| Sf. Gutt

Jordan Henderson skipaður fyrirliði!


Í dag var staðfest að Jordan Henderson verði næsti fyrirliði Liverpool. Þetta hefur lengi legið í loftinu en nú er búið að staðfesta að Jordan verður með fyrirliðabandið í komandi framtíð. Steven Gerrard var auðvitað fyrirliði Liverpool á nýliðinni leiktíð en um nokkurt árabil hefur Liverpool haft sérstakan varafyrirliða. Eftir að Jamie Carragher hætti var Daniel Agger skipaður varafyrirliði. Hann yfirgaf Liverpool rétt áður en síðasta leiktíð hófst og í kjölfarið var Jordan Henderson útnefndur eftirmaður hans. Hann bar fyrirliðabandið í þeim leikjum sem Steven gat ekki tekið þátt í og þótti skila hlutverki sínu vel. Það kemur því ekki á óvart að Jordan skuli hafa verið útnefndur fyrirliði.

Brendan Rodgers treystir Jordan fullkomlega til að skila hlutverki sínu vel. ,,Jordan lætur verkin tala. Hann leggur allt sitt í íþróttina og er öllum fyrirmynd. Hann ber mikla virðingu fyrir þeim miklu hefðum sem fylgja því að vera fyrirliði Liverpool og eins þeirri ábyrgð sem þarf að sýna. Hann hefur verið geysilega lánsamur að hafa getað lært af Steven Gerrard sem er einn sá besti sem félagið hefur átt. Jordan hefur vaxið sem persóna og leikmaður frá því hann kom til Liverpool og er tilbúinn að takast á við þessa áskorun. Hann á eftir að vera hann sjálfur í hlutverkinu og leiða liðið á sinn eigin hátt með sínum hugmyndum og aðferðum."  


Jordan tekur við fyrirliðabandinu af Steven Gerrard sem var fyrirliði Liverpool frá því haustið 2003 til loka ferils síns hjá félaginu. Enginn hefur verið lengur fyrirliði Liverpool í sögu félagsins. Jordan er því ekki að fylgja í nein venjuleg fótspor!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan