Robbie Fowler

Fowler byrjaði tímabilið vel og skoraði í sínum fyrsta leik gegn Sheff Wed. Liverpool tapaði síðan tveim leikjum í röð gegn Watford og Middlesbrough. Fowler skoraði eitt glæsilegasta mark tímabilisins 28. ágúst í leik gegn Arsenal, þrumuskot af 30 metra færi, þversláin inn. Agalegt 2-3 tap gegn Man Utd tók við þar sem heppnin var ekki með Liverpool. Kevin Keegan var ánægður með form Fowler: "Allir hafa gengið í gegnum ýmis þroskastig rétt eins og Fowler en munurinn er að hann hefur þurft að þola kastljós fjölmiðlana um leið. Allir gera mistök en maður á í virkilegum vanda ef maður lærir ekki af mistökum sínum. Ég hef séð breytingu í fari hans sem eru mjög góðar fréttir fyrir Robbie, fjölskyldu hans og enska landsliðið. Í leik Liverpool og Arsenal léku margir leikmenn vel en Robbie stóð upp úr. Hann er enn ungur og er enn að læra. Ég get séð hann fyrir mér sem lykilmann í landsliðinu."

En ólukkan var ekki langt undan, Fowler fór af velli um miðjan síðari hálfleik í 0-1 tapi gegn Everton 27. september. Hann hafði verið tæpur fyrir leikinn vegna eymsla í  ökkla. Meiðslin reyndust alvarlegri en búist var við í fyrstu og læknar úrskurðuðu að uppskurður væri óumflýjanlegur. Þremur mánuðum síðar lék hann að nýju er hann kom inná gegn Wimbledon eftir klukkutíma leik. Rúmlega 40.000 áhorfendur risu úr sætum og hylltu átrúnaðargoðið í sínum fyrsta leik í langan tíma á Anfield Road. 20 mínútum eftir að hann skokkaði inn á völlinn, var hann búinn að setja hann. Skallamark, ekki það fallegasta á ferlinum, en sögulegt því að þetta var 150 mark Robbie Fowler fyrir Liverpool. Tölfræðin fyrir fyrstu 150 mörk Fowler var á hreinu: 95 mörk voru skoruð með vinstri, 30 með hægri og 25 voru skallamörk. 127 markanna voru innan vítateigs þar af 11 vítapyrnur og 23 með skotum utan vítateigs.

Eftir leikinn gegn Wimbledon fann Fowler ennþá fyrir eymslum í ökklanum og hann var ekki undirbúinn fyrir enn eitt áfallið, annar uppskurður var nauðsynlegur og löng fjarvera framundan. Sami Hyypia var orðinn óþreyjufullur er leið að lokum tímabilsins að fá Fowler aftur í gang: "Robbie er markaskorari af Guðs náð og slíkur leikmaður er nauðsynlegur hverju liði. Það er synd og skömm að hann hefur verið meiddur eins lengi og raun ber vitni. Ef hann getur spilað síðustu 4-5 leikina þá myndi það vera mikil upplyfting fyrir alla. Þegar ég kom hingað var hann einn þeirra leikmanna sem ég hlakkaði einna mest til þess að leika með. Þegar hann er í sínu besta formi er hann einn besti framherji í heiminum."

 Það var ekki fyrr en í apríl að Fowler lét á sér kræla aftur og lék tvo leiki með varaliðinu. Hann var ánægður með að það voru engin eftirköst eftir að hann lék með varaliðinu: "Ég get ekki með orðum lýst muninn á því hvernig mér leið eftir leikinn í gær miðað við síðast þegar ég var að stíga upp úr meiðslum. Ökklinn á mér er í góðu ásigkomulagi og ég mun leika aftur með varaliðinu á mánudaginn. Ég þarf núna að leggja hart að mér við æfingar og reikna með að vera til í slaginn fyrr en ég hafði áætlað. Það er ekki auðvelt að komast í byrjunarliðið þessa dagana og allt annað ástand en í fyrra þegar Karl-Heinz Riedle var eini framherjinn utan aðalliðsins. Samkeppni angrar mig ekki því að ég veit að þegar ég er í formi er ég sá besti. Ég vil ekki hljóma of góður með mig, ég er viss um að Emile og Michael hugsa eins um sig og sína hæfileika. Það er þægilegur höfuðverkur fyrir framkvæmdastjórann að velja úr okkar hópi en úr vöndu að ráða ef allir eru í toppformi. Það er mjög áhugaverður tími framundan."

Fowler kom inná gegn Everton 21. apríl á 60. mínútu en ekkert mark var skráð niður það kvöld. Hann kom inná tveimur næstu leikjum en var skiljanlega langt frá sínu besta. Houllier gaf honum svo tækifæri í byrjunarliðinu gegn Southampton í næstsíðasta leik tímabilisins en var skipt útaf á 59. mínútu og stuttri þátttöku Fowler tímabilið 1999-2000 var lokið.

Liverpool þurfti að ná hagstæðum úrslitum úr lokaleik tímabilsins til þess að eiga möguleika á að komast í Meistaradeild en Fowler var fjarri góðu gamni. Houllier valdi hann ekki í hópinn og gaf sögusögnum byr undir báða vængi. Flestir fjölmiðlar höfðu keppst allt tímabilið við að selja hann til Leeds, Arsenal, Chelsea og jafnvel Man Utd og nú sáu þeir sér leik á borði. Hann átti að hafa heimtað sölu vegna rifrildis við Houllier. Stjórinn neitaði því að einhvers konar uppgjör átti sér stað á milli hans og Fowler eftir leikinn gegn Southampton. Robbie átti að hafa reiðst því að vera tekinn útaf eftir klukkutíma leik gegn Southampton vegna þess að það skerti möguleika hans á að vera valinn í lið Kevin Keegan fyrir EM 2000. Önnur ástæða var talin vera sú að Houllier og þjálfarar hans hafi reiðst því að hann gekk ekki hringinn í leikslok og þakkaði Púllurum veittan stuðning. Houllier segist hafa gefið honum tækifæri í byrjunarliðinu en "eftir átta mánaða fjarveru vegna meiðsla þá er ekki auðvelt að snúa tilbaka klár í slaginn. Robbie sýndi að hann gæti ekki enst 90 mínútur um síðustu helgi. Ég ákvað því nú að hafa hann ekki einu sinni í hópnum."
Fowler var nú kominn með eigin heimasíðu og svaraði fyrir sig: "Ég er forviða að fólk skyldi halda því fram að ég hafi lent í hávaðarifrildi við Houllier. Það er einfaldlega ekki sannleikskorn í þessu öllu saman og er forviða að einhver skyldi halda þessu fram án þess að kanna sannleiksgildi þess hjá mér eða klúbbnum. Sannleikurinn er að það átti sér ekkert rifrildi stað og við áttum ekki einu sinni orðaskipti. Framkvæmdastjórinn útskýrði af hverju ég var ekki í hópnum á sunnudaginn og ég virði ákvörðun hans fullkomlega. Michael Owen var settur út úr liðinu í vikunni áður og við skildum vel ástæður framkvæmdastjórans þá. Hann er sá sem verður að taka mikilvægar og erfiðar ákvarðanir og við verðum að virða þær. Auðvitað vil ég leika með liðinu og að sjálfsögðu er ég svekktur að vera ekki með. En ég hef verið frá í átta mánuði og ég get ekki búist við að labba inn í liðið."

 Fjölmiðlar gáfust ekki upp að flytja fréttir af óánægju hans og hann væri örugglega á leið frá Anfield. Fowler sá sig tilneyddan til þess að koma málunum á hreint í eitt skipti fyrir öll: "Ég vil ekki yfirgefa Liverpool. Ég er mjög ánægður hjá Liverpool. Fjölskylda mín býr öll í Liverpool og eins og ég er hún hamingjusöm hérna."

Kevin Keegan valdi hann í 28 manna landsliðshópinn sem undirbjó sig fyrir EM 2000 í Hollandi og Belgíu. Keegan vissi að hann væri ekki í sem bestu formi og spurning hvort það væri landsliðinu til tekna að taka hann með en Fowler er nú einu sinni einn mesti markaskorari úrvalsdeildarinnar og Keegan var tilbúinn að láta reyna á Fowler til hins ítrasta. Fowler fékk tækifæri á að sanna sig í byrjunarliðinu gegn Úkraínu og skoraði rétt fyrir leikhlé og síðar þann dag valdi Keegan hann í endanlegan hóp fyrir EM 2000 en því miður varð heldur lítið úr þátttöku hans á mótinu er Englendingar féllu úr keppni snemma móts.

Houllier sýndi enn einu sinni þá trú sem hann hefur á stráknum þegar hann lýsti því að Robbie sem varafyrirliði myndi leiða liðið út á nýju tímabili.

TIL BAKA