Saga Liverpool FC

1939 - 1946

Þann 1. september 1939 réðst þýski herinn inn í Pólland. Síðari heimsstyrjöldin var hafin. Vonir manna stóðu til að stríðið stæði stutt en því miður varð raunin önnur. Mesti hildarleikur sögunnar stóð í næstum sex ár. En knattspyrnan lagðist ekki af. Opinber mót lögðust reyndar af en líkt og á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar var leikið um allt Bretland þegar tækifæri gafst. Vináttuleikir fóru fram, reynt var að keppa í mótum á héraðsvísu og eins voru landsleikir leiknir á Bretlandseyjum. Til dæmis léku erkifjendurnir Englendingar og Skotar nokkrum sinnum saman á styrjaldarárunum. Allir þessir leikir eru þó ekki taldir opinberir og eru ekki skráðir í bókhaldi yfir leikjafjölda leikmanna og liða. Liverpool vann sigur á einu af þessum stríðsmótum 1943 og bætti þar við sigur í áþekkum mótum í fyrri heimsstyrjöldinni 1917, 1918 og 1919. Árin 1942 og 1943 vann liðið bikarkeppni Liverpoolborgar. Harðskeyttur skoskur leikmaður, Bill Shankly, var einn leikmanna Liverpool í úrslitaleiknum gegn Everton 1942 þegar Liverpool lagði þá Bláu 4:1. Bill átti aldeilis eftir að koma við sögu hjá Liverpool síðar en færri vita að hann lék einn leik með liðinu. Annar tilvonandi framkvæmdastjóri Liverpool Don Welsh lék líka sem gestaleikmaður með Liverpool. Að auki léku þeir Phil Taylor og Bob Paisley með Liverpool enda samningsbundnir félaginu. Fjórir næstu framkvæmdastjórar Liverpool léku því með félaginu á þessum árum. Leikmenn flökkuðu á milli liða og léku sem gestaleikmenn með þeim liðum sem voru nærri herstöðvum þeirra í það og það skiptið. Leikmenn fengu einfaldlega leyfi hjá yfirmönnum herdeilda sinna og skelltu sér í leiki. Leikmenn Liverpool fóru víða og sem dæmi lék Billy Liddell með fimm liðum og skoska landsliðinu að auki á meðan stríðinu stóð.

Vorið 1945 lauk styrjöldinni í Evrópu og í ágúst var bundinn endir á styrjöldina. Margt hafði breyst á þessum næstum sex árum hvað varðaði knattspyrnu svo ekki sé minnst á önnur svið þjóðfélagsins. Leikmenn sem voru að hefja ferilinn þegar stríðið hófst tóku nú upp þráðinn á nýjan leik en fyrir aðra voru bestu ár þeirra á knattspyrnuvellinum að baki. Þeir leikmenn sem voru um þrítugt þegar hildarleikurinn hófst voru nú orðnir of gamlir til að stunda knattspyrnu sem atvinnu. Að sjálfsögðu voru líka margir sem ekki áttu afturkvæmt af vígvellinum. Bob Paisley sagði síðar: "Stríðið tók sex ár af leikferli mínum en á þessum tíma var ekkert val. Margir ungir knattspyrnumenn reyndu að taka upp þráðinn á nýjan leik 1945. Við sem það gátum vorum lánsamir. Margir höfðu ekki þann valkost." Einn leikmaður Liverpool lést í stríðinu. Þetta var enski landsliðsbakvörðurinn Tom Cooper sem dó í vélhjólaslysi 1940 á meðan hann var í herlögreglunni. En líklega hafa flestir leikmenn Liverpool barist í stríðinu. Bob Paisley var í eyðimerkurstríðinu í Afríku, Billy Liddell og Barry Nieuwenhuys þjónuðu í flughernum og svo mætti lengi telja. Nokkrir af leikmönnum Liverpool fengu heiðursmerki fyrir vasklega framgöngu með breska hernum. Má þar nefna þá Eddie Spicer og Bill Jones. Heimsfrægur íþróttakappi skrifaði undir samning við Liverpool árið 1944. Þetta var bandaríski heimsmeistarinn í þungavigtarhnefaleikum Joe Louis. Hann var þá staddur á ferðalagi á Bretlandi og skrifaði í gamni undir samning við félagið. Engum frægðarsögum fer þó af hæfileikum hans í boltaíþróttinni. En stuðningsmenn Liverpool geta þó verið stoltir af því að einn besti boxari allra tíma var á samningi við félagið. Í september sama ár lést höfðinginn Matt McQueen sem átti einstakan feril að baki hjá Liverpool sem leikmaður, framkvæmdastjóri og reyndar sinnti hann flestum mögulegum störfum fyrir félagið.

En mestu máli skipti að stríðið var á enda. Skipulögð knattspyrnuiðkun hófst skiljanlega ekki strax eftir stríðið. Mikilvægari verk svo sem endurreisn eftir átökin gengu fyrir. Eins voru leikmenn liðanna margir hverjir enn skráðir í herinn og ekki enn komnir til síns heima. Veturinn 1946 hófst skipulögð knattspyrna á nýjan leik. Fyrst var keppt í F.A. bikarkeppninni. Liverpool byrjaði á að slá Chester út í tveimur leikjum en leikið var heima og að heiman þessa leiktíð. Í fyrri leiknum vann Liverpool 2:0 á útivelli. Billy Liddell sem rétt náði að komast til leiks tuttugu mínútum áður en hann hófst skoraði fyrra markið. Willie Fagan skoraði seinna markið og bæði mörkin í 2:1 sigri Liverpool á Anfield Road. En í næstu umferð féll liðið út fyrir Bolton. Fyrri leikurinn á útivelli tapaðist illa 5:0 og á Anfield náði Liverpool ekki að snúa blaðinu við þrátt fyrir 2:0 sigur. Sumarið 1946 keypti Liverpool landsliðsmarkvörð Veils Cyril Sidlow frá Úlfunum fyrir 4.000 sterlingspund. Cyril, sem lék sjö landsleiki fyrir Veils, var mjög góður markvörður sem var meðal fyrstu leikmanna í sinni stöðu til að byggja upp sóknir með því að kasta boltanum út á samherja í stað þess að sparka honum fram á völlinn.

Leiktíðina 1946/47 var svo allt komið í fastar skorður og deildarkeppnin hófst á nýjan leik. Leikmenn Liverpool komu sterkir til leiks. Það var engin tilviljun að liðið kom vel undirbúið til komandi átaka. Sumarið 1946 lagði liðið upp í æfinga- og keppnisferðalag til Vesturheims. Um tuttugu manna leikmannahópur auk nokkura forráðamanna félagsins fór með glæsiskipinu Queen Mary yfir Atlandshafið. Framkvæmdastjóri Liverpool George Kay hafði mikla trú á að ferðalag þetta myndi skila góðum árangri. Hann taldi að sól, appelsínusafi og safaríkar stórsteikur myndu koma leikmönnum til góða. Víst var að þarna hafði George rétt fyrir sér og ekki spillti fyrir að leikmenn komu fullir sjálfstrausts heim eftir að hafa raðað inn mörkum hjá liðunum sem leikið var gegn.

Margir leikmanna Liverpool voru óreyndir þegar leiktíðin hófst. Þeir: Billy Liddell, Cyril Done, Bob Paisley, Laurie Hughes, Bill Jones, Ray Lambert og fleiri voru að stíga sín fyrstu skref með liðinu. Margir voru reyndar komnir vel yfir tvítugt. Ray komst í metabækur þegar Liverpool gerði áhugamannasamning við hann þegar hann var aðeins 13 og hálfs árs gamall. Yngri leikmaður hafði aldrei gengið til liðs við atvinnumannalið. Ray hafði því verið á samningi hjá Liverpool í tíu ár þegar hann lék sinn fyrsta leik! Hér sannaðist að þolinmæði getur borgað sig! Hann lék síðar landsleiki með velska landsliðinu. Bob Paisley kom til Liverpool frá áhugamannafélaginu Bishop Auckland í maí 1939. Þeir Bob, Laurie, Ray og Phil Taylor skipuðu vörn liðsins. Liverpool var nokkuð sveiflukennt framan af leiktíðinni. Fyrsti leikurinn vannst á útivelli gegn Sheffield United. Len Carney skoraði eina markið á lokamínútu leiksins. Len var að leika sinn fyrsta leik sinn með Liverpool þá komin af léttasta skeiði orðinn 32 ára gamall! Hann lék ekki marga leiki í viðbót vegna þess að meiðsli sem hann hlaut í stríðinu gerðu honum erfitt fyrir. Fyrsti leikurinn á Anfield Road tapaðist 1:0 fyrir Middlesbrough en í næsta leik fór liðið á kostum. Chelsea kom í heimsókn til Liverpool og heimamenn komust í 6:0. Gestirnir skoruðu næstu fjögur mörk en Liverpool skoraði síðasta mark leiksins og 7:4 sigur varð staðreynd. Í þessum leik lék Skotinn Billy Liddell sinn fyrsta deildarleik af mörgum fyrir Liverpool. Hann skoraði tvö mörk, annað beint úr hornspyrnu. Hin mörkin skoruðu þeir: Bill Jones tvö, Willie Fagan tvö og Jack Balmer eitt. Bob Paisley, þá orðinn 26 ára, lék líka sinn fyrsta deildarleik með Liverpool í þessum leik. En óstöðugleiki liðsins kom vel í ljós í næsta leik þegar liðið tapaði 5-0 fyrir Manchester United sem nú var undir stjórn fyrrum fyrirliða Liverpool Matt Busby. Matt hafði jú valið að gerast stjóri hjá United þrátt fyrir tilboð um þjálfun á Anfield Road.

Tapið gegn United sannfærði George Kay um að lið hans vantaði kröftugan sóknarmann. Hann beið ekki boðanna og bauð tólf þúsund og fimmhundruð sterlingspund í Albert Stubbins framherja Newcastle. Albert var þekktur sóknarmaður og hafði skorað fjölda marka fyrir Newcastle. En það höfðu fleiri áhuga. Englandsmeistararnir frá því fyrir stríð, Everton, voru þá einnig á höttunum eftir þessum rauðhærða, sterka, hávaxna og granna leikmanni. Tilboð erkifjendanna hljóðaði upp á nákvæmlega sömu upphæð. Albert var vandi á höndum hvort hann ætti fyrst að tala við George Kay eða Theo Kelly framkvæmdastjóra Everton. Báðir voru komnir til Newcastle til að ræða við leikmanninn. Úr flækjunni þurfti hann þó að greiða og eftir nokkrar vangaveltur kastaði hann upp peningi. Liverpool varð ofan á og Albert talaði fyrst við George. Albert gerði upp hug sinn eftir að hafa heyrt tilboð Liverpool. "Ég var ákveðinn eftir að hafa heyrt tilboð George Kay. Tilboðið var gott og ég talaði aldrei við Theo. Það hjálpaði til við ákvörðunina að ég þekkti nokkra leikmenn Liverpool eftir að hafa leikið gegn þeim á stríðsárunum." Albert sló strax í gegn í sínum fyrsta leik. Liverpool vann Bolton 3:1 á útivelli. Nýi miðherjinn skoraði eftir að hafa leikið frá miðju og þrumað boltanum í markið. Stuðningsmenn Liverpool höfðu eignast nýja hetju. Albert þakkaði stuðningsmönnum Liverpool síðar fyrir að hafa stutt við bakið á sér. "Stuðningur áhorfenda hjálpaði mér mikið í byrjun. Þeir hvöttu mig alltaf til dáða, líka þegar mér tókst ekki vel upp. Ég verð þeim eilíflega þakklátur." Í kjölfarið fylgdu tólf leikir án taps.

TIL BAKA