| Sf. Gutt

Því ekki að prófa þetta?


Markið sem Philippe Coutinho skoraði á móti Manchester United á Old Trafford þótti sérlega glæsilegt. Hann komst þá einn á móti David De Gea, markmanni United, í þröngri aðstöðu og sneyddi boltann meistaralega framhjá spænska markmanninum. Markið var þó engin tilviljun því Philippe hefur æft svona skot í svipuðum aðstæðum.

,,Ég komst einn á móti De Gea og þar sem ég hef prófað svipað skot áður hugsaði ég með mér því ekki að prófa þetta? Sem betur fer tókst þetta. Það má segja að þetta hafi verið eitt fallegasta mark sem ég hef skorað fyrir Liverpool en liðið gengur fyrir öllu. Liðið lék mjög vel í kvöld. Það sköpuðust nokkur góð færi og við sýndum hversu sterkir við getum verið."


Liverpool er nú komið í átta liða úrslit í Evrópudeildinni og liðið hefur ekki tapað einum einasta af þeim tíu Evrópuleikjum sem liðið hefur spilað á leiktíðinni. 

,,Liðsandinn er mjög góður enda höfum við ekki tapað í síðustu tíu leikjum og þessi góða framganga gegn Manchester United, eftir fínan leik á heimavelli gegn þeim í síðustu viku, eflir okkur. Sjálfstraustið er að aukast og það gerir okkur mögulegt að vinna góð afrek fyrir félagið."
   
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan