Michael Owen

Fjölmiðlar voru þegar farnir að velta fyrir sér möguleikum stráksins á sæti í landsliðshópi Englendinga í Heimsmeistarakeppninni í Frakklandi um sumarið. Owen hafði æft með landsliðinu og sagðist gera sér grein fyrir því að "Hoddle býður manni ekki á æfingar með landsliðinu að ástæðulausu og ég er fullviss um það að ég gæti staðið mig mjög vel með landsliðinu í Frakklandi." Talsverð spenna var fólgin í því hvort hann myndi slá aldursmet Duncan Edwards en hann hafði til 17. júní að slá metið. 11. febrúar varð Michael Owen yngsti leikmaður til að leika með enska A landsliðinu á tuttugustu öldinni er hann lék í 0-2 tapleik gegn Chile á Wembley 11. febrúar 1998, 18 ára og 59 daga. Hann sló þar með met Duncan Edwards frá 1955 sem var 18 ára og 183 daga gamall. Aðeins þrem dögum eftir þennan sögulega viðburð munaði honum ekki um að setja sína fyrstu þrennu í úrvalsdeildinni í leik gegn Sheffield Wednesday. Owen varð jafnframt yngsti leikmaðurinn til að skora fyrir landsliðið er hann skoraði sigurmarkið gegn Marokkó 27. maí þá 18 ára og 164 daga gamall.

Markamaskínan Alan Shearer var orðinn enn einn aðdáandi Michael Owen: "Ef maður vissi ekki að strákurinn væri 18 ára gamall þá myndi mann aldrei gruna að hann væri svo ungur miðað hvernig hann ber sig á velli. Ég held að það sé mikilvægt að setja ekki of mikla pressu á hann. En það er ótrúlegt hvað hann tekur öllu með miklu jafnaðargeði. Ég lék minn fyrsta leik með aðalliðinu 17 ára gamall eins og Michael. Ég byrjaði þó ekki að skora reglulega eins og hann. Ég þurfti 2-3 ár til að ná því stigi."

Owen lætur Ronny Johnsen fá það óþvegið..

En lífið var ekki bara dans á rósum fyrir strákinn. 10 apríl öttu Man Utd og Liverpool kappi á Old Trafford. Owen skoraði reyndar jöfnunarmark Liverpool en var síðan rekinn útaf fyrir heldur glórulausa tæklingu á Ronny Johnsen. Danny Murphy sem lék við hlið Owen í leiknum var ekki skemmt eftir leik og sagði að menn myndu ekki trúa þeim fúkyrðum sem varnarmenn Man Utd hreyttu í Michael í leiknum. En strákurinn lét glepjast og missti stjórn á sér og fyrsta rauða spjaldið á ferlinum staðreynd. Owen missti úr einn leik er hann var í banni en lét þetta ekki á sig fá og skoraði 3 mörk í síðustu 5 leikjunum á tímabilinu þar á meðal eitt mark í 5-0 sigri á West Ham.

Owen valinn efnilegasti leikmaðurinn

Faðir Jamie og framkvæmdastjóri West Ham, Harry Redknapp var gáttaður: "Það var vonlaust að leika gegn Owen í þessum ham, pilturinn var í allt öðrum klassa." Owen brenndi af vítaspyrnu í næstsíðasta leiknum gegn Arsenal sem vannst 4-0 og það kom í veg fyrir að hann sæti einn að markakóngstitlinum í úrvalsdeildinni. Hann deildi heiðrinum með Chris Sutton og Dion Dublin, allir með 18 mörk. Owen sló þar með enn eitt aldursmetið er hann varð yngsti markakóngur efstu deildarinnar á Englandi og hirti nafnbótina af Jimmy Greaves sem skoraði 33 mörk árið 1959. Það kom engum á óvart að Owen var valinn efnilegasti leikmaður úrvalsdeildarinnar af samtökum knattspyrnumanna. Kevin Davies (Southampton) lenti í öðru sæti og Rio Ferdinand (West Ham) í því þriðja. Owen var síðan í þriðja sæti í vali knattspyrnumanna á leikmanni ársins, Dennis Bergkamp bar sigur úr býtum og Andy Cole varð annar.

Terry Owen var undrandi á skjótum frama sonarins: "Ég hafði hugsað mér að hann tæki þátt í u.þ.b. 12 leikjum á þessu tímabili og myndi svo reyna festa sig í sessi í liðinu á næsta tímabili. Það hefur því komið mér á óvart hversu langt hann hefur þegar náð á svo skömmum tíma."

Karl-Heinz Riedle gaf fyrirheit um það sem var í vændum um sumarið: "Ég vissi ekkert um hann áður en ég kom til Liverpool en þess er vart langt að bíða að mun fleiri munu vita hver hann er."

TIL BAKA