| Grétar Magnússon

Origi klár í slaginn

Divock Origi meiddist í leik gegn Everton og allt leit út fyrir að sóknarmaðurinn ungi myndi ekki spila meira á leiktíðinni.  Fréttir berast nú að Origi sé heill heilsu og verður líklega á bekknum gegn Sevilla á miðvikudaginn.

Origi æfði á mánudaginn, annan dag Hvítasunnu ásamt öðrum leikmönnum sem ekki spiluðu gegn WBA á sunnudaginn og er hann því orðinn heill heilsu.  Fjórar vikur eru síðan Origi meiddist eftir ljóta tæklingu Funes Mori, varnarmanns Everton, sem fékk rautt spjald fyrir brotið.

Það má því leiða líkur að því að Origi og Jordan Henderson verði á varamannabekknum í úrslitaleiknum gegn Sevilla, báðir eru þó það nýlega stignir uppúr meiðslum sínum að byrjunarliðssæti er ekki í myndinni.

Að lokum má svo segja frá því að Danny Ward ferðaðist einnig með liðinu til Basel en hann er búinn að ná sér af smávægilegum hnémeiðslum.

Fastlega er búist við því að Jurgen Klopp stilli upp sama byrjunarliði og hann notaði gegn Chelsea í deildinni í síðasta heimaleiknum.  Sama lið byrjaði einnig leikinn gegn Villarreal á Anfield í seinni undanúrslitaleik liðanna í Evrópudeildinni.  Það þýðir að Daniel Sturridge mun leiða sóknarlínuna og þar fyrir aftan verða þeir Adam Lallana, Philippe Coutinho og Roberto Firmino.

Allt þetta kemur í ljós á morgun, miðvikudag og spennan magnast !
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan