta leik og ég átti í erfiðleikum með að standast það álag að leika fyrir eins stórt og áberandi félag eins og Liverpool. Ég hef aldrei verið ákveðinn persónuleiki. Alla mína lífstíð hef ég verið svo hræddur við að mistakast að það er ekki eðlilegt. Þegar ég kom til Liverpool þá opnaði ég ekki á mér kjaftinn fyrstu sex mánuðina. Sjálfstraust mitt hefur aukist með aldrinum. Ég vissi að ég var góður leikmaður en ég taldi mig aldrei vera þann besta. Það var ekki fyrr en ég var búinn að leggja skóna á hilluna og bar mig saman við þá leikmenn sem léku á sama tíma að ég sá mig í öðru ljósi. Ég vildi óska þess að ég hefði haft meira álit á sjálfum mér þegar ég var að leika því að ég hefði eflaust orðið betri leikmaður.

 "Hansen virtist ekki búa yfir miklum hraða en einhvern veginn var hann samt alltaf skrefinu á undan öllum öðrum. Það var óþolandi að horfa upp á hann svífa yfir völlinn meðan maður hljóp eins og brjálæðingur". - Ian Callaghan útherji Liverpool 1959-1978.

Ein versta stund Alan Hansen í knattspyrnunni var án efa þegar hann var ekki valinn í skoska landsliðið sem tók þátt í Heimsmeistarakeppninni í Mexíkó 1986. Gefum Bob Paisley orðið: "Sumir leikmannanna virtust taka þessi tíðindi mun nærri sér en Alan sjálfur. Þeir voru algjörlega bit á að leikmaður sem allir höfðu svo mikið álit á væri álitinn gagnslaus í þeirri baráttu sem Heimsmeistarakeppnin er. Alan lét ekki mikið á bera en þeir sem stóðu honum næst vissu hve mikil vonbrigði hann upplifði."

Sá snillingur sem ákvað að skilja Hansen eftir heima var enginn annar en núverandi framkvæmdastjóri Man Utd, Alex Ferguson: "það tók langan tíma fyrir mig að taka þessa ákvörðun. Það var erfitt að tilkynna leikmanni í hans klassa að hann spilaði ekki á HM. En þegar ég loks hringdi í hann, þá er mér enn í fersku minni þau orð sem hann lét falla, "Jæja Alex, þú getur ekki tekið alla með. Ég er vonsvikinn en þakka þér fyrir að hringja í mig og láta mig vita." Aðdáendur Liverpool munu alltaf minnast hans fyrir boltameðferð hans, sjálfsöryggi og hraða en ég mun minnast hans sem heilsteyptrar manneskju sem ávinnur sér virðingu allra sem komast í kynni við hann." - Alex Ferguson.

"Hansen er einn besti varnarmaður sem ég hef komist í tæri við. Hann var ekki einungis góður varnarmaður heldur var hann mjög skeinuhættur er hann þeystist með boltann upp miðjan völlinn eins og herforingi. Hann sá mér fyrir fjölda marktækifæra með útsjónarsemi sinni." - Terry McDermott miðvallarleikmaður Liverpool 1974-1982.

TIL BAKA