| Sf. Gutt

Annað úrslitatapið á leiktíðinni!


Evrópudrumur Liverpool varð að martröð i Basel. Skelfilegur síðari hálfleikur gegn Sevilla varð þess valdandi að tólfti Evróputitill félagsins verður að bíða betri tíma. Liverpool tapaði 3:1 og fyrir utan að missa af Evróputitli þá er nú ljóst að Liverpool leikur ekki í Evrópukeppni á næsta keppnistímabili. Tvö úrslitatöp á leiktíðinni sitja eftir!

Byrjunarlið Liverpool var eins og við var búist og allt var tilbúið fyrir gott kvöld í Basel. Stuðningsmenn Liverpool, sem höfðu lagt Basel undir sig í gær og dag, voru í miklum meirihluta á áhorfendastæðunum og það var rafmagnað andrúmsloftþegar flautað var til leiks. 

Sevilla var sterkara liðið fyrstu mínúturnar og það var eins og leikmenn Liverpool væru taugaóstyrkir. En á 8. mínútu átti Emre Can óvænt langskot sem David Soria sló frá. Við þetta var eins og leikmenn Liverpool fengju sjálfstraustið. Um þremur mínútum seinna sendi Nathanile Clyne yfir á fjærstöng frá hægri. Daniel Sturridge skallaði boltann til baka þvert fyrir markið framhjá David en varnarmaður náði að sparki boltanum frá við marklínuna. Litlu síðar braust Roberto Firmino inn í vítateiginn og þegar hann reyndi að komast framhjá varnarmanni slæmdi hann hönd í boltann og við það komst Roberto ekki framhjá honum. Eins var hægt að færa rök fyrir því að varnarmaðurinn hefði fellt Roberto. Þetta hefði átt að dæmast víti!

Liverpool hafði nú undirtökin. Á 24. mínútu sendi Adam Lallana snjalla sendingu inn í vítateiginn á Daniel en markmaðurinn náði að verja. Þarna hefði Daniel kannski getað gert betur en vel gert hjá markmanninum. Á 32. mínútu ógnaði Sevilla fyrst þegar Kévin Gameiro átti hjólhestaspyrnu framhjá eftir horn.

Á 35. mínútu komst Liverpool verðskuldað yfir. Boltinn gekk frá hægri til vinstri fyrir framan vítateiginn. Samspilið endaði á því að Philippe Coutinho sendi út á Daniel Sturridge sem fékk boltann utarlega í vítateignum til vinstri. Það virtist ekki vera mikil hætta á ferðum en Daniel smellti boltanum glæsilega í markið út við stöng hægra megin með mögnuðu utanfótarskoti með vinstri fæti. Snilldarlegt mark og allt varð vitlaust af fögnuði.

Fjórum mínútum seinna skoraði Liverpool aftur. Dejan Lovren skallaði þá í mark eftir hornspyrnu frá hægri. Aftur fögnuðu Rauðliðar mjög en nú var fögnuðurinn stuttur því dómarinn dæmdi markið af. Daniel var fyrir innan og var talinn hafa gert atlögu að boltanum þegar hann var á leiðinni í markið. En einn varnarmaður var seinn út og hugsanlega var Daniel ekki rangstæður en dómurinn stóð. Með marki á þessum tímapunkti hefði Liverpool líklega farið langt með að gera út um leikinn. 

Rétt á eftir vildu leikmenn Liverpool fá víti í annað sinn þegar varnarmaður stöðvaði sendingartilraun Daniel inni í vítateignum. Varnarmaðurinn beygði sig niður og stöðvaði sendinguna. Ekki spurning um víti en ekkert dæmt! Fyrir leikhlé slæmdi svo varnarmaður hönd í knöttinn en það var ekki gerð krafa um víti en þrisvar hendi í einum hálfleik hefði nú átt að gefa eitt víti í það minnsta. Á lokamínútunni átti Nathaniel góða fyrirgjöf sem tveir leikmenn Liverpool voru næstum komnir í. Liverpool var með sanngjarna forystu þegar flautað var til leikhlés. 

Stuðningsmenn Liverpool voru bjartsýnir fyrir síðari hálfleikinn enda hafði liðið þeirra spilað vel, komist yfir og í raun átt að hafa enn meiri forystu. Þetta breyttist allt á augabragði eftir 17 sekúndur í síðari hálfleik. Alberto Moreno náði ekki að skalla almennilega frá og Mariano Ferreira fékk boltann hægra megin. Hann lék á Alberto eins og að drekka vatn og svo inn í vítateiginn þar sem hann gaf fyrir á Kevin Gameiro sem skoraði af stuttu færi. Hræðilegur varnarleikur hjá Alberto og óskiljanlegt að fá á sig mark eftir svona skamman tíma í síðari hálfleik og það í úrslitaleik. Um þremur mínútum seinna komst Kevin í gegnum vörn Liverpool en Kolo Toure gaf það ekki eftir, elti framherjann snögga uppi og komst fyrir skot hans. Magnað hjá Kolo sem var frábær í leiknum og sýndi ekki nein ellimerki.

En eftir þetta var eins og alliur vindur væri úr Liverpool. Leikmenn virtust missa trúna á verkefnið á sama tíma og Sevilla fór í gang. Á 60. mínútu varði Simon Mignolet frábærlega einn á móti Kevin sem fékk boltann stutt frá markinu eftir að hann barst til hans eftir innkast. Það kom ekki á óvart þegar spænska liðið komst yfir á fjórum mínútum seinna. Coke skoraði þá frá vítateignum eftir eldsnöggt samspil. 

Markið vakti Liverpool og á 70. mínútu komst Sevilla tveimur mörkum yfir. Aftur réðu leikmenn Liverpool ekki við hraðan samleik Sevilla. Coke fékk boltann frír hægra megin í vítateginum hægra megin og skoraði. Línuvörðurinn flaggaði en dómarinn dæmdi mark. Coke var ekki rangstæður því boltinn kom til hans frá leikmanni Liverpool. Þótt nóg væri eftir af leiknum þá var leikmönnum Liverpool öllum lokið og það var ekki nein endurkoma í boði í þetta skiptið. Gríðarlega mikil vonbrigði og leikmenn og stuðningsmenn Liverpool voru miður sín í leikslok á meðan Seveilla og þeirra fylgismenn fögnuðu sigri í þessari keppni þriðja árið í röð sem er magnað afrek.

Þessi leikur skiptist í tvö horn. Liverpool átti góðan leik fyrir hlé og hefði jafnvel átt að hafa meiri forystu. Hendur leikmanna Sevilla hefðu líka átt að gefa eina vítaspyrnu eða svo. Eftir hlé fór svo allt í vaskinn og vonbrigðin voru gríðarleg. Lykilmenn voru langt frá sínu besta og krafturinn sem liðið sýndi oft í keppninni var víðsfjarri. Vonbrigði og ekki síst vegna þess að þetta var annað úrslitatapið á leiktíðinni! Vonandi gengur betur næst! 

Liverpool: Mignolet; Clyne, Lovren, Toure (Benteke 82. min.), Moreno; Milner, Can; Lallana (Allen 73. mín.), Firmino 6 (Origi 69. mín.), Coutinho og Sturridge. Ónotaðir varamenn: Ward, Leiva, Henderson og Skrtel.

Mark Liverpool:
Daniel Sturridge (35. mín.)

Gul spjöld: Dejan Lovren og Divock Origi.

Sevilla: Soria; Ferreira, Rami (Kolodziejczak 78. mín.), Carrico, Escudero; Krychowiak, NZonzi; Coke, Banega (Cristoforo 90. mín.), Vitolo og Gameiro (Iborra 89. mín.). Ónotaðir varamenn: Rico, Pareja, Konoplyanka og Llorente.

Mörk Sevilla: Kevin Gameiro (46. mín.) og Coke (64. og 70. mín.)

Gul spjöld:
Vitolo, Ever Banega, Adil Rami og Mariano Ferreira.

Áhorfendur á St Jakobs leikvanginum: 
34.429.


Maður leiksins: Kolo Toure. Hinn þrautreyndi varnarmaður var magnaður í vörninni og hélt haus allan leikinn. Samherjar hans hefðu getað tekið hann sér til fyrirmyndar.  

Jürgen Klopp: Á morgun eða eftir viku eða eitthvað svoleiðis verðum við búnir að átta okkur betur á þessu og þá munum við notfæra okkur það sem við finnum út til að draga lærdóm af. Við verðum að gera það. Við verðum ekki í Evrópukeppni á næstu leiktíð. Enginn knattspyrna á fimmtudögum og það þýðir að við fáum meiri til tíma til æfinga. Við munum nota tímann vel og það er ekki vafi á því að við munum koma sterkari til baka!

Fróðleikur

- Liverpool hafði unnið þessa keppni þrisvar, 1973, 1976 og 2001. Nú tapaði liðið úrslitaleik í keppninni í fyrsta sinn. 

- Sevilla vann keppnina þriðja árið í röð og í fimmta skipti, 2006, 2007, 2014, 2015 og 2016.

- Daniel Sturridge skoraði 13. mark sitt á leiktíðinni. 

- Hann varð þar með markakóngur Liverpool á keppnistímabilinu.

- Liverpool tapaði öðrum úrslitaleik sínum á leiktíðinni. Áður tapaði liðið fyrir Manchester City í úrslitum Deildarbikarsins.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com. 








34,429
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan