| Sf. Gutt

Niðurtalning - 4. kapítuli


Góðan dag og velkomin á fætur. Nú er komið að leikdegi í Dortmund og nú má ekkert fara úrskeiðis. Ætli væri ekki rétt að rifja upp úrslitaleiki Liverpool í Evrópukeppni félagsliða meðan beðið er eftir leiknum.

+ 1973. Liverpool : Borussia Mönchengladbach. 3:0. Á þessum árum var leikið til úrslita í tveimur leikjum heima og að heiman. Fyrri leikurinn fór fram á Anfield Road. Rétt fyrir leik fór að rigna. Veðurhamurinn og úrkoman jukust jafnt og þétt og eftir tíðindalítinn hálftíma leik var Anfield eins og sundlaug yfir að líta og dómarinn flautaði af. Vatnið sjatnaði og aftur mættu liðin til leiks kvöldið eftir. En á þeim sólarhring sem leið milli leikja hugsaði Bill Shankly ráð sitt. Á þeim hálftíma sem spilaður var áður en leik var hætt hafði hann séð veikleika hjá Þjóðverjunum. Varnarmenn þeirra voru ekki mjög háir í loftinu og Bill ákvað að breyta byrjunarliðinu. Hann tók Brian Hall út og setti hinn hávaxna John Toshack inn. Þetta reyndist snilldarbragð. Þjóðverjarnir réðu ekkert við John. Hann vann að kalla hvert einasta skallaeinvígi og lagði upp tvö mörk í fyrri hálfleik. Kevin Keegan skoraði með skalla á 31. mínútu og tveimur mínútum síðar skoraði hann með viðstöðulausu skoti úr teignum. Á milli þessara tveggja marka varði markvörður Þjóðverja vítaspyrnu frá Kevin þannig að það var mikið um að vera. Á 62. mínútu komst Liverpool í 3:0. Kevin Keegan tók hornspyrnu og miðvörðurinn stóri Larry Lloyd skallaði í mark. Litlu síðar fékk Borussia vítaspyrnu. Jupp Heynckers tók spyrnuna en Ray Clemence varði meistaralega með því að slá boltann framhjá. Þessi markvarsla var frábær og átti eftir að reynast dýrmæt. Liverpool hafði því góða stöðu fyrir seinni leikinn.


Borussia Mönchengladbach : Liverpool. 2:0. Þjóðverjanir undir stjórn miðvallarleikmannsins frábæra Günter Netzer mættu dýrvitlausir til leiks og sóttu látlaust í fyrri hálfleiknum. Leikmenn Liverpool áttu í vök að verjast og þegar flautað var til hálfleiks var þýska liðið komið í 2:0. Jupp Heynckes skoraði bæði mörkin fyrst eftir hálftíma leik og aftur tíu mínútum seinna. Mikil orka hafði farið í leik Borussia í fyrri hálfleiknum og eftir því sem leið á hálfleikinn dró af leikmönnum liðsins. Ray Clemence varði það sem á markið kom og vörnin undir stjórn fyrirliðans Tommy Smith hafði náð að stilla saman strengi sína. Þegar upp var staðið hafði Liverpool unnið 3:2 samanlagðan sigur og fyrsti Evróputitill félagsins var í húsi. Liverpool var líka enskur meistari á þessari leiktíð.

+ 1976. Liverpool : Brugge. 3:2. Ekki byrjaði leikurinn gæfulega fyrir Liverpool. Eftir fimm mínútur skoraði Raoul Lambert fyrir gestina frá Belgíu og sjö mínútum síðar skoraði Julien Cools. Staðan orðin 0:2 og áhorfendur sem fylltu Anfield Road vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Í hálfleik skipti Bob Paisley Jimmy Case inn á. Liverpool sótti að The Kop í síðari hálfleik og sókn liðsins var látlaus. Á 60. mínútu náði Liverpool loks að skora þegar Ray Kennedy hamraði boltann upp í bláhornið utan vítateigs. Tveimur mínútum síðar var enn stórsókn að marki Brugge. Boltinn fór í stöngina. Varamaðurinn Jimmy Case náði frákastinu og skoraði af stuttu færi. Ekki var allt búið. Enn liðu þrjár mínútur og þá fékk Liverpool vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Steve Heighway. Kevin Keegan skoraði úr spyrnunni af öryggi. Áhorfendur á Anfield ætluðu af göflunum að ganga. Þetta eru einar þær ótrúlegustu fimm mínútur sem hafa sést á Anfield Road og nú voru það Belgarnir sem vissu ekki hvaðan veðrið stóð. Ekki var meira skorað og 3:2 forystan var í naumara lagi fyrir seinni leikinn.


Brugge : Liverpool. 1:1.
Belgarnir byrjuðu seinni leikinn skiljanlega af miklum krafti og eftir tólf mínútur fengu þeir vítaspyrnu sem Raoul Lambert skoraði úr. En Liverpool var ekki slegið út af laginu og náði að svara fyrir sig þremur mínútum síðar. Dæmd var óbein aukaspyrna rétt utan vítateigs Brugge. Fyrirliði Liverpool Emlyn Hughes renndi boltanum stutt á Kevin Keegan sem þrumaði boltanum í markið. Þetta var fyrsta markið sem Brugge fékk á sig í Evrópuleik á heimavelli á leiktíðinni. Liverpool hélt sjó það sem eftir lifði leiks og vann samanlagt 4:3 sigur. Liverpool varð líka enskur meistari á þessari leiktíð eins og þremur árum áður.





+ 2001. Liverpool : Alaves. 5:4. Þetta varð einn besti úrslitaleikur í sögu Evrópumótanna. Liverpool virtist ætla að vinna auðveldan sigur í Dortmund því Markus Babbel skoraði með skalla á 4. mínútu og Steven Gerrard bætti við öðru marki eftir gegnumbrot á þeirri 16. Ivan Alonso lagaði stöðuna upp úr miðjum hálfleik en Gary McAllister jók forystuna aftur þegar hann skoraði úr víti þegar fjórar mínútur voru til leikhlés. Fínasta staða en allt fór í vitleysu hjá Liverpool í byrjun síðari hálfleiks. Á 48. mínútu skoraði Javi Moreno og þremur mínútum seinna jafnaði hann 3:3! Leikmenn Liverpool voru slegnir út af laginu en náðu áttum og Robbie Fowler kom Liverpool yfir eftir góðan einleik á 73. mínútu. Markið virtist ætla að duga þar til Jordi Cruyff skoraði með skalla eftir horn þegar mínúta var eftir. Framlengja varð leikinn. Allt stefndi í vítaspyrnukeppni þó svo að tveir leikmenn Alaves væru reknir út af. Á 117. mínútu sendi Gary aukaspyrnu fyrir markið og boltinn hafnaði í markinu eftir að Delfi Geli hafði rekið höfuðið í boltann. Sumir leikmenn bjuggu sig undir síðustu mínúturnar á meðan aðrir fögnuðu sigri! Markið reyndist Gullmark og Liverpool vann Evrópukeppni félagsliða í þriðja sinn. Einn ótrúlegasti úrslitaleikur allra tíma!

+  2016. Liverpool : Sevilla. ________ Liverpool og Sevilla leiða saman hesta sína í fyrsta skipti og það er mikið í húfi. Sigurvegarinn fær ekki bara Evrópubikar félagsliða heldur líka sæti í Meistaradeildinni. Liverpool gæti unnið keppnina í fjórða sinn og jafnað met Sevilla í keppninni. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan