| Sf. Gutt

Jordan gerir nýjan samning!


Tilkynnt var í dag að Jordan Henderson hefði gert nýjan samning við Liverpool. Fínasta sumargjöf og nú þarf ekki lengur að velta þvi fyrir sér hvað Jordan ætli sér að gera. Ekki kemur fram í tilkynningu Liverpool hversu langur samningurinn er en á vefsíðu BBC er fullyrt að samningurinn sé til fimm ára. Jordan var hinn ánægðasti þegar tilkynnt var um samninginn.


,,Ég er í skýjunum að búið er að ganga frá þessu öllu. Þetta er búið að vera í umræðunni um nokkurt skeið. Það eru frábærar fréttir fyrir mig að hafa gengið frá því að ég verð áfram hérna hjá þessu knattspyrnufélagi. Ég hef fulla trú á því að framtíðin hérna sé björt með þennan liðshóp, framkvæmdastjórann, stærð félagsins og stuðningsmennina okkar. Ég trúi því staðfastlega að við munum á næstu árum keppa um og fara að vinna titla. Það er næsta skrefið fyrir okkur því við höfum tekið stórstigum framförum síðustu árin. Ég tel að næsta skref sé að fara að berjast um titla og bikara."


Jordan Henderson kom til Liverpool sumarið 2011 frá Sunderland. Kenny Dalglish notaði hann mikið á fyrstu leiktíð hans og hann varð Deildarbikarmeistari 2012. Jordan heillaði þó ekki stuðningsmenn Liverpool almennilega fyrr en á síðustu leiktíð en þá var hann frábær. Hann hefur líka verið magnaður á yfirstandandi leiktíð og í haust gerði Brendan Rodgers hann að varafyrirliða. Jordan er búinn að spila 180 leiki og skora 20 mörk fyrir Liverpool.

Hér eru myndir frá ferli Jordan Henderson af Liverpoolfc.com.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan