| Grétar Magnússon

Sigur á Huddersfield

Fjórði æfingaleikur Liverpool fór fram miðvikudagskvöldið 20. júlí og unnu okkar menn 0-2 sigur á Huddersfield.

Stjóri Huddersfield, David Wagner, er einn besti vinur Jurgen Klopp og var Wagner t.a.m. svaramaður Klopp í brúðkaupi hans.  Það voru því fagnaðarfundir í upphitun þegar þeir vinirnir ræddu málin fyrir leik.

Byrjunarlið Klopp var þannig skipað:  Karius, Randall, Lovren, Lucas, Moreno, Grujic, Stewart, Ejaria, Mané, Firmino, Coutinho.


Heimamenn í Huddersfield byrjuðu betur í leiknum en ógnuðu þó aðeins með skotum af löngu færi.  Gestirnir tóku svo völdin eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og Mané þrumaði í hliðarnetið eftir ágætt samspil við Coutinho og Grujic.  Mané skoraði svo á 18. mínútu en markið var dæmt af á einhvern óskiljanlegan hátt.  Hann nýtti sér slaka sendingu aftur til markvarðar og renndi sér í boltann og sendi hann í netið.  En dómarinn mat það svo að hann hefði brotið á markverði Huddersfield við þetta og dæmdi aukaspyrnu.  

Heimamenn ógnuðu skömmu síðar en Karius sló skot frá Lolley í burtu.  Næsta sókn gestanna skilaði svo marki.  Mané fékk góða sendingu upp hægri kantinn og sendi innfyrir á Firmino.  Hann sendi boltann út í teiginn vinstra megin þar sem Marko Grujic tók boltann niður og sendi hann svo beint í markið með föstu vinstrifótar skoti.  Serbinn þar með að skora sitt annað mark í jafnmörgum æfingaleikjum.  Gestirnir fengu svo vítaspyrnu tveim mínútum síðar er Mané var felldur í teignum.  Coutinho fór á punktinn en lét markvörð Huddersfield verja frá sér.

Klopp gerði svo sex breytingar á liðinu í hálfleik.  Inn komu þeir Alexander-Arnold, Wisdom, Woodburn, Kent, Markovic og Ings í stað Randall, Ejaria, Grujic, Mané, Coutinho og Firmino.

Það markverðasta í seinni hálfleik var það að Lucas meiddist og þar sem Klopp var með fáliðaðan varamannabekk setti hann varamarkvörðinn Shamal George inná sem sóknarmann !  Hann þótti standa sig vel í hlutverkinu þrátt fyrir það og Klopp var hæstánægður með frammistöðuna.

Þrátt fyrir að vera einum færri náðu Liverpool að bæta við marki.  Önnur vítaspyrna var dæmd seint í leiknum og Alberto Moreno fór á punktinn og skoraði.  Niðurstaðan því 0-2 sigur og liðið hélt svo til Bandaríkjanna snemma í morgun í æfingabúðir og eftir viku er fyrsti æfingaleikurinn þar gegn Chelsea.

Hér má sjá svipmyndir úr leiknum.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan