| Grétar Magnússon

Karius í læknisskoðun

Þýski markvörðurinn Loris Karius er mættur til Liverpool til að gangast undir læknisskoðun og skrifa undir samning við félagið.

Karius mun gangast undir læknisskoðun á næstu 24 klukkustundum eftir að Liverpool og Mainz komust að samkomulagi um kaupverðið, sem er talið vera um 4,7 milljónir punda.

Hann er 22 ára gamall og mun væntanlega koma til með að veita Simon Mignolet samkeppni um markvarðastöðuna hjá félaginu á næstu leiktíð.  Karius var sem unglingur á mála hjá Manchester City en fór aftur til Þýskalands og stóð sig gríðarlega vel hjá Mainz á leiktíðinni.

Fátt getur komið í veg fyrir að kaupin gangi í gegn úr þessu og verður hann því þriðji leikmaðurinn sem Jurgen Klopp kaupir til félagsins, á eftir þeim Marki Grujic og Joel Matip.

Fleiri leikmenn eru sagðir vera undir smásjá Liverpool, aðalskotmarkið er Mario Götze en einnig eru þeir Mahmoud Dahoud, miðjumaður hjá Borussia Mönchengladbach og Ben Chilwell vinstri bakvörður hjá Leicester orðaðir við félagið.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan