| Heimir Eyvindarson

Daniel nálgast sitt besta form

Brendan Rodgers segir að Daniel Sturridge sé óðum að komast í almennilegt leikform, eftir meiðslin sem héldu honum utan vallar í heila fimm mánuði. 

Í lok janúar kom Sturridge við sögu í Liverpool leik í fyrsta sinn í fimm mánuði, eftir meiðsli sem hann varð fyrir í æfingahrinu með enska landsliðinu - og síðan á æfingu hjá Liverpool. Sturridge kom þá inn á í leik gegn West Ham og skoraði laglegt mark. Síðan þá hefur hann spilað talsvert, m.a. samtals 195 mínútur gegn Besiktas í Evrópudeildinni, en hefur þó ekki enn spilað heilan leik í Úrvalsdeild. 

„Daniel er ekki enn kominn á fullt skrið. Það tekur tíma að komast í almennilegt leikform eftir svo langa fjarveru. Það þarf að fara varlega af stað, sérstaklega þar sem allir okkar leikir þessa dagana eru svo að segja upp á líf og dauða. Þetta eru ekki æfingaleikir sem hann getur spilað á hálfu tempói", segir Brendan Rodgers í samtali við Liverpool Echo.

„Hann er alveg við það að vera kominn í það form að við getum látið hann spila hvern einasta leik og æfa af fullum krafti. Við höfum reynt að fara varlega af stað með hann, en það síðasta sem við viljum er að hann meiðist strax aftur. Meðan hann hefur ekki náð fullum styrk eru líkurnar á því meiri en ella."

„Þetta er allt að koma hjá honum. Hann var í fínu formi á sunnudaginn og var tilbúinn til að byrja leikinn, þrátt fyrir að hafa leikið 105 mínútur á fimmtudaginn. Við ákváðum samt að byrja með hann á bekknum. Ég reikna með að frá og með helginni muni hann byrja flesta leiki. Að því gefnu að hann standi sig vel, sem ég er alveg viss um að hann mun gera. Þegar Daniel er kominn í toppform þá verður mjög gaman að sjá hann spila í því leikkerfi sem við spilum í dag. Hann á eftir að blómstra, það er ég viss um."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan