| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Liverpool v Sevilla


Það er komið að lokaleiknum á keppnistímabilinu 2015/16. Sem betur fer er það ekki deildarleikur. Það þýðir að leikurinn er úrslitaleikur í stórkeppni. Annað kvöld mætir Liverpool Sevilla í úrslitaleiknum í Evrópudeildinni. Um leið fær Liverpool tækifæri til að vinna Evróputitil og það í 12. sinn í sögu félagsins. Þó svo að bikarinn sjálfur skipti mestu máli þá fær sigurliðið líka, í fyrsta sinn í sögu keppninnar, aðgang að Meistaradeildinni í kaupbæti. Það skiptir auðvitað gríðarlegu máli en mikilvægast er að bæta við afrekaskrá félagsins. 


  
Jürgen Klopp er kominn með liðið sitt til Basel í Sviss til að spila á velli þar sem Liverpool hefur aldrei unnið á móti liði sem aldrei hefur tapað úrslitaleik í þessari keppni heldur unnið fjórum sinnum sem er met. Liverpool hefur tapað tveimur síðustu úrslitaleikjum sínum og nú síðast á Wembley fyrir Manchester City í febrúar í Deildarbikarnum. Liverpool hefur ekki unnið titil frá því Deildarbikarinn vannst 2012 í vítaspyrnukeppni á móti Cardiff City sem þá var í næst efstu deild. Liverpool fer aldrei auðveldar leiðir í úrslitaleikjum og taugar stuðningsmenna Rauða herins eru jafnan þandar til síðasta flauts. Við bætist að þýska framkvæmdastjóranum hefur gengið illa í síðustu úrslitaleikjum sínum. Það má því leiða líkum að því að leikurinn annað kvöld verði erfiður þegar allt þetta hér að framan er tekið með í reikninginn. 


Á hinn bóginn hefur Liverpool komist yfir allar hindranir sem á vegi hafa orðið á leiðinni til Basel. Riðlakeppnin var róleg en Jürgen kláraði verkið sem Brendan Rodgers hóf og kom Liverpool í útslátt. Augsburg var slegið út með minnsta mun en svo fór að færast líf í tuskurnar. Manchester United átti ekki möguleika og auðvitað beið Borussia Dortmund í næstu umferð. Enginn mun gleyma lokunum á Anfield Road í seinni leiknum. Villarreal náði ekki að stöðva Liverpool í undanúrslitunum. Liverpool var sannfærandi eftir að komið var í útslátt og ljóst var að Þjóðverjinn og ráðgjafar hans ætluðu að leggja allt í sölurnar í þessari keppni. 


Sevilla er komið í úrslit þriðja árið í röð og það verðskuldað. Ljóst er að Liverpool þarf á öllu sínu að halda ef á að takast að enda sigurgöngu spænska liðsins í keppninni. Liverpool þarf að spila sinn besta leik. Kannski sinn besta leik í allri keppninni. Byrjunarliðið var trúlega prufukeyrt á móti Chelsea í síðasta deildarleiknum á Anfield. Helsti vandi Jürgen verður að velja varamenn því Jordan Henderson og Divock Origi eru nú tiltækir. 

Það er ekki hægt að reikna með neinu öruggu þegar Liverpool og úrslitaleikir eru annars vegar. Dortmund 2001, Istanbúl 2005, Cardiff 2006 og Wembley 2012 muna allir. Mikið er talað um Meistaradeildarsætið sem fæst með sigri annað kvöld. Í mínum hugsa skiptir það engu máli bara ef Liverpool tekst að vinna bikar á nýjan leik. Liðið á að geta spilað nógu vel. Jürgen hlýtur að fara að hafa heppnina með sér í úrslitaleik. Sigur annað kvöld gæti rutt brautina fyrir velgengni á næstu árum og jafnvel skipt sköpum fyrir nánustu framtíð félagsins okkar.

 

Ég vona og trúi að komið sé að því að Liverpool vinni úrslitaleik í venjulegum leiktíma. Það þarf auðvitað að hafa fyrir sigrinum en hann verður sannfærandi þegar upp verður staðið. Daniel Sturridge og James Milner munu tryggja Liverpool 2:0 sigur sem færir félaginu okkar Evróputitil á nýjan leik!

YNWA!


 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan