| Grétar Magnússon

Sigur á Wigan

Liverpool léku sinn þriðja æfingaleik á undirbúningstímabilinu gegn.  Lokatölur voru 0-2 Liverpool í vil.

Byrjunarliðið var þannig skipað að Loris Karius stóð í markinu, í vörninni voru þeir Connor Randall, Dejan Lovren, Joel Matip og Jon Flanagan.  Á miðjunni voru Kevin Stewart, Cameron Brannagan, Ovie Ejaria og frammi Coutinho, sem spilaði sinn fyrsta leik á undirbúningstímabilinu, Roberto Firmino og Sadio Mané.


Fyrri hálfleikur var ekki tíðindamikill en Coutinho sýndi snilli sína á köflum og eftir aðeins fimm mínútna leik þrumaði hann í þverslána beint úr aukaspyrnu og nokkrum mínútum síðar þrumaði hann í stöngina.  Minnstu munaði að Karius markvörður gerði sig sekan um hrikaleg mistök þegar hann fékk boltann á markteig, boltinn fór undir fót hans og sóknarmaður Wigan gerði sig líklegan til að senda boltann í autt markið en Karius stökk á boltann og náði að koma honum aftur fyrir endamörk.  Coutinho hélt áfram að ógna en inn vildi boltinn ekki og staðan því markalaus í hálfleik.

Í hálfleik gerði Klopp átta breytingar á liðinu, inn komu þeir Tiago Ilori, Andre Wisdom, Trent Alexander-Arnold, Lucas, Ryan Kent, Ben Woodburn, Danny Ings og Lazar Markovic.  Þeir sem héldu af velli voru Lovren, Flanagan, Stewart, Brannagan, Ejaria, Coutinho, Firmino og Mané.

Liverpool höfðu yfirhöndina einnig í síðari hálfleik en það tók þá dágóðan tíma að brjóta ísinn.  Þegar um það bil 20 mínútur voru eftir af leiknum skoraði Danny Ings gott mark eftir sendingu frá Markovic og skömmu síðar sneri Ryan Kent sér laglega á miðjunni og sendi boltann innfyrir á Woodburn sem afgreiddi boltann snyrtilega í markið.  Woodburn er að koma skemmtilega inn á undirbúningstímabilinu og hefur staðið sig vel.


Lokatölur því 2-0 og það skyggði aðeins á úrslitin að Joel Matip haltraði af velli þegar skammt var eftir en Jurgen Klopp sagði eftir leik að hann taldi meiðslin ekki alvarleg.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan