Saga Liverpool FC

1902 - 1914

Liverpool olli vonbrigðum á næsta tímabili en sérstaka athygli vakti afrek Andy McGuigan sem varð fyrsti leikmaður Liverpool til að skora fimm mörk fyrir Liverpool í einum og sama leiknum. Stoke var fórnarlambið og lokastaðan 7-0 en veikindi í herbúðum Stoke hjálpuðu Andy óneitanlega er níu leikmenn voru inná hjá Stoke í leikslok en á tímabili í leiknum voru þeir aðeins sjö! Þeir voru nefnilega með heiftarlega magakveisu og þurftu ótt og títt að skreppa á kamarinn á meðan leik stóð. Liverpool innbyrti annan meistaratitil sinn árið 1906 eftir að hafa skroppið niður í 2. deild í millitíðinni leiktíðina 1904-05. Þeir unnu þar með það einstæða afrek að sigra í 2. deild og halda rakleitt að meistaratitli í 1. deild á tveimur árum. Enn magnaðist stuðningurinn og meðaltal áhorfenda sló fyrri met og fór yfir 17.000. Liverpool vonaðist eftir því að vinna tvennuna; deild og bikar. Liðið komst í undanúrslit F.A. bikarsins og voru mótherjarnir Everton af öllum liðum. Liðin léku á Villa Park fyrir framan 30.000 áhorfendur. Everton vann 2:0 og bar síðan sigur úr býtum í úrslitaleiknum 1:0 gegn Newcastle United. Tveir stærstu bikarar landsins voru komnir til Liverpoolborgar og þetta var ekki í síðasta skipti sem það gerðist. Joe Hewitt var markahæsti leikmaður liðsins í deildinni með 23 mörk. Joe lék 164 leiki og skoraði 69 mörk á leikferli sínum með Liverpool. Hann var alls 60 ár í þjónustu félagsins sem leikmaður, þjálfari og við önnur störf og var mjög vinsæll hjá félaginu alla tíð.

Alex Raisbeck var enn sem fyrr lykilmaður í liði Liverpool og einnig fyrirliði skoska landsliðsins. Hann leiddi lið sitt til 2-1 sigurs gegn enska landsliðinu á hinum nýja Hampdenleikvangi í Glasgow árið 1906. Markvörður Englendinga, James Ashcroft, hreifst af tilburðum Raisbeck til að stöðva hinn stórhættulega framherja Bolton Albert Shepherd: "Ég hef aldrei séð þvílíka frammistöðu, ég gat ekki tekið augun af honum." Árið 1906 var einnig merkilegt fyrir þær sakir að þá reis áhorfendastæði sem gerði þar með 60.000 áhorfendum kleift að koma sér fyrir á Anfield. Þetta nýja stæði tók um 20.000 áhorfendur og var skírt The Spion Kop til minningar um þann fjölda heimamanna sem féll í orrustunni á "Spion Kop" hæðinni í Suður-Afríku í Búastríðinu árið 1901. Áhorfendum á The Kop eins og hún var kölluð í daglegu tali gafst þó einungis eitt tímabil til að virða hetju Liverpoolmanna Alex Raisbeck fyrir sér því að loknu tímabilinu 1906-1907 taldi hann orðið tímabært að setjast í helgan stein 29 ára að aldri. Alex lék alls 340 leiki og skoraði 21 mark á árunum 1898 til 1909. Hann reyndi fyrir sér við framkvæmdastjórn hjá nokkrum liðum með þokkalegum árangri en endaði starsfaldur sinn sem njósnari hjá Liverpool.

Meistarar 1905-06. Standandi frá vinstri: W. Connell (þjálfari), Hewitt, Wilson, S. Hardy, Parry, Doig, Dunlop, J. Hardy. Sitjandi: Robinson, Gorman, Murray, Hughes, Raisbeck, Cox, Fleming, Raybould, West. Sitjandi á vellinum: Goddard, Latham, Carlin.

Mögur ár voru framundan þó að annað sætið næðist 1910. Árið 1914 birti heldur til og Tom Watson gat hlakkað til úrslitaleiksins í bikarkeppni knattspyrnusambandsins sem Liverpool hafði aldrei unnið. Tom hafði fram að þessu þrívegis upplifað tap með liðinu í undanúrslitum. Liverpool átti ekki góða leiktíð í deildinni og hafnaði aðeins í 16. sæti. Á leiðinni í úrslitin lagði Liverpool: Barnsley, Gillingham, West Ham United og Queens Park Rangers áður en kom að undanúrslitunum. Þar lék Liverpool gegn Aston Villa og var leikið á White Hart Lane. Aðeins 27.000 áhorfendur mættu því Aston Villa var talið næsta öruggt með sigur enda liðið sterkt á þessum árum. En Liverpool kom nokkuð á óvart og vann sigur 2:0. Jimmy Nicholl skoraði bæði mörkin framhjá fyrrum markverði Liverpool hinum frábæra Sam Hardy, sem lék 239 leiki með Liverpool á árunum 1905 til 1912. Burnley var mótherji Liverpool í úrslitunum.

Þann 25. apríl 1914 stóðu menn jafnvel ofan á staurum, sátu uppi í trjám eða voru bara yfirleitt hvar sem útsýni gafst yfir Crystal Palace völlinn í Lundúnum. 72.778 áhorfendur var opinber áhorfendafjöldi en sumir telja að miklu fleiri hafi verið á leiknum. Þetta var nítjándi og síðasti úrslitaleikurinn sem fór fram á þessum fornfræga velli sem rúmaði 122.000 áhorfendur. Aðsókn að leiknum þótti ekki mikil því liðin höfðu ekki mikið aðdráttarafl nema fyrir stuðningsmenn sína. Talið er að 20.000 stuðningsmenn Liverpool hafi flykkst til höfuðborgarinnar til að sjá leikinn. Hans hátign George hinn fimmti var viðstaddur þennan merkisatburð og var fyrsti þjóðhöfðingi Englands sem gerði svo. Hann lagði þar með grunninn að þeirri hefð að meðlimur konungfjölskyldunnar heiðri liðin í úrslitum F.A. bikarsins með nærveru sinni. Úrslitaleikurinn var tekinn mjög alvarlega ekki síður en nú á dögum. Leikmenn og forráðamenn Liverpool höfðu yfirgefið heimaborg sína á mánudeginum fyrir leik og haldið til æfinga og undirbúnings fjarri borginni. Fyrirliði Liverpool Henry Lowe gat ekki leikið vegna meiðsla og var Robert Ferguson fyrirliði í hans stað. Lið Liverpool var þannig skipað í þessum fyrsta bikarúrslitaleik félagsins: Kenny Campbell, Ephraim Longworth, Bob Pursell, Tom Fairfoul, Robert Ferguson, Don McKinlay, John Sheldon, Arthur Metcalf, Tom Miller, Bill Lacey og Jimmy Nicholl. Leikurinn sjálfur þótti bragðdaufur og greindi eitt dagblaðanna frá því að besta augnablikið hafi átt sér stað í hálfleik þegar skrúðganga hersins vakti athygli áhorfenda. Á 58. mínútu leiksins skoraði fyrrum framherji Everton, Bert Freeman, eina mark leiksins fyrir Burnley. Skotið var óverjandi fyrir Kenny Campbell í markinu. Liverpool sótti af krafti undir lokin, vel studdir af aðdáendum sínum, en tókst ekki að jafna. Segja heimildir að Liverpool hafi verið óheppið að tapa leiknum en mörkin telja. Stuðningsmenn Liverpool voru tryggir fyrr sem nú og studdu liðið dyggilega í leiknum. Eins tóku stuðningsmenn félagsins höfðinglega á móti liðinu í þúsundatali þegar það kom aftur til Liverpool. En þeir sem sáu um fjármál félagsins gátu glaðst því 14.000 sterlingspund komu í kassann eftir góða framgöngu liðsins í bikarkeppninni. Leikmenn Liverpool reyndu að gleyma þessu sára tapi en félaginu auðnaðist ekki að komast í úrslit bikarsins fyrr en 36 árum síðar og það leið rúm hálf öld áður en félagið vann loks bikarinn.

TIL BAKA