| Sf. Gutt

Jordan vill bæta fyrir 2012!

Jordan Henderson er staðráðinn í að bæta fyrir vonbrigðin vorið 2012 þegar Liverpool tapaði 2:1 fyrir Chelsea í úrslitaleiknum um F.A. bikarinn. Sama tímabil vann Liverpool Deilarbikarinn en tapið fyrir Chelsea svíður enn. Liverpool mætir Aston Villa í undanúrslitum F.A bikarsins á sunnudaginn og varafyrirliðinn ætlar sér að komast í úrslitaleikinn. 

,,Ég hugsa alltaf meira um tapið i úrslitum F.A. bikarsins en þegar við unnum Deildarbikarinn 2012. Tapið var áfall og slíkt hvetur mann alltaf meira til að vinna frekari sigra. Manni hættir frekar til að muna eftir leikjunum sem tapast. Tapið fyrir Chelsea kemur alltaf upp í huga minn og það væri frábært að geta bætt fyrir það. Við verðum að einbeita okkur að undanúrslitaleiknum. Ef við höldum áfram að gera það sem við höfum verið að gera er ég viss um að við náum góðum úrslitum."

Komist Liverpool í úrslitaleikinn þá fer hann fram á 35 ára afmæli Steven Gerrard. Stuðningsmenn Liverpool vonast auðvitað eftir því að ævintýrið gerist og Liverpool vinni kveðjuleikinn og F.A. bikarinn.

,,Það yrði auðvitað fullkomið fyrir hann. En það er ekki nóg að dreyma um það. Við leikmennirnir verðum að fara út á völlinn og klára verkefnið. Það er okkur mikil hvatning að vinna."

,,Ekki bara fyrir okkur sjálfa og félagið því auðvitað er alltaf stefnt að því að vinna titla hérna en núna bætist við að enda vel fyrir Stevie því hann hefur gert svo mikið fyrir félagið. Það yrði alveg magnað að vinna bikarinn á síðasta árinu hans."

Spennan er að magnast upp í Liverpool fyrir leikinn á Wembley og auðvitað hugsa allir til þess að bikarinn vinnist í síðasta leiknum hans Steven Gerrard!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan