| Grétar Magnússon

Sadio Mané er nýjasti leikmaður félagsins

Í dag voru kaupin á Senegalanum Sadio Mané frá Southampton staðfest.  Mané mun spila í treyju númer 19.



Í sínu fyrsta viðtali sagði Mané:  ,,Ég vissi að Liverpool höfðu áhuga á mér, ég hafði einnig önnur tækifæri en ég held að þetta sé rétta félagið fyrir mig, rétti þjálfarinn og rétti tímapunkturinn að breyta til."

,,Ég er mjög ánægður með að vera orðinn hluti af Liverpool FC."

Mané er 24 ára gamall og kemur eins og áður sagði frá Southampton en þangað var hann keyptur árið 2014 og hefur því spilað tvö tímabil með suðurstrandarliðinu.  Hann spilaði alls 75 leiki fyrir félagið og skoraði í þeim 25 mörk í öllum keppnum.  Hann spilar reglulega fyrir landslið Senegal og hefur hann til þessa spilað 36 landsleiki og skorað 10 mörk.

Mané hóf knattspyrnuferilinn hjá franska félaginu Metz og gekk svo til liðs við austurríska liðið Red Bull Salzburg og þaðan fór hann svo til Southampton.

Hann sagði ennfremur:  ,,Þetta er stór dagur og ég er mjög ánægður með að skrifa undir hjá einu stærsta félagi Evrópu.  Þetta er félag sem hefur unnið til margra verðlauna og er með mikla sögu.  Núna hlakka ég til þess að hitta allt starfsfólkið, liðsfélagana og byrja tímabilið."

Mané er fjórði leikmaðurinn sem félagið kaupir á árinu og bætist þar með í hóp Loris Karius, Joel Matip og Marko Grujic.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan