| Grétar Magnússon

Sinclair fer til Watford

Nú rétt í þessu var tilkynnt að Liverpool og Watford hafa komist að samkomulagi um söluna á sóknarmanninum unga Jerome Sinclair.

Sinclair hefur nú þegar komist að samkomulagi við Watford um að ganga til liðs við þá en reglur enska knattspyrnusambandsins kveða á um að þegar svo ungir leikmenn semja við nýtt félag eftir að samningur hefur runnið út, skuli greiða uppeldisbætur til félagsins sem leikmaðurinn kemur frá.

Liverpool og Watford hafa semsagt náð samkomulagi um þær uppeldisbætur og því er allt klárt til að ganga frá félagaskiptunum.

Sinclair spilaði sinn fyrsta leik fyrir Liverpool tímabilið 2012/2013 þegar hann kom inná sem varamaður í Deildarbikarleik gegn West Bromwich Albion.  Hann kom svo ekkert við sögu tímabilið þar á eftir en á þarsíðasta tímabili, 2014/2015, kom hann við sögu í tveim leikjum í ensku Úrvalsdeildinni.  Á nýliðnu tímabili spilaði hann svo tvo leiki í FA Bikarnum og skoraði sitt fyrsta og eina mark fyrir félagið í 2-2 jafntefli við Exeter City þann 8. janúar (sjá mynd).  Síðasti leikur hans fyrir félagið var svo gegn West Ham á Anfield þegar hann kom inná sem varamaður.

Alls kom því Sinclair við sögu í 5 leikjum hjá Liverpool á sínum stutta ferli en um mitt síðasta tímabil var ljóst í hvert stefndi þegar hann vildi ekki endurnýja samning sinn við félagið.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan