| Sf. Gutt

Af EM

Nokkrir fulltrúar Liverpool hafa verið að spila síðustu daga. Í gær kom fyrsta Liverpool markið ef svo mætti segja. 

Adam Lallana var í byrjunarliði Englands í Bretlandsslagnum við Wales. Hann stóð fyrir sínu. Danny Ward missti markmannsstöðuna en Wayne Hennessey var búinn að ná sér og kom í mark Wales. Joe Allen var í liði Wales eins og venjulega. Hann átti fínan leik. 

Gareth Bale kom Wales yfir með marki beint úr aukaspyrnu þegar stutt var til leikhlés. Roy Hodgson sá að það stefndi í óefni og setti Jamie Vardy og Daniel Sturridge inn á í hálfleik. Jamie jafnaði á upphafskafla síðari hálfleiks. England gerði um tíma harða hríð að marki Wales en náði ekki að skora. Allt stefndi í jafntefli þar til Daniel skoraði magnað mark af stuttu færi á lokamínútunni og tryggði mikilvægan sigur Englands 2:1. Daniel var mjög góður og efldi sóknarleik enska liðsins. 

England hefur nú fjögur stig en Wales er með þrjú. Slóvakía vann Rússland 2:1 og stóð Martin Skrtel fyrir sínu í þeim leik. Slóvakar hafa þrjú stig og Rússar eitt. 

Í gærkvöldi skildu Þjóðverjar og Pólverjar án marka. Emre Can var á bekknum allan tímann.

  

 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan