Kenny Dalglish


Liverpool voru nýbakaðir Evrópumeistarar eftir frábæran 3-1 sigur á Gladbach en nú vantaði þá einhvern snjallan leikmann til þess að fylla skarð Kevin Keegan sem var farinn til Hamburger SV. Man Utd gat hugsanlega boðið betri laun en hugur Dalglish leitaði fremur til Anfield. Paisley hafði haft samband við Jock Stein fyrir ári síðan þegar hann frétti að fararsnið væri á Dalglish en Stein sagði þá að hann færi ekki neitt. En Stein bætti því við að hann myndi hafa fyrst samband við Paisley ef útséð væri að ekki væri hægt að koma í veg fyrir að Dalglish myndi yfirgefa Celtic. Stein stóð við loforð sitt þótt hann væri mjög svekktur að missa svo snjallan leikmann. Forráðarmenn Liverpool og Celtic settust niður og ræddu málin. Liverpool bauð fyrst 300.000 pund en Celtic neitaði en John Smith formaður Liverpool og Bob Paisley voru undir það búnir. Þeir voru reiðubúnir að bjóða um 10% í viðbót þangað til þeir mundu ná 400.000. Það væri þeirra hæsta boð. Loks var tilboð Liverpool komið upp í 400.000 eftir að Stein hafði neitað þeim um 330.000 og 360.000. En Stein sagði enn nei en bætti þó við ef Liverpool myndi bjóða 10% í viðbót þá myndu þeir ná samkomulagi. Smith horfði á Paisley og þurfti ekki frekari vitnanna við, Smith kinkaði kolli og Liverpool samþykkti 440.000 pund sem var metupphæð fyrir leikmann sem hafði verið seldur á milli liða á Bretlandseyjum. Dalglish var kallaður á fund og hlustaði á Paisley í einar fimm mínútur og tók síðan í hönd nýja stjórans síns. Það var enginn efi í hans huga. Liverpool var besta lið í Evrópu og Anfield var rétti staðurinn fyrir hann að vera á.

Bill Shankly trúði því ekki að Celtic hefði látið Dalglish fara þegar honum barst það til eyrna: "Ég skil að Dalglish vildi fara eins og Kevin Keegan en ég hefði fært himinn og jörð úr stað til þess að halda honum. Ég hefði frekar sagt af mér en að þurfa að selja svo snjallan leikmann." Aðeins tveimur dögum síðar 10. ágúst 1977 lék Dalglish sinn fyrsta leik fyrir Liverpool gegn Man Utd í góðgerðarskildinum í markalausum leik. Aðdáendur Liverpool voru spenntir en höfðu í huga að margir snjallir leikmenn höfðu komið frá Skotlandi en ekki náð sér á strik í Englandi þar sem deildarkeppnin var erfiðari. Samherjar Dalglish voru ekki af verri endanum: Ray Clemence var í marki, Phil Neal og Joey Jones bakverðir, Phil Thompson og Emlyn Hughes voru í miðju varnarinnar, fyrir framan þá Ray Kennedy og Terry McDermott, á köntunum Ian Callaghan og Steve Heighway og í fremstu víglínu David Johnson og David "super sub" Fairclough. John Toshack og Tommy Smith voru komnir á bekkinn enda komnir til ára sinna og hinn ungi og efnilegi varnarmaður Alan Hansen beið færis á að komast í aðalliðið. Dalglish lék fyrsta deildarleik sinn gegn Middlesbrough á útivelli og þurfti m.a. að etja kappi við ungan Skota að nafni Graeme Souness á miðjunni hjá Middlesbrough. Eftir sjö mínútna leik lá boltinn í netinu hjá 'Boro og Dalglish fagnaði fyrsta marki sínu fyrir Liverpool. Þrem dögum síðar mætti Liverpool Derby á Anfield. Aðdáendur Liverpool tóku vel á móti nýliðanum og ekki dró niður í áhorfendum þegar Dalglish þakkaði fyrir sig í byrjun seinni hálfleiks með glæsilegu marki. DALG-LISH ómaði um The Kop. Hörðustu aðdáendur Liverpool höfðu fundið sér nýja hetju til að dýrka og dá.

Dalglish skoraði í þriðja leiknum í röð og liðinu gekk allt í haginn. En erfiður kafli frá miðjum janúar til mars gerði út um allar meistaravonir. Paisley hafði styrkt liðið með kaupum á Graeme Souness sem féll vel inn í leik liðsins en Dalglish var í vandræðum. Hann hafði aðeins skorað 3 mörk frá desember til mars og menn voru farnir að efast um kaupin á Dalglish. En Kenny náði sér á strik og er keppnistímabilinu lauk hafði hann skorað í öðrum hverjum leik hjá Liverpool. En ef liðinu gekk illa í deildinni þá voru Evrópumeistararnir illviðráðanlegir í Evrópukeppninni. Í undanúrslitum mættu þeir andstæðing sínum úr úrslitaleik síðasta árs Borussia Mönchengladbach. Liverpool tapaði 2-1 í Þýskalandi en Dalglish var potturinn og pannan í glæsilegum 3-0 sigri á Anfield. Andstæðingar Liverpool í úrslitaleiknum var belgíska liðið FC Bruges sem hafði unnið firnasterkt lið Juventus í undanúrslitum. Eina mark úrslitaleiksins kom á 65. mínútu. Souness átti stungusendingu inn fyrir vörn Bruges og Dalglish afgreiddi boltann örugglega í netið. Evrópumeistaratitillinn í höfn annað árið í röð. Dalglish gat verið ánægður með fyrsta tímabilið sitt hjá Liverpool: 31 mark, 2. sætið í deildinni, silfurmedalía í deildarbikarnum og Evróputitill.


TIL BAKA