| Sf. Gutt

Af Suður Ameríkukeppninni

Suður Ameríkukeppninni lauk í nótt að íslenskum tíma. Síle vann annað árið í röð. Fyrrum leikmaður Liverpool tók þátt í úrslitaleiknum.

Keppnin í ár var nokkurs konar aukakeppni en hún var haldin í tilefni þess að öld er liðin frá fyrstu keppninni. Síle og Argentína léku til úrslita eins og í fyrra en þá vann Síle í vítaspyrnukeppni. Ekkert mark var skorað í venjulegum leiktíma eða framlengingu. Síle hafði betur í vítaspyrnukeppni 4:2. Segja má að það hafi verið gegn gangi leiksins en Argentína var mun sterkari aðilinn en ekkert gekk og Argentína tapaði fjórða úrslitaleik sínum í röð á stórmóti.

Javier Mascherano, fyrrum leikmaður Liverpool, var frábær í liði Argentínu og skoraði í vítakeppninni. Talið er að hann muni nú hætta með landsliðinu. Lionel Messi, besti knattspyrnumaður í heimi, tilkynnti eftir leikinn að hann væri hættur að spila með landsliðinu. Hann misnotaði fyrstu spyrnu Argentínu. Eini landsliðstitill þess magnaða leikmanns kom þegar hann varð Olympíumeistari 2008. Lionel og félagar hans, sem spiluðu frábærlega í keppnini, voru niðurbrotnir í leikslok. 

Kólúmbía vann bronsið eftir 1:0 sigur á Bandaríkjunum.

Philippe Coutinho var eini leikmaður Liverpool sem tók þátt í keppninni. Hann skoraði þrjú mörk en Brasilía komst ekki upp úr sínum riðli.



  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan