Robbie Fowler

Fowler var mjög frískur á undirbúningstímabilinu gegn Glentoran 8. ágúst. Hann skoraði strax á 9. mínútu eftir sendingu Diomede og skaut svo í þverslá eftir undirbúning Barmby. En eftir um hálftíma leik lenti hann í samstuði við markvörð Glentoran og var borinn af velli. Hann meiddist á ökkla og frekar en áður þá á ekki af blessuðum piltinum að ganga. Houllier var niðurdreginn eftir leik: "Robbie er mjög óheppinn og ég vorkenni honum eftir allt það sem hann hefur þurft að ganga í gegnum. Hann mun fara aftur til Liverpool í læknisskoðun. Það gætu liðið 2-3 vikur þangað til hann verður til í slaginn en það er erfitt að segja eitthvað um það á þessari stundu. Hann hefur lagt svo hart að sér í sumar til þess að koma sér í æfingu, þetta er mikið áfall."

Houllier reyndi að ýta honum smátt og smátt út í alvöruna eftir meiðslin og í því skyni lék Fowler með varaliðinu gegn Bradford 20. september. "Mér finnst ég vera sterkur og í góðu formi og ég lék með á undirbúningstímabilinu þannig að ég held að það ætti ekki að taka langan tíma að finna mitt besta form", sagði Fowler bjartsýnn á framhaldið. Robbie Fowler lét vita af sér gegn Bradford og skoraði 5 mörk. Houllier var himinlifandi en samt ekki fullkomlega ánægður: "Robbie virðist vera í betra formi en áður. En ég er reiður yfir því að hann náði ekki að skora sex mörk!" Fjórum dögum síðar mætti Liverpool Sunderland á Anfield. 18 mínútum fyrir leikslok kom loks stundin sem allir höfðu beðið eftir þegar Robbie Fowler kom inná og hann var ekki langt frá því að kóróna endurkomu sína í úrvalsdeildina með góðu skoti en boltinn fór í hliðarnetið.

Gerard Houllier lagði sig allan fram sem fyrr til að hvetja hann til dáða. Fowler hefur verið frá meira og minna í þau tvö ár sem Houllier hefur verið við stjórnvölinn og nú finnst Houllier að Fowler eigi að fara að skora mörk eins og honum einum er lagið. Robbie var í byrjunarliðinu í fyrsta skipti á tímabilinu gegn Rapid Búkarest í Evrópukeppni félagsliða á Anfield 28. september. Skilaboðin frá Houllier fyrir leikinn voru skýr: "Robbie verður að tryggja að hann verði ekki talinn efnilegur alla sína ævi. Það versta sem hægt er að segja um knattspyrnumann er að hann hafi verið góður en svo... Við viljum að Robbie sé leikmaður í toppklassa, bæði fyrir hans eigin feril og fyrir liðið. Vandamálin heyra nú fortíðinni til og nú getur hann skilað því sem hann getur. Á öllum starfstíma mínum í Liverpool hef ég tvisvar séð hann í sínu besta formi; á útivelli gegn Aston Villa þar sem hann gerði þrennu og svo í byrjun síðasta tímabils þegar hann var stórkostlegur gegn Arsenal. Hann er nú kominn á það stig á ferlinum að hann verður að halda áfram og sanna sig meðal þeirra bestu." Leikurinn gegn Rapid var í heild sinni slakur en dugði til að Liverpool kæmist áfram. Houllier var ennfremur umhugsað um að flýta Fowler ekki um of vegna hættu á að meiðslin gætu tekið sig upp að nýju. Hann var varamaður gegn Chelsea er versti leikur Liverpool á tímabilinu leit dagsins ljós, 3-0 tap! 

Næsti leikur Liverpool var gegn Derby og er Owen meiddist á 21. mínútu fékk Fowler sitt tækifæri. Houllier var ánægður með frammistöðu Fowler gegn Derby: "Hann var í þokkalegri leikæfingu en snerting hans á boltanum, hraðinn og hversu vel hann klárar færin mun koma með leikæfingunni. Hæfileikar eru einkis virði án leikæfingar og Robbie þarfnast leikja." Fowler þurfti nauðsynlega á að brjóta ísinn og 26. október fékk hann gullið tækifæri til þess. Liverpool var komið í 2. umferð Evrópukeppninnar og mótherjanir voru Slovan Liberec. Liverpool fékk víti fyrir framan The Kop og Fowler steig til að afgreiða boltann. Hann hugðist tileinka markið dóttur sinni er fæddist nóttina áður. En boltinn flaug himinhátt yfir og vonbrigðin leyndu sér ekki og ekki enn síður hjá fréttariturum liverpool.is sem voru staddir á vellinum. En nokkrum dögum síðar mölbrotnaði ísinn. Robbie Fowler hljóp beint til Gerard Houllier eftir mark sitt gegn Chelsea í bikarnum og vildi greinilega þakka honum stuðninginn. Houllier var hæstánægður með strákinn: "Ég er ánægður fyrir hönd Robbie. Fólk veit að ég hef staðið dyggilega að baki honum síðastliðna mánuði. Markið hans á örugglega eftir að efla sjálfstraust hans. Hvort sem hann hefði skorað eða ekki þá var þetta besta alhliðaframmistaða hans eftir að hann steig upp úr meiðslunum. Hann tekur framförum með hverjum leik. Hann hreyfir sig vel á vellinum og fyrsta snerting hans er góð. Hann þarf enn að venjast hraðanum og verður að vera þolinmóður. Leikur hans mun verða sveiflukenndur og það gæti tekið hann nokkra mánuði að detta í gírinn en í janúar - febrúar ætti hann að vera kominn í toppform".

Fowler skoraði gott mark gegn Tottenham þremur leikjum síðar og 3 mörk gegn Íslendingaliðinu Stoke í 8-0 sigri. Hann var hvorki meira né minna en kominn með 25 mörk í 29 deildarbikarleikjum á ferli sínum hjá Liverpool. Fowler var að vonum ánægður þó að andstæðingurinn væri ekki sá sterkasti í boltanum: "Ég var mjög stoltur af þrennunni. Ég hef alltaf sagt að mér væri sama ef ég skoraði ekki svo framarlega sem Liverpool myndi vinna leikinn en nú verð ég að vera heiðarlegur og segja að ég var mjög ánægður með að hafa skorað gegn Stoke. Sjálfstraust mitt hefur aldrei beðið hnekki á þessu tímabili en það er líka sanngjarnt að álíta að þessi þrjú mörk efldu það enn frekar."

Houllier hélt honum á jörðinni eins og hans er von og vísa: "Robbie verður að átta sig á því að síðan hann meiddist hefur úrvalsdeildin tekið framförum. Varnarmenn eru sterkari, snjallari, fljótari og eru betri alhliðaleikmenn og hann verður að takast á við það. Ég vona að hann geri sér grein fyrir því. Ef hann getur leikið í tvo mánuði án þess að meiðast og leggur sitt að mörkum þá mun hann allavega sýna 50% af þeirri getu sem hann býr yfir. Ef hann leggur sig allan fram þá verður hann kannski orðinn jafngóður og hann var undir lok tímabilsins." Houllier hefur nú sagt að á síðustu mánuðum hafi hann hafnað nokkrum tilboðum í Fowler: "Chelsea hefur látið í ljós áhuga og við höfum fengið tvö eða þrjú önnur tilboð en svarið frá mér hefur alltaf verið það sama; hann er ekki að fara neitt. Ég vil ekki að hann yfirgefi félagið. Hann er mikilvægur fyrir liðið og er stór hluti af áætlunum mínum. Ég hef gert stjórninni það morgunljóst að ég mun ekki einu sinni hugleiða þann möguleika að selja hann. Ég vona bara að núna láti allir Robbie í friði. Hann hefur verið mjög lengi frá og það er ekki hægt að breyta honum á einni nóttu. Það tekur hann tíma, kannski hálft ár, að ná sínu besta og ég hef skorað á hann að leggja mjög hart að sér til að gera það. En hann hefur alltaf fullan stuðning frá mér. Ég stend með honum alla leið."

TIL BAKA