Bill Shankly

Bill Shankly fæddist 2. september árið 1913 í Glenbuck, 1200 íbúa námubæ í Skotlandi. Það var erfitt í ári og allir hjálpuðust að til þess að komast af. Námumennirnir fóru í verkfall árið 1926 en stjórnmálamennirnir sviku þá og þeir þurftu að fara aftur í námuna og sætta sig jafnvel við enn verri vinnuskilyrði en áður. Uppvaxtarárin móta manninn og það var öllum ljóst sem komust í kynni við Shankly á lífsleiðinni að hann átti mjög erfitt með að treysta stjórnarmönnum klúbbanna sem hann var framkvæmdastjóri hjá. Þessir hvítflibbar vissu ekkert um fótbolta og hefðu enga tilfinningu fyrir því að vera knattspyrnumaður frekar en þeir pólítikusar sem sviku námumennina vissu hvernig það væri að vera námumaður. En hugur Shankly á þessum árum stefndi að atvinnumennsku í knattspyrnu. Shankly og bræður hans voru allir liðtækir í fótbolta og átján ára gamall gekk Shankly til liðs við Carlisle þar sem hann lék aðeins eitt tímabil áður en hann var seldur til Preston North End. Shankly var ætíð í góðu líkamlegu formi og þótti mjög frambærilegur varnarmaður. Hann sýndi snemma leiðtogahæfileika og var síðar skipaður skoska landsliðsins. Shankly spilaði tvisvar á Wembley í úrslitum bikarkeppninnar og í seinna skiptið hampaði hann titlinum. Þegar Shankly hætti sem leikmaður árið 1949 og afhenti eftirmanni sínum Tommy Docherty (síðar framkvæmdastjóra Man Utd) skyrtuna sína sem var númer 4, sagði hann við Doc þessi fleygu orð: "Hafðu engar áhyggjur, hún hleypur sjálf". Shankly beið ekki boðanna þegar hann hætti sem leikmaður og tók við liði Carlisle og stýrði því í 3 ár áður en hann fór til Grimsby og þaðan til Workington. Hann gerðist loks aðstoðarþjálfari hjá Huddersfield en tók við liðinu ári síðar þegar framkvæmdastjórinn Andy Beattie var ráðinn þjálfari skoska landsliðsins.

Þegar Shankly var ráðinn sem framkvæmdastjóri Liverpool hafði hann ekki átt sérstakri velgengni að fagna með þeim félagsliðum sem hann hafði áður þjálfað. Hann átti til að lenda í rifrildi við stjórnarmenn sem voru ekki reiðubúnir að hans mati til þess að leggja sig eins hart fram og hann sjálfur til þess að ná árangri. Shankly trúði á að árangur myndi ekki nást nema alllir þátttakendur stefndu að sama markmiði: "Sá sósíalismi sem ég trúi á snýst ekki um pólítík. Ég trúi á að eina leiðin til þess að ná árangri í lífinu er með samhentu átaki. Allir vinna fyrir hvern annan og allir deila árangrinum að loknu verki. Þannig sé ég fótbolta og lífið sjálft". Óbilandi metnaður Shankly vakti fyrst athygli T.V. Williams stjórnarformanns Liverpool þegar hann ræddi við Shankly varðandi framkvæmdastjórastöðuna hjá Liverpool þegar hún var laus til umsóknar árið 1951. Williams fannst hann ekki hafa næga reynslu þá og Shankly var heldur ekki það stóra nafn sem þeir voru að leita að á þeim tíma til þess að trekkja að leikmenn. En Williams vissi að Shankly og Liverpool væru skapað fyrir hvort annað og einhvern tíma myndi Shankly verða framkvæmdastjóri liðsins.

Liverpool var ekki í góðu ásigkomulagi árið 1959. Liðið féll í 2. deild fimm árum áður og reynst þrautin þyngri að komast upp á ný í efstu deild. Völlurinn var ekki upp á marga fiska, æfingaaðstaðan var léleg og þjálfunin ómarkviss. Shankly hafði gert ágætis hluti með Huddersfield en nú var liðið á hraðri niðurleið en Shankly var viss um að ef hann fengi stóran klúbb í hendurnar sem myndi vera jafnmetnaðarfullur og hann sjálfur þá myndi honum vegna vel að nýju. 1. desember 1959 birtist fréttatilkynning í staðarblaðinu Daily Post: "Herra Bill Shankly framkvæmdastjóri Huddersfield Town var í gær ráðinn framkvæmdastjóri Liverpool Football Club og tekur við af Phil Taylor sem sagði af sér 17. nóvember. Hann hefur tekið tilboði okkar en hefur samþykkt að vera einn mánuð í viðbót á Leeds Road áður en hann kemur til Anfield snemma á nýju ári nema að aðstæður verði þess valdandi að hann gæti komið fyrr". Blaðamenn Daily Post áttuðu sig á að Shankly var ekkert meðalmenni: "Sjálftraust nýja framkvæmdastjórans og ákveðni smitar út frá sér. Þú þarft ekki að vera í návist hans nema nokkrar mínútur til þess að átta þig á því að drifkraftur hans er sjaldgæfur og hann muni fórna öllu til að ná því takmarki sem hann setur sér. Leikmönnunum mun líka vel við hann og hann er sanngjarn og alltaf reiðubúinn að hjálpa og ráðleggja. En hann býst við miklu í staðinn og vill að hver einasti leikmaður gefi allt sem hann hefur að gefa". Shankly beið gríðarlega erfitt verkefni en hann var kokhraustur að vanda: "Ég er mjög ánægður og stoltur af að hafa verið valinn framkvæmdastjóri Liverpool FC, hjá félagi sem hefur upp á svo mikið að bjóða. Liverpool á aðdáendur sem eru, að mínu áliti, þeir bestu í boltanum. Þeir eiga velgengni skilið og á minn hæverska hátt get ég gert eitthvað til að hjálpa þeim til að ná því takmarki. Ég lofa engu nema að frá því augnabliki sem ég tek við taumunum þá þá mun ég leggja mig allan fram í þetta starf sem ég þigg með þökkum".

Liverpool hafði reynda þjálfara: Fagan, Bennett og Paisley sem vantaði einhvern góðan yfirmann til þess að nýta hæfileika þeirra til hins ítrasta. Shankly ákvað að skipta ekki um þjálfaralið sem þykir fremur óvenjuleg ákvörðun enn þann dag í dag en með þessari ákvörðun lék hann sterkari leik en kaup á mörgum stórstjörnum hefðu orsakað. Ronnie Moran þáverandi fyrirliði Liverpool minnist þess tíma vel þegar Shankly hélt innreið sína í Liverpool: "Með fullri virðingu fyrir áðurgengnum framkvæmdastjórum þá færðist nýtt líf í klúbbinn þegar Shankly tók við. Hann snéri ölllu við og gerði klúbbinn að því sem hann er í dag þekktur um víða veröld". Nýtt æfingakerfi var byggt upp sem tryggði að leikmenn Liverpool væru ávallt betur á sig komnir og einu þrepi framar á öllum sviðum en andstæðingurinn. Æfingarnar voru erfiðar og krefjandi en þannig skipulagðar að leikmenn fengu aldrei leið á þeim. "Áður hlupum við alltaf frá Anfield til Melwood-æfingasvæðisins sem var um fimm kílómetrar en Shankly lét okkur hætta því undir eins. Hann sagði að "þið hlaupið ekki á götum úti í leikjum svo að þið þurfið ekki að gera það á æfingum". Hann lét okkur einnig gera mun fleiri boltaæfingar og við lékum stutta leiki þar sem fimm voru í liði þar sem áhersla var lögð á hraðar sendingar". Shankly var vel á sig kominn og tók jafnan þátt í æfingaleikjunum með strákunum og lét leikinn oft halda áfram og áfram þangað til hans lið hafi borið sigur úr býtum. "Starfsbræður Shankly vildu komast að leyndarmálinu bak við æfingarnar hjá okkur og þeim árangri sem þær skiluðu. Einfaldleiki æfingana kom þeim gjörsamlega í opna skjöldu. Fleiri og fleiri komu til Liverpool til þess að fylgjast með er titlarnir fóru að rúlla inn en þeir fóru í burtu muldrandi fyrir munni sér hversu lítið við virtumst gera. Þeir sáu ekki það sem virkilega fór fram. Heildarmyndin sagði ekki neitt en það voru smáatriðin sem giltu. Þeir sáu okkur skokka og spila stutta leiki en komu ekki auga á það sem við vorum að reyna að benda leikmönnum okkar á: hvenær á að senda boltann, hvenær á að leika sig frían osfrv". Shankly hafði ennfremur gjörbylt allri aðstöðu á Melwood. Æfingasvæðið var orðið fyrsta flokks og harla líkt þeirri níðurníðslu sem beið Shankly við komu hans til félagsins. En nú þurftu leikmennirnir að framkvæma það á vellinum sem Shankly var að reyna að kenna þeim á æfingum. Shankly var lánsamur að snillingarnir Roger Hunt og Ian Callaghan voru reiðubúnir að taka skrefið úr unglingaliði Liverpool í meistaraflokk og léku sína fyrstu leiki á fyrsta tímabili Shankly en það vóg á móti að besti leikmaður Liverpool undanfarinna ára Billy Liddell var kominn á síðasta snúning. Liverpool bætti árangur sinn um aðeins eitt sæti, endaði í 3. sæti og lék sama leikinn tímabilið á eftir. Stuðningsmenn Liverpool voru orðnir óþolinmóðir og efasemda gætti um að 1. deildarsætið myndi vinnast. 

TIL BAKA