| Heimir Eyvindarson

Henderson verður fyrirliði

Staðarblöðin í Liverpool segja frá því í dag að Jordan Henderson verði formlega gerður að fyrirliða Liverpool á morgun.

Það má segja að þessar fréttir hafi lengi legið í loftinu, en Henderson hefur verið varafyrirliði liðsins frá því í september 2014, en hann tók við þeirri stöðu af Daniel Agger. Hann tekur við bandinu af Steven Gerrard, eins og allir vita, og fetar þar með í fótspor ýmissa stórmenna í sögu Liverpool.

Henderson var keyptur til Liverpool sumarið 2011 og óhætt er að segja að fáir leikmenn hafi vaxið jafn mikið í áliti hjá stuðningsmönnum félagsins undanfarin ár, en hann átti vægast sagt erfitt uppdráttar fyrstu mánuðina hjá Liverpool.

James Pearce og fleiri vel tengdir blaðamenn fullyrða að Liverpool muni opinberlega kynna Henderson til leiks sem fyrirliða á morgun, en telja jafnframt að Rodgers muni gefa sér góðan tíma til þess að velja nýjan varafyrirliða. Rétt eins og hann gerði þegar Agger hvarf á braut, en þá liðu 2 vikur áður en nýr varafyrirliði var útnefndur.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan