| Sf. Gutt

Staða Luis Suarez

Þetta er núna um það bil staðan hjá Luis Suarez. Það er fyrir utan þá staðreynd að hann er búinn að brenna flestar brýr að baki sér.
 
Luis er núna heima í Úrúgvæ en þangað fór hann fyrir leik landsliðs síns á móti Kólumbíu í 16 liða úrslitum HM. Úrúgvæ tapaði 2:0 og það er spurning hvernig Luis leið á meðan hann horfði á leikinn! Luis var annars tekið með kostum og kynjum í heimalandi sínu og landar hans hafa hver í kapp við annan lýst stuðningi sínum við hann. Þar í landi er talað um ofsóknir og ósanngirni í sambandi við leikbannið. Knattspyrnusamband Úrúgvæ hefur áfrýjað dómi FIFA en ólíklegt er talið að bannið verði stytt.   

Úr herbúðum Liverpool Footbal Club hefur ekkert heyrst annað en yfirlýsingin sem kom strax í kjölfar dóms FIFA. Þar sagði að félagið myndi taka sér tíma í að íhuga stöðu mála í kjölfar dómsins. Það er því ekkert vitað um afstöðu eigenda og annarra forráðamanna Liverpool F.C. til Luis Suarez og háttalags hans. Verður hann til sölu eða mun enn einu sinni verða staðið við bakið á honum?

Kenny Dalglish hefur líklega einn manna úr herbúðum Liverpool tjáð sig um málið en hann situr í stjórn félagsins. Kenny tjáði sig um málið í pistli sem hann skrifar í Daily Mirror og orð hans komu því ekki frá honum sem fulltrúa Liverpool. Hann telur að Liverpool eigi að standa við bakið á Luis en ítrekar að hann þurfi á hjálp að halda.   

Ýmsir hafa tjáð sig um málið og sýnist sitt hverjum. Ítalinn Giorgio Chiellini, sem varð fyrir atlögu Luis, segir það sína skoðun að bannið sé of langt. Hann sagist ekki bera neinn kala til Luis.

Alþjóðlegt samband knattspyrnuleikmanna, FifPro, telur bannið of langt og það brjóti á rétti leikmanns til að stunda vinnu sína. Í yfirlýsingu segir að það sé alvarlegt hversu bannið komi niður á Liverpool.

Goðsögnin Diego Maradona mætti í sjónvarpsþátt klæddur bol með stuðningsáletrun til handa Luis. Hann sagði bannið út í hött og sagði margt verra hafa gerst núna á HM. Hann líkti refsingu Luis við að vera sendur í fangabúðirnar í Guantanamo Bay og sagði engan hafa látist. Diego hefur nú reyndar aldrei verið vinur FIFA!

Sem fyrr segir er ekkert vitað um opinbera afstöðu Liverpool F.C. Sumir fjölmiðlar hafa síðustu daga birt fréttir þess efnis að forráðamenn Liverpool hafi fengið nóg og muni selja Luis seinna í sumar. Brendan Rodgers og ráðgjafar hans séu nú einfaldlega að skoða stöðu mála og sigta út sóknarmenn í hans stað. Talið er að Barcelona hafi áhuga á Luis og Katalónía sé líklegasti áfangastaður hans verði af vistaskiptum.    

Svona mætti lengi telja en í heildina má segja að flestir talsmenn knattspyrnuyfirvalda og sparkspekingar telji bannið rétt en margir leggja áherslu á að Luis þurfi á andlegri hjálp að halda og knattspyrnusamfélagið eigi að veita þá hjálp á einhvern hátt. Flestum leikmönnum sem hafa tjáð sig finnst bannið full strangt. Sem sagt sitt sýnist hverjum!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan