Kenny Dalglish


22. febrúar 1991 reyndist minnisstæður dagur í sögu Liverpool. Kl. 11 um morguninn var boðað til blaðamannafundar á Anfield. Engan grunaði hvað væri í vændum. Flestir virtust álíta að John Barnes væri á leið til Ítalíu þar sem þrálátur orðrómur þess efnis hafði verið í blöðunum undanfarnar vikur. Aðrir héldu kannski að Liverpool hefði keypt einhverja stórstjörnu og eftirvæntingin var mikil. Einn blaðamaður spaugaði og sagði að líklega væri Dalglish að segja af sér eftir 4-4 jafnteflið gegn Everton um daginn. Fréttamennirnir brostu, svo þögnuðu menn skyndilega er stjórnarformaður Liverpool, Noel White gekk inn í salinn. Í kjölfar hans komu Peter Robinson, Sir John Smith fyrrum formaður Liverpool, tveir stjórnarmenn og Kenny Dalglish rak svo lestina, fölur á svip. Noel White tók strax til máls: "Þakka ykkur fyrir að koma með svo stuttum fyrirvara. Ég ætla að lesa stutta yfirlýsingu: Mér þykir leitt að tilkynna að Kenny Dalglish hefur óskað eftir því við stjórn Liverpool að hætta sem framkvæmdastjóri." Grafarþögn í salnum. Enginn virtist skilja hvað hann hefði verið að segja. Allra augu beindust að Skotanum. Dalglish tók til máls: "Þetta er í fyrsta skipti síðan ég kom til klúbbsins sem ég tek hagsmuni Kenny Dalglish fram yfir hagsmuni Liverpool Football Club. Þetta er engin skyndiákvörðun. Það versta sem ég hefði getað gert væri að taka enga ákvörðun. Það er hægt að halda því fram að þessi ákvörðun hefði ekki verið tekin á heppilegum tímapunkti en það er enginn tími heppilegur í tilviki sem þessu. Helsta vandamálið er pressan sem ég set á sjálfan mig vegna sterkrar löngunar minnar að ná árangri. Streitan sem fylgir skömmu fyrir og eftir leik er orðin mér ofviða. Fólk á kannski erfitt með að skilja ákvörðun mína en þessi ákvörðun stendur. Ég myndi leiða fólk villu vegar ef ég myndi ekki láta vita að það væri eitthvað að. Ég er búinn að vera í fótbolta síðan ég var 17 ára gamall. Tuttugu ár með tveimur sigursælustu liðum á Bretlandseyjum, Celtic og Liverpool. Ég er búinn að vera í eldlínunni í öll þessi ár og nú er mál að linni." Dalglish hætti að tala. Blaðamenn spurðu stjórnamenn nokkurra spurninga þar sem kom fram að Ronnie Moran hafði verið beðinn að taka við liðinu og að Dalglish hefði hætt þrátt fyrir þrálát mótmæli frá stjórninni en samt ríkti sátt og samlyndi milli aðila. Fylkingin hvarf síðan jafnskjótt úr salnum eins og hún kom nokkrum mínútum áður.

Öngþveiti ríkti í Liverpool þennan dag, fréttin barst eins og eldur í sinu, fólk á götunni héldu að fjölmiðlamenn væri að stríða þeim er þeir stoppuðu það úti á götu og tjáðu þeim fréttirnar. Allir hugleiddu ástæður uppsagnarinnar. Liverpool var í efsta sæti deildarinnar og ennþá í bikarnum og ekkert alvarlegt virtist bjáta á innan liðsins. Á Lime Street-lestarstöðinni í Liverpool las þulurinn í hátalarakerfinu hinar dæmigerðu tilkynningar um seinkunir á lestum en þennan dag brá hann út af venjunni og tilkynnti: "Kenny Dalglish er hættur sem framkvæmdastjóri Liverpool, ég hélt bara að þið hefðuð áhuga á að vita það", sagði hann síðan í afsökunartón. Þetta minnti marga á afsögn Shanklys árið 1974 þar sem þessi yfirlýsing kom einnig sem þruma úr heiðskíru lofti. Önnur goðsögn Liverpool var horfin af sjónarsviði Anfield.


TIL BAKA