| Sf. Gutt

Kenny Dalglish vill halda Luis!

Kenny Dalglish er fyrsti maður úr herbúðum Liverpool til að tjá sig um stöðu Luis Suarez eftir nýjustu bitatlögu hans. Hann vill að Luis verði áfram hjá Liverpool. Kenny tjáir sig reyndar ekki í nafni Liverpool F.C. heldur fjallar hann um Luis í pistli sínum á vefsíðu Daily Mirror. Kenny situr í stjórn Liverpool F.C.

,,Það er mín skoðun að leikmaður verði á þinni ábyrgð eftir að hann kemur til félags. Maður snýr ekki baki við leikmanni þó svo að hann geri eitthvað rangt. Ég held að Liverpool muni ekki snúa baki við Suarez þrátt fyrir bann FIFA. En það er auðvitað mikið áfall ef félagið getur ekki notið krafta hans fyrstu mánuði leiktíðarinnar."

Luis Suarez hefur verið settur í fjögurra mánaða bann frá allri knattspyrnu. Kenny Dalglish segir að það sé furðulegt að Luis Suarez geti ekki spilað með Liverpool þó svo að hann hafi brotið af sér í landsleik.

,,Hann mátti spila með landsliðinu sínu þegar hann fékk refsingu frá F.A. eftir bitatlöguna að Branislav Ivanovic en refsingin kvað á um að hann mætti ekki spila heimafyrir. Það vekur því furðu að þegar hann er settur í bann eftir eitthvað sem hann gerði með landsliðinu að félagsliðið hans þurfi að líða fyrir það."
 
Þarna kemur fram persónuleg skoðun Kenny Dalglish sem var framkvæmdastjóri Liverpool þegar Luis var keyptur. Nú er að sjá hvaða afstöðu aðrir forráðamenn Liverpool taka.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan