| Heimir Eyvindarson

Margir koma til greina

Jordan Henderson varafyrirliði Liverpool segir ekki sjálfgefið að hann verði fyrirliði liðsins þegar Steven Gerrard hverfur á braut. Hann segir að margir aðrir komi til greina.

Í viðtali við Liverpool FC Magazine segir Henderson að hann hafi lært gríðarlega mikið af Steven Gerrard og það hafi verið forréttindi að spila með honum.

,,Stevie er fullkominn fyrirliði. Hann er mikill leiðtogi bæði innan og utan vallar. Við lítum allir upp til hans, en hann setur samt sem áður alltaf liðið í fyrsta sæti. Hann er mjög óeigingjarn."

,,Þegar ég varð varafyrirliði reyndi ég auðvitað að læra sem mest af honum. Það mikilvægasta sem hann kenndi mér var líklega að horfa alltaf fram á veginn og láta vonbrigði ekki hafa of mikil áhrif á mér. Dvelja ekki um of við það sem miður fer."

Henderson þykir hafa staðið sig vel í fyrirliðahlutverkinu í fjarveru Gerrard. Hann hefur verið heppinn með gengi liðsins að undanförnu, en í þeim 13 leikjum sem hann hefur borið fyrirliðabandið hefur liðið aldrei tapað. Hann segir þó ekki sjálfgefið að hann beri fyrirliðabandið á næstu leiktíð.

,,Við sjáum hvað setur, það eru margir sem koma til greina. Það er fullt af leiðtogum í liðinu og margir mjög sterkir karakterar. En allir eiga þeir það sameiginlegt að vera auðmjúkir og niðri á jörðinni."

,,Mama (Mamadou Sakho), Emre (Can) og Skerts (Martin Skrtel) eru miklir leiðtogar og gefa alltaf allt sem þeir eiga í hvern einasta leik. Studge (Daniel Sturridge) og Lucas eru líka mjög sterkir karakterar. Ég geri mitt besta meðan ég ber bandið, en það hefur engin ákvörðun verið tekin um það hver tekur við af Stevie."

Henderson hefur átt gott tímabil með Liverpool og mikilvægi hans er alltaf að koma betur og betur í ljós. Hann er stoðsendingakóngur liðsins á leiktíðinni, með 11 stoðsendingar, og hefur auk þess skorað fimm mörk.

,,Með því að spila mismunandi stöður víkkar maður sjóndeildarhringinn, ef svo má segja. Maður skilur betur ólíkar stöður á vellinum. Ef maður spilar úti á kanti og er svo færður inn á miðja miðjuna þá skilur maður betur hvernig leikmennirnir úti á kantinum skynja spilið. Það hjálpar manni að gefa réttu sendingarnar. Það gefur manni líka ákveðið vægi þegar maður segir leikmönnum í öðrum stöðum til. Þeir vita að maður veit hvað maður er að tala um."     


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan