Michael Owen

Owen fagnar glæsilegu marki gegn Blackburn

Michael lék fyrst með aðalliðinu gegn Wimbledon á útivelli 6. maí 1997 í næstsíðasta leik tímabilsins. Hann kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik og skoraði nokkrum mínútum síðar en Liverpool tapaði leiknum engu að síður 1-2. Owen var í sjöunda himni þrátt fyrir tapið: "Það var þó gaman þegar ég skoraði markið gegn Wimbledon og það var sýnt í sjónvarpinu. Við vorum ennþá á leiðinni heim eftir leikinn og ég hringdi í bróður minn sem tók það upp úr sjónvarpinu. Ég hef horft á upptökuna nokkrum sinnum en það kom mér á óvart hversu mikið var gert úr því. Þetta var dagurinn sem við klúðruðum meistaratitlinum." Fowler átti við meiðsli að stríða en var ánægður með væntanlegan samherja sinn í framlínunni: "Michael á glæsta framtíð fyrir sér og ég vona að hann verji henni við hliðina á mér í framlínu Liverpool." Owen hlakkaði til næsta tímabils: "Ég hef skorað um 40-45 mörk í 30-35 leikjum á þessu tímabili og vona að leika reglulega með aðalliðinu í nánustu framtíð."
Owen skoraði í fyrsta leiknum tímabilið 1997-1998 gegn Wimbledon úr vítaspyrnu. Hann var alls óhræddur við að taka sér hlutverk vítaskyttunnar í forföllum Fowler og skoraði örugglega á 71. mínútu. Tveim vikum síðar skoraði hann eftirminnilegt mark gegn Blackburn þegar hann vann boltann á eigin vallarhelmingi, stakk af Stephane Henchoz og skoraði örugglega.

1. október skrifaði Owen undir nýjan fimm ára samning sem var um 2.5 milljóna punda virði. Vikulaun Owen voru þar með orðin um 10.000 pund á viku.

Owen setti heldur betur svip sinn á ensku knattspyrnuna í byrjun tímabils og lék eins og þrautreyndur atvinnumaður: "Ég hef alltaf verið fullur sjálfstrausts. Það kemur fólki á óvart að ég skyldi vera valinn í aðalliðið aðeins 17 ára að aldri en ég hef ætíð verið fullviss um að ég myndi standa mig. En þetta er einungis byrjunin. Ég hef ekki unnið til neinna verðlauna ennþá. Ég er bara ánægður með að vera atvinnumaður í ensku úrvalsdeildinni. Síðan ég var smápatti hefur mig alltaf langað til að verða atvinnumaður. Ég gæti ekki ímyndað mér að gera eitthvað annað. Nú verð ég bara að gera mitt ítrasta til að halda sæti mínu í liðinu. Augljóslega hafa meiðsli Robbie gert mér kleift að sanna mig í aðalliðinu. En ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég kem með til að þurfa að dúsa talsvert á bekknum á þessu tímabili en ég verð að sætta mig við það og reyna að leika eins vel og mögulegt er þegar ég fæ tækifæri til svo að Evans komist ekki hjá því að velja mig í aðalliðið. Í byrjun árs var ég að leika með varaliðinu, síðan fékk ég tækifæri með aðalliðinu seint á síðasta tímabili og stóð mig nokkuð vel. Ég er ánægður með framgang minn á þessu tímabili. Ég hef skorað nokkur mörk og mér finnst sem ég hafi bætt mig sem leikmaður. Helsti mismunurinn á að leika í úrvalsdeild og með unglingaliðinu er að í leik með unglingaliðinu kemst maður upp með að gera mistök en með aðalliðinu er alltaf einhver á varðbergi. Það hefur líka verið í umræðunni að ég verði valinn í HM-landsliðshópinn sem myndi vera stórkostlegt en ég læt þetta allt saman ekki stíga mér til höfuðs."

16. september lék Owen sinn fyrsta Evrópuleik gegn Celtic fyrir framan stærsta áhorfendaskara sem hann nokkru sinni leikið fyrir og eftir sex mínútur var hann búinn að skora fyrsta mark leiksins. "Hann afgreiddi boltann mjög örugglega. Það þarf ekki einungis góða tækni, heldur líka sterkar taugar til að gera þetta í þessari stöðu ", sagði Gary Lineker. Owen var að eignast fleiri og fleiri aðdáendur. Roy Hodgson þáverandi framkvæmdastjóri Blackburn hafði séð hann fara illa með sitt lið í upphafi tímabils og skora glæsilegt mark: "Michael er góður leikmaður sem á eftir að verða betri með aldrinum. Fólk segir að hann sé of ungur til að leika með aðalliðinu en ég er ekki sammála því. Ef hann er nógu góður til að leika í úrvalsdeildinni 17 ára gamall eins og raun ber vitni, til hvers að bíða þar til hann er orðinn tvítugur?"

22. september gegn Villa var Fowler loks kominn við hlið Owen í framlínunni. Þeir léku saman í tvo leiki en þá var Owen látinn hvíla í fyrsta skipti á tímabilinu. Hann missti af glæsilegum sigri á Chelsea 5-1 þar sem Berger skoraði þrennu og deildarbikarleik gegn WBA en kom inná í nágrannaslagnum gegn Everton en allt kom fyrir ekki og Liverpool tapaði 2-0. Owen var inni og úti úr liðinu en þegar Fowler var kominn í þriggja leikja bann 18. nóvember var á herðum Owen að skora mörkin. Þetta var fyrsti leikur hans í Coca Cola-bikarnum og andstæðingurinn var lið Grimsby. Þegar Fowler lék sinn fyrsta Coca Cola-bikarleik skoraði hann fimm mörk en Owen lét sér nægja þrjú. Fyrsta þrenna Owen komin á blað og markið sem kórónaði þrennuna var heldur betur glæsilegt. McManaman lagði boltann út á Owen sem var rétt fyrir utan vítateig og hann gerði sér lítið fyrir og setti boltann efst uppi í fjærhornið. Owen var skýjum ofar eftir leik: "Þetta er hápunkturinn á ferli mínum enn sem komið er. Að skora fyrstu þrennuna mína fyrir aðalliðið beint fyrir framan The Kop var frábært."

TIL BAKA